628 ár í launajafnrétti!!

Ætlum við að láta það taka 628 ár að koma á launajafnrétti í landinu?  Er nema að von að spurt sé.  Hvernig væri að taka áskorun Femínistafélagsins og taka sex alda stökk í einu skrefi?

Vikan sem senn er á enda er Femínistavika.  24. október var kvennafrídagurinn 1975 þegar tugþúsundir íslenskra kvenna lögðu niður störf til að leggja áherslu á kröfuna um jafnrétti kynjanna.  Þessa dags var líka minnst í fyrra þegar 30 ár voru liðin frá kvennafrídeginum 1975.  Það vantar ekki að samfélagið taki undir kröfuna um fullt launajafnrétti og kynjajafnrétti á öllum sviðum.  En hvernig gengur að standa við stóru orðin?  Atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélags Íslands hefur sent atvinnurekendum, og þar með talið sveitarfélögunum ályktun þar sem vakin er athygli á að nær ekkert hefur áunnist í því að draga úr kynbundnum launamun í samfélaginu.  Í ályktuninni segir:

”Í dag er liðið ár frá því að rúmlega 50.000 íslenskar konur gengu út af vinnustöðum sínum til að vekja athygli á launamuni kynjanna og krefjast leiðréttingar á honum. Á sama degi voru atvinnurekendur hvattir til þess að leiðrétta launamun kynjanna meðal starfsfólks síns. Í síðustu viku voru birtar sláandi niðurstöður könnunar á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Þar kom fram að á undanförnum 12 árum hefur hreinn kynbundinn launamunur batnað um 0,3%, þ.e. úr 16% lægri launum í 15,7%. Í 3. kafla jafnréttislaga nr. 96/2000 kemur fram að atvinnurekendum sé skylt að greiða sömu laun fyrir sambærileg störf. Miðað við að þróun launajafnréttis verði með samsvarandi hætti í framtíðinni reiknast okkur til að konur og karlar muni hafa jöfn laun árið 2634. Nú þykja okkur 628 ár fulllangur tími og því skorum við í atvinnu- og stjórnmálahópi Femínistafélags Íslands á atvinnurekendur að framfylgja landslögum með því að bera saman laun karla og kvenna í ykkar fyrirtæki og leiðrétta muninn. Afgreiðum sex aldir á einum degi, launajafnrétti í dag!” 

Sérstaka athygli vekja þær staðreyndir að með sama áframhaldi muni það taka 628 ár að ná fram fullkomnu launajafnrétti kynjanna.  Af því tilefni lagði ég fram fyrirspurn til borgarstjóra í borgarráði í gær um það hvort borgarstjóri væri reiðubúin til að taka áskorun Femínistafélagsins, bera saman laun karla og kvenna hjá borginni og leiðrétta tafarlaust hin kynbundna launamun?  Vonandi berast jákvæð svör frá borgarstjóra strax í næstu viku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband