26.10.2006 | 08:55
Kraftmikið BSRB þing
Ég átti þess kost að vera við setningu BSRB þings í gær, sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, en ég var kosinn varaformaður Sambandsins í síðustu viku. Ögmundur Jónasson formaður BSRB flutti þarf kraftmikla setningarræðu, afar vel samda og með mikinn samfélagslegan boðskap. Í ræðu sinni varaði Ögmundur við markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins og hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Benti hann á þá augljósu staðreynd að með slíkum aðgerðum væri verið að færa þessa mikilvægu almannaþjónustu undar forræði þjóðarinnar sjálfrar og til einkaaðila, einkum fjársterkra fyrirtækja. Og þetta er ekki smámál, þetta snýst nefnilega um grundvöll lýðræðisins, eða eins og Ögmundur orðaði það:
Undanfarin ár hafa einkennst af mikilli markaðs- og einkavæðingu, ekki aðeins hér á landi heldur víðs vegar um okkar heimshluta. Hér á landi hefur fjármálakerfið, símaþjónustan og ýmis önnur starfsemi þegar verið tekin úr höndum hins opinbera að öllu leyti og ýmsir þættir heilbrigðisþjónustunnar lúta í vaxandi mæli markaðslögmálum. Með því að færa undirstöðuþætti almannaþjónustunnar undan handarjaðri almennings eru völdin færð til nýrra eigenda, handhafa fjármagnsins. Þess vegna dregur einkavæðingin úr áhrifum almennings en eykur að sama skapi tök fjármálamanna á þjóðlífinu. Vilji menn hins vegar kröftugt lýðræðisþjóðfélag þá gefur auga leið að þeir hinir sömu verða að standa vörð um almannaþjónustuna. Ekki nóg með það: Hana þarf að stórefla. Þetta leggur BSRB áherslu á með kjörorði sínu.
Hér er vel að orði komist eins og Ögmundar er von og vísa og er ég algerlega sammála þeim sjónarmiðum sem formaður BSRB setti fram í kröftugu máli sínu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.