Ekkert lát á ofbeldisverkum Ísraelsmanna

Stöðugar fréttir berast af ofbeldisverkum Ísraelsmanna fyrir botni Miðjarðarhafs.  Enda þótt átökin á því svæði hafi varað lengi og vafalaust lengi hægt að deila um upphaf og ábyrgð, er ljóst að það er einkennandi fyrir barátturaðferðir Ísraela að ráðast á saklausa borgara.  Senda sprengjur að næturlagi inn í íbúahverfi og drepa allt sem fyrir verður.  Konur, börn, gamalmenni og almennt óbreytta borgara.

Veikburða mótmæli íslenskra ráðamanna við stjórn Ísraels nær engum eyrum á alþjóðavettvangi.  Bandaríkin standa dyggilega við bakið á ofbeldisverkum Ísraels, og sýna heiminum enn eina ferðina að þar eru við völd menn sem eru algerlega blindir á heimsmálin.  Horfa á alþjóðamálin frá þrengsta sjónarhóli hernaðar- og heimsvaldastefnu sinnar.  Íslendingar og aðrar Evrópuþjóðir verða að bregðast við af fullri hörku.  Stjórnmálasamband við Ísrael hlýtur að þurfa að taka til vandlegrar skoðunar.  Refsiaðgerðir alþjóðasamfélagsins hljóta sömuleiðis að verða til umræðu. 

Sendiherra Ísraels á Íslandi vildi ekki hitta talsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þegar hún var hér á ferð, m.a. til að hitta íslensk stjórnvöld.  Ísraelsk stjórnvöld forðast sem sagt þá sem gagnrýna þau harðlega, vilja ekki ræða við lýðræðislega kjörna fulltrúa íslensku þjóðarinnar - nema þá sem þeir telja að verði ekki of gagnrýnir.  Um það mál má lesa meira á heimasíðu Ögmundar Jónassonar.

Það er sorggrætilegt að í umræðunni um heimsmálin hér á Vesturlöndum eru mannslífin svo oft misjafnlega metin, eftir því hver á í hlut.  Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir að mannslífin fyrir botni Miðjarðarhafs, í Írak og Afganistan eru jafnverðmæt þeim á Ítalíu, Bretlandi eða Bandaríkjunum.  En til þess þarf hugarfarsbreytingu og stefnubreytingu hjá stjórnvöldum.  Líka íslenskum stjórnvöldum.  Vonandi fáum við nýja ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar, ríkisstjórn sem fylgir breyttum áherslu í utanríkis- og alþjóðamálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband