Prýðilegir fundir í Borgarnesi

Í gær, miðvikudag, átti ég ágæta fundi í Borgarnesi, annars vegar með fulltrúum sveitarstjórnarinnar og hins vegar var ég gestur á aðalfundi Vinstri grænna í Borgarbyggð. Á báðum fundunum var talsvert rætt um samgöngumál og bersýnilegt að þau liggja þungt á Borgfirðingum.

Það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn að eiga kost á að hitta fólk vítt og breitt um landið og ræða helstu hagsmunamál og það sem efst er á baugi.  Á fundinum með sveitarstjórnarfólki ræddi ég aðallega sveitarstjórnarmál, tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, samgöngumál og landbúnaðarmál, auk stöðunnar í efnahagsmálum.

Um kvöldið var haldinn aðalfundur VG í Borgarbyggð. Guðbrandur Brynjólfsson, Hildur Traustadóttir og Vigdís Kristjánsdóttir gengu öll úr stjórn félagsins og í þeirra stað komu Björg Gunnarsdóttir, Börkur Hrafn Nóason og Finnbogi Rögnvaldsson en sá síðastnefndi er jafnframt formaður byggðaráðs í Borgarbyggð og oddviti Borgarbyggðarlistans. Ég flutti ræðu á fundinum og fjallaði um efnahagsmálin, stöðuna þar og tillögur okkar Vinstri grænna í þeim málum. Ennfremur bar Evrópumálin talsvert á góma, ekki síst gjaldmiðilsmálin og urðu fjörugar umræður um þau. Samgöngumál voru fundarmönnum hugleikin og ljóst að mikið er óunnin í þeim efnum í héraðinu. Þá var rætt um landbúnaðarmál og áhyggjur manna af því að ræktanlegt land væri í síauknum mæli að fara úr landbúnaðarnotkun en það hlýtur að vera þjóðinni allri áhyggjuefni vegna matvælaframleiðslunnar til lengri tíma litið. Sannarlega er tilefni til að huga að þeim málum sérstaklega.

Nýlega var ég ræðumaður á íbúafundi VG í Hlíðahverfi í Reykjavík og ræddi þar einkum samgöngumálin. Ég hygg að það sé brýnt fyrir okkur þingmenn að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum og skiptast á skoðunum, ekki bara í okkar eigin kjördæmum heldur einmitt um allt land. Hef ég einsett mér að gera sem allra mest af því á kjörtímabilinu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Árni, má skilja það sem svo að það komi þér á óvart hversu mjög samgöngumál liggja á landsmönnum? Að mínu mati eru samgöngumál stærsta byggðamálið og þá breytir engu hvort þú búir í Kópavogi eða á Kópaskeri. Ég fagna því að þú ætlir að leggja áherslu á samgöngumál í störfum þínum í þinginu og hvet þig til að stunda jafnvel dálitla kjördæmapólitík í þeim efnum enda löngu kominn tími til að samgöngumál höfuðborgarsvæðisins komist á dagskrá, s.s. með því að taka ákvörðun um Sundabraug og Arnarnessveg. Gleðilega Páska!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 21.3.2008 kl. 09:43

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæl Ingibjörg.

Eins og þú veist mætavel hef ég starfað mikið að samgöngumálum í pólitískum störfum mínum til þessa og mun halda því áfram Líka á höfuðborgarsvæðinu. En samtal milli höfuðborgar og landsbyggðar er mikilvægt og ég mun leggja mig fram um það. 

Árni Þór Sigurðsson, 21.3.2008 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband