Vill G. Valdimar aukna mengun í Reykjavík?


Ágætur framsóknarmaður, G. Valdimar Valdimarsson, bregst heldur illa við skrifum okkar Svandísar Svavarsdóttur um skipulagsmál sem umhverfismál.  Einkum fer það fyrir brjóstið á honum að við erum ekki talsmenn þess að leggja sífellt meira fjármagn og rými í borgarlandinu undir dýr og plássfrek umferðarmannvirki.  Telur hann þetta til vitnis um að við í VG viljum hafa vit fyrir fólki en ekki leyfa fólki að hegða sér eins og það sjálft kýs, t.d. í umferðinni.

Nú veit ég ekki hvort sjónarmið hans eru dæmigerð fyrir sjónarmið framsóknarmanna almennt.  Sjálfur hef ég til dæmis átt ágætt samstarf við framsóknarmenn, m.a. í samgöngunefnd og umhverfisráði borgarinnar.  Má þar nefna borgarfulltrúana Alfreð Þorsteinsson og Önnu Kristinsdóttur, einnig Hauk Loga Karlsson sem var varaformaður samgöngunefndar og situr nú sem fulltrúi flokksins í umhverfisráði.  Ágætur samhljómur hefur verið um stefnu borgarinnar í samgöngumálum innan meirihlutans, en hver veit nema nú séu þeir tímar á enda?

Þeir framsóknarmenn hafa oft á tíðum skreytt sig með því að vera eini flokkurinn sem hefur starfað innan R-listans frá upphafi, það er rétt því bæði Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð komu síðar til sögunnar.  Það er t.d. ekki rétt sem G. Valdimar segir í grein sinni að Vinstri grænir hafi verið í meirihluta í 12 ár, - flokkurinn var stofnaður árið 1999 og kom fyrst inn í borgarmálin í síðustu borgarstjórnarkosningum sem aðili að R-listanum!

Það er augljóst af skrifum G. Valdimars að honum er létt sama um umhverfismál.  Raunar afstaða sem er ekki ný af nálinni frá þeim framsóknarmönnum, eins og dæmin úr landsstjórninni sanna.  Hann horfir t.d. algerlega framhjá því að mengun af völdum umferðar er lang stærsta umhverfisvandamálið sem við er að glíma í borginni.  Æ ofan í æ fer loftmengun vegna umferðar yfir svokölluð heilsuverndarmörk.  Áhrifaríkasta leiðin til að mæta því, er að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar.  Menn geta auðvitað látið eins og strúturinn og stungið hausnum í sandinn og vonast til að vandamálin hverfi með því einu að þeir sjái þau ekki.  En því miður er það ekki svo.

Við Vinstri græn viljum auka hlut umhverfisvænna samgangna.  Það þýðir að við viljum auka hlutdeild strætó með raunhæfum aðgerðum um fleiri leiðir, aukna tíðni, aukinn forgang strætó í umferðinni o.s.frv.  Þá viljum við stórbæta aðstæður gangandi og hjólandi þannig að sá ferðamáti geti orðið raunhæfur kostur, einkum til styttri ferða, en þriðjungur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu er undir 1 km.  Ennfremur teljum við Vinstri græn að gera eigi átak í að auka hlutdeild umhverfisvænna orkugjafa í samgöngum.  Það þarf að gera með samhæfðum aðgerðum, vöru- og innflutningsgjöld ríkisins skipta þar máli en því miður hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frekar ýtt undir innflutning ökutækja sem eyða miklu jarðefnaeldsneyti og spæna upp götur höfuðborgarinnar.  Þessu viljum við sporna á móti.  Og loks ber að nefna að við teljum mikilvægt að draga úr umferðarhraða í borginni.  Það er mikilvægt til að draga úr alvarlegum umferðarslysum og til að draga úr mengun af völdum umferðar.  G. Valdimar virðist ekki skilja samhengi hlutanna að þessu leyti og verðum bara við það að sitja.

Við í VG erum ekