19.2.2008 | 22:39
Hvers vegna hefur Ingibjörg Sólrún allt á hornum sér?
Í dag (þriðjudag) fór fram stutt umræða um nýgerða kjarasamninga á Alþingi. Forsætisráðherra gerði þinginu grein fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á næstu árum, m.a. í skatta- og velferðarmálum. Af hálfu okkar þingmanna og forystumanna Vinstri grænna hefur komið skýrt fram að sú hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sé jákvæð og rétt og við styðjum hana. Um leið höfum við bent á þá augljósu staðreynd að lægstu launin hér á landi eru langt undir framfærslu- og fátæktarmörkum og að afar hægt miðar í þá átt að allir búi við mannsæmandi kjör.
Að okkar mati hefði framlag ríkisvaldsins átt að vera í þá átt að lyfta kjörum þeirra sem helst þurfa á því að halda enn frekar en kjarasamningarnir gera. Skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin boðar lúta annars vegar að því að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15% frá og með tekjuárinu 2008 og hins vegar að persónuafsláttur hækki um 7000 kr. umfram verðlagsbreytingar á þremur árum, fyrst árið 2009. Þar sem hækkun persónuafsláttarins gengur upp allan tekjuskalann munu umtalsverðar upphæðir fara úr ríkissjóði til þeirra sem hafa háar og jafnvel mjög háar tekjur. Þær fjárhæðir hefðu betur verið komnar sem viðbótarframlög til þeirra sem enn eru undir framfærslumörkum. Það er leið jöfnuðar sem við í VG hefðum viljað fara.
Ríkisstjórnin hafði hafnað þeirri leið sem verkalýðshreyfingin vildi fara að koma á sérstökum persónuafslætti til tekjulágra hópa. Það hefði verið jafnaðarstefna í verki. En þess í stað er það skattastefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur orðið ofan á hjá ríkisstjórninni, skattastefna sem ekki er til þess fallin að auka jöfnuð líkt og hægt hefði verið að gera. Á þetta hljótum við að benda.
Þá bregður svo við að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur allt á hornum sér og leggur sérstaka lykkju á leið sína til að ausa okkur Vinstri græn skömmum, aðallega fyrir að benda á þessi atriði. Henni mislíkar greinilega að við skulum ekki bera lof á ríkisstjórnina fyrir framlag hennar, rétt eins og það verði ekki nógir um það í röðum þingmanna! Vill formaður Samfylkingarinnar ekki að menn segi kost og löst á því sem gert er? Ingibjörg Sólrún verður að una því að það er stjórnarandstaða í landinu og að hún mun að sjálfsögðu halda því til haga sem betur má fara, að ekki sé talað um þegar hún telur að ekki sé farið rétt að málum. Formaður Samfylkingarinnar þarf ekki að taka það persónulega og bregðast við eins og svo sé. Þetta snýst um pólitík og stefnumál og við í VG teljum að í þessu efni (eins og því miður í alltof mörgum öðrum málum) hafi Samfylkingin látið undan frjálshyggju- og misskiptingarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Og við kunnum því illa. Nema hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hún má að sjálfsögðu svara, en ætti að gera það á málefnalegum forsendum en ekki með persónulegu skítkasti.
Árni Þór Sigurðsson, 19.2.2008 kl. 22:58
Alveg makalaust að þið skulið setja það inn í málflutning ykkar að lækkun tekjuskatts fyrirtækja sé eitthvað neikvætt. Svo velti ég því fyrir mér hvar línan á að liggja varðandi lægri persónuafslátt. Við mánaðarlaun upp á 500 þús.? 800 þús? Miljón?
Það er nefnilega þannig að eftir því sem mörkin liggja lægra því meiri líkur eru á óánægju þeirra sem eru rétt ofan við þau og ef þau liggja mjög hátt, þá skiftir það ríkisjóð engu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2008 kl. 00:39
Hvað varðar skattalækkun til fyrirtækja þá höfum við ekki sagt að það sé neikvætt. Hins vegar bendum við á að fyrritækjaskattur hér er nú með því allra lægsta sem þekkist í nálægum löndum, en það er oft talað um samkeppnishæfni Íslands í þessu sambandi og við teljum að hún sé nú þegar mjög sterk. Síðan snýst þetta líka um forgangsröðun, að okkar mati er forgangsmál að koma lægstu launatöxtum í mannsæmandi horf og upp fyrir fátæktarmörk og þess vegna hefði sérstakur persónuafsláttur á lægstu laun (og við erumm ekki að tala um 500 þús. í því efni!!) skilaði meiri árangri. Þetta er allt spurning um pólitíska forgangsröðun og augljóslega er hún önnur hjá okkur í VG en hjá ríkisstjórninni. Við leyfum okkur að benda á það.
