7.2.2008 | 07:47
Bandaríkin viðurkenna ómannúðlegar pyntingar
Yfirmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar hefur viðurkennt að Bandaríkin hafi notað ómannúðlegar aðferðir við að knýja fram játningar hjá meintum hryðjuverkamönnum. Aðferðir sem eru skýlaust brot á alþjóðasamningum. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn hafa viðhaft í fangabúðunum í Guantanamo eru algerlega óréttlætanlegar. Ekki eru nema 2-3 vikur síðan dómsmálaráðherra Bandaríkjanna þvertók fyrir, í bréfi til Bandaríkjaþings, að slíkar pyntingar væru stundaðar.
Það hlýtur að vekja upp spurninguna um það hvort yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda séu yfirleitt trúverðugar, hvort það sé yfirleitt hægt að reiða sig á þau svör sem stjórnvöld gefa meðal annars fyrir bandaríska þinginu. Þannig má segja að jafnvel þótt því sé haldið fram núna að þessar aðferðir hafi ekki verið notaðar undanfarin fimm ár og aðeins á þremur föngum þá er full ástæðu til að tortryggja þær yfirlýsingar þegar það liggur fyrir að að dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sagði þinginu ósatt fyrir örfáum vikum síðan um þetta sama mál.
Bandaríkin eru því miður ótrúverðug sem brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda sem þau þó telja sig vera og hafa um langt skeið verið fyrirmynd margra, ekki bara um hinn vestræna heim heldur annars staðar einnig. Ísland vill vera í fararbroddi í mannréttindamálum og baráttan fyrir mannréttindum og lýðræði er einmitt eitt af meginmarkmiðum Íslands í framboði þess til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Alþingi Íslendinga á því að láta þessi mál til sín taka með því að utanríkismálanefnd Alþingis ljúki umfjöllun um þingsályktunartillögu okkar Vinstri grænna um að fordæma mannréttindabrot í Guantanamo og sem þingmenn allra flokka hafa lýst stuðningi við. s
En ég hlýt líka að velta því upp hvort utanríkisráðherra eigi ekki að kalla sendiherra Bandaríkjanna hér á landi á sinn fund og mótmæla þessu framferði og lýsa vanþóknun Íslendinga á framferði Bandaríkjanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ætli yrði ekki þröng á þingi hjá utanríkisráðherra ef hún ætlaði að kalla á sinn fund fulltrúa allra þeirra ríkja sem stunda pyntingar, fangelsun án laga og réttar, ómannúðlegar fangelsanir o.s.frv. Eigum við von á að þingheimur mótmæli framferði annarra ríkja en Bandaríkjanna? Eigum við von á að hjarta Árna Þórs blæði yfir örlögum hundruðir þúsunda manna sem njóta ekki mannréttinda - í löndum á borð við Kína, Kúbu, N-Kóreu, fjölda ríkja í Afríku, mið-austurlönd, sum lönd Karíbahafs og S-Asíu, jafnvel S-Ameríku? Hvenær mun réttlætiskennd þingmannsins mæla fyrir fórnarlömbum þessara landa? Trúverðugleikinn stendur og fellur með því að leggja sömu mælistiku á framferði allra, ekki að úthúða Bandaríkjunum einum.
Ólafur Als, 7.2.2008 kl. 12:30
Ólafur: Þessi lönd sem þú nefnir eru ekki að kalla sig lýðræðisríki. Einræðisherrar og kommúnistaríki eru ekki á sömu mælustiku og landið sem kallar sig land of the free.
Einar Jón, 7.2.2008 kl. 13:08
En er það ástæða fyrir okkur til að segja ekkert við framferði stjórnvalda í þeim löndum, þar sem ekki er lýðræði, heldur eiga þvert á móti sem mest viðskipti við þau? Og hyggurðu þetta, sem þú nefnir, vera ástæðuna fyrir því, að sumir gamlir vinstrimenn gagnrýna einungis Bandaríkin í þessu efni?
Jón Valur Jensson, 7.2.2008 kl. 15:06
Til viðbótar má bæta við, að sum landanna sem ég nefndi hafa stjórnvöld sem kenna sig við sósíalisma, starfa alla jafna í "umboði" landa sinna, trúarbragða eða eins og réttilega er bent á; búa við einræði án tilvísana í einhverja sérstaka isma. Eitt land, sem er stórtækt í illri meðferð á föngum og hefur leikið sér að því að fangelsa án dóms og laga, er annað stærsta "lýðræðisríki" heims, Rússland. Margt misjafnt má segja um "land of the free" en þeir hafa þó haft fyrir því að segja frá eigin voðaverkum að þessu sinni, ólíkt nokkru öðru ríki sem ég kannast við. Það er vonandi fyrsta skrefið í átt að bættri hegðan þeirra.
En fyrst og fremst eru örlög fórnarlambanna hinna sömu - óháð stjórnarfyrirkomulagi. Einhver gæti jafnvel haldið að baráttan snerist um hag þeirra.
Ólafur Als, 7.2.2008 kl. 16:38
Ertu viss um að þeir hafi viðurkennt að pyntingar þeirra hafi verið ómannúðlegar?
Sigurður Ásbjörnsson, 8.2.2008 kl. 01:03
Ég hlýt nú að velta því upp hvort málshefjandi sé hugsanlega alvarlega meðvirknisjúkur meðlimur í pólitíska rétttrúnaðarsöfnuðinum. Ómannúðlegar pyndingar ??? Á hvaða stig er kóeríið eiginlega komið ?? Hefur 90% alþingis farið í meðferð ??
Baldur Fjölnisson, 8.2.2008 kl. 01:08
Spurning hvor tpyntingar geti yfirleitt verið "mannúðlegar"?
Árni Þór Sigurðsson, 8.2.2008 kl. 12:25
Voðaleg andans fátækt er þetta hjá hægrimönnum. Einsog venjulega byrjar þessi rulla um einhverja aðra sem beiti pyntingum, að vinstri menn þetta og hitt!
Merkur málsins er sá að BNA beitir pyntingum, bæði innan lands og utan. Það verður hvorki betra né verra þó aðrir beiti pyntingum. Og að vinstrimenn þetta eða hitt.
En það er kannski í kristilegum kærleiksanda (JV) að beita óvini sína pyntingum?
Pyntingar er óþverraskapur sama hver að verki er. BNA hefur alltaf beitt pyntingum hvar sem þeir hafa verið á ferð. Ófriður þeirra gegn alþýðu manna í Indókína er kannski að falla í gleymsku. Þar pyntuðu Kanar alla þá sem þeir komu höndum yfir og töldu hafa upplýsingar. Skipti þá engu hvort fórnarlambið var barn, karl, kona, gamalmenni. Þessu halda þeir áfram af sínum alkunna skepnuskap. En ýmsum bloggurum virðist þetta í fínasta lagi af því þeir vita um einhverja aðra sem beita skepnuskapnum. Hinn kristilegi kærleiksandi bókstafstrúarmanna lætur ekki að sér hæða!
Það sem þer gerið minum minnsta bróður...
Auðun Gíslason, 9.2.2008 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.