4.11.2006 | 04:54
Landsvirkjun á spottprís
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ákveðið að selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Borgarstjóri skrifaði undir samkomulag þessa efnis sl. miðvikudag. Það kom okkur í borgarstjórn á óvart, því í júlí sl. hét borgarstjóri því skriflega í borgarráði, að halda borgarfulltrúum upplýstum um gang viðræðna um sölu á Landsvirkjun. Síðan hefur ekki heyrst hósti né stuna frá borgarstjórnarmeirihlutanum um málið fyrr en fullbúinn samningur er lagður á borgarráðs sl. fimmtudag. Þetta eru óvönduð og ólýðræðisleg vinnubrögð.
Ég hef þegar skrifað um afstöðu okkar Vinstri grænna til sölunnar á Landsvirkjun og á áreiðanlega eftir að skrifa meira um það. Hins vegar vekur það nú athygli að borgarstjóri virðist ekki hafa verið upplýstur um verðmat á Landsvirkjun upp á um 90 milljarða króna. Og svo selur hann miðað við 60 milljarða króna mat á fyrirtækinu. Þannig má segja að verðmæti Landsvirkjunar sé skrifað niður um 30 milljarða, sem þýðir að hlutur borgarinnar er 13-14 milljörðum rýrari en hann gæti verið. Borgarbúar eru sem sagt hlunnfarnir.
Þetta er vitaskuld alvarlegt mál ef satt reynist. Getur verið að meirihlutinn í borgarstjórn hafi einfaldlega ekki vitað hvað hann var að gera? Ef það er rétt, er enn möguleiki fyrir hann að iðrast, samningurinn hefur nefnilega ekki öðlast gildi, borgarstjórn mun fjalla um hann þann 21. nóvember nk. og borgarfulltrúar meirihlutans hafa tök á að skipta um skoðun fyrir þann tíma. Hér með eru þeir hvattir eindregið til þess.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.