Árni Þór Sigurðsson, 20.2.2008 kl. 07:59
Heldur þú að það yrði friður með það að launamaður undir 150 þús. hefði hærri persónuafslátt eða lægri skattaprósentu en sá sem er með 151 þús? Slíkt hringl væri eins og að henda sprengju inn í kjarasamninga og á meðan þið eruð ekki að taka ábyrgð á einu né neinu, þá er kannski eðlilegt að ykkur hugnist slíkt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2008 kl. 09:04
Í raun er 150 þúsund króna launþeginn með hærri afslátt en 500 þús króna maðurinn. Útfærslan er svona: Miðað við 1000 kr. hækkun þá er hækkun 150 þúsund mannsins 0,7% en einungis 0,2% á 500 þús. Þetta er hækkun á raungildi á tímabilinu um 14% til láglaunamannsins en einungis 4% hækkun til 500 þús. Þeir fá þó sömu krónutöluhækkun. Treystir þú þér Árni að mótmæla þessu? Auk þess verða skattleysismörkin komin í 125 þús vegna þess að þau fylgja verðlagi. Þetta eru sætu berin. Svo máttu tína þau súru sem eru auðvitað þarna. Allir vildu meira. Það er alveg hægt að gagnrýna í stjórnarandstöðu en ekki með svona pirringi. Taktu þér Guðna Ágústsson þér til fyrirmyndar!
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 09:39
Verð nú að segja að mér hefur ávalt fundist vinstri grænir hafa borið höfuð og herðar yfir aðra þingmenn þegar það kemur að skítkasti og frammíköllum.... með orðum eins og "skítlegt eðli"
.....
Páll Einarsson, 20.2.2008 kl. 09:54
Gísli.
Mér dettur ekki í hug að mótmæla þessum útreikningum enda hef ég ekki gert það. En prósentutreikningur í þessu efni er að mínu viti bara til að villa mönnum sýn. Vitaskuld er prósentan hærri á lægri upphæð, að ekki sé talað um MIKLU LÆGRI upphæð. Þess vegna hefðum við viljað sjá þá heildarfjárhæð sem fer í að hækka persónuafsláttinn einskorðast við lágtekjuhópa - er það ekki skýr pólitík? Ríkisstjórnin vildi greinilega annað.
Árni Þór Sigurðsson, 20.2.2008 kl. 11:28
Allt byggist þetta á málamiðlun Árni. Þannig gengur þetta til í fjölflokkastjórn. Það sem merkilegast er að þetta útspil er stærsta útspil rikisstjórnar til tekjujafnaðar í þjóðfélaginu frá 1970. Það var fallist á þessa leið vegna þess að hún gefur sömu krónutölu á alla innan ASÍ. Svo eru kennarasamningar framundan. Þar höldumst við í hendur er það ekki?
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 11:56
Páll er eitthvað að ruglast hérna: "skítlegt eðli" kom úr munni Davíðs Oddssonar sem seint verður talinn Vinstri grænn. Ég veit stundum ekki hvort vanþekkingu eða sögufölsun er um að kenna en önnur ummæli Davíðs sem hann lét falla um Samfylkinguna eru nú notuð um Vinstri græn. Einkennilegt.
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 20.2.2008 kl. 12:56
Hvað sagði hann aftur...kratatitts...eitthvað og fékk ekki bjöllu á sig.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 13:03
Ég og eflaust margir aðrir treysta á VG sem eina stjórnarandstöðuflokkinn, hinir eru úti á þekju, eða sundurtættir af innri átökum og rugli.
Þeir eru í senn grátlegir og hlægilegir þessir smánarsamningar. Íslenskur verkalýður selur sig ódýrt um þessar mundir og metur lítils eigið vinnuframlag. Eflaust er fólk hrætt við að missa störfin til erlendra verkamanna, sem selja sig mun ódýrara.
Þessi 10% hækkun er étin upp í verðtryggingu, vöxtum og verðhækkunum um leið og blekið er þornað á undirskriftarpappírunum.
Vonandi hefur grasrótin manndóm til að hafna þessum samningum í atkvæðagreiðslu.
Theódór Norðkvist, 20.2.2008 kl. 14:11
Davíð sagði að Samfylkingin væri "afturhaldskommatittsflokkur" !! Hvað ætli hann segi í dag??
Ingimar Eydal, 20.2.2008 kl. 14:18
Sennilega hefur hann vit á að þegja - þunnu hljóði - núna. Einu sinni komst Davíð svo að orði að stjórnarandstæðan hafi sýnt af sér „yfirgripsmikla þröngsýni“!!
Í þann tíð var hann í sínu mikla stuði og átti stundum effitt með að hemja óánægju sína. Þessi tvö orð: „yfirgripsmikill“ og „þröngsýni“ geta eiginlega aldrei staðið saman því þau eru hrópandi andstæður og það sér hver heilvita maður. En engu að síður dettur svona nokkuð út úr stjórnmálamanni með mikið geð og mikinn ham augnabliksins.
Annars eru mörg „gullkornin“ sem til hafa fallið gegnum tíðina.
Guðjón Sigþór Jensson, 23.2.2008 kl. 00:40
Árni. Ert þú að dásama tillögu upp á 49% jaðarskatt á tekjubilinu 150 til 300 þúsund kr. og síðan tæplega 36% jaðaráhrif eftir það? Þetta væri fyrir utan jaðaráhrif barnabóta og vaxtabóta, sem gæti leitt til allt að 63% jaðaráhrifa hjá fólki með tekjur á bilinu 150 til 300 þúsund kr.
Eða með öðrum orðum. Ert þú að dásama fátæktargildru þar, sem fólk með lág laun ber lítið úr bítum ef það eykur tekjur sínar svolítið og hefur því litla hvatningu til þess?
Sigurður M Grétarsson, 24.2.2008 kl. 14:47
Þvert á móti. Það er sérkennileg staða ef ekki er hægt að hækka ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með lág laun vegna skattkerfisins. Má minna á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þráfaldlega lýst sig andsnúinn hugmyndum um amk. tvö skattþrep sem við í VG höfum talað fyrir og sömuleiðis verkalýðshreyfingin.
Árni Þór Sigurðsson, 25.2.2008 kl. 09:06
Af hverju leggur þú bara ekki til 300 þúsund kr. skattleysismörk og síðan 100% skatt eftir það? Væri það ekki í anda jafnaðarstefnunnar?
Þegar menn hafa hingað til talað um tvö skattþrep hefur hugmyndin venjulega gengið út á það að jaðaskattar væru lægri hjá lágtekjufólki en hátekjufólki. Þessu er öfugt farið í þessari tillögu ASÍ. Þar eru jaðarskattar 49% á tekjubilinu 150 til 300 þúsund kr. á mánuði og lækka síðan niður í tæp 36% hjá launþegum með meira en 300 þúsund kr. í tekjur á mánuði. Til viðbótar við þetta koma síðan jaðaráhrif af barnabótum, vaxtabótum og húsaleigubótum hjá þeim, sem hafa slíkan stuðning.
Telur þú það í anda jafnaðarstefnunnar að hafa hærri jaðarskatta á tekjulágt fólk en tekjuhátt.
Ég gagnrýndi þessa hugmynd harkalega þegar hún kom upp á sínum tíma á blogginu mínu. Ég gagnrýndi hana einnig hrakalega á Málefnum.com þegar hún kom upphaflega upp hjá Frjálsynda flokknum fyrir síðustu alþingiskosningar. Hér má sjá gagnrýni mína og rökstuðining fyrir henni á bloggsíðunni minni:
http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/389513/#comments
Ég segi það enn og stend við það. Þetta er einhver arfavitlausasta hugmynd, sem fram hefur komið í skattamálum hér á landi í langan tíma.
Sigurður M Grétarsson, 26.2.2008 kl. 02:05
Hér gerir þú sýnist mér ekki ráð fyrir neinum aðgerðum til að virka á jaðaráhrifin í skattkerfinu. Að sjálfsögðu tel ég það ekki í anda jafnaðarstefnunnar að hafa hærri jaðarskatta á tekjulágt fólk en tekjuhátt. Hátekjuskatturinn var á sínum tíma m.a. hugsaður í þessu sambandi. Um leið og skattahlutföll eru hreyfð þarf að skoða jaðaráhrifin, hið sama á við um millifærslur af ýmsum toga, s.s. barnabætur, og einnig þjónustugjöld í velferðarkerfinu sem eru auðvitað skattheimta líka.
Árni Þór Sigurðsson, 26.2.2008 kl. 15:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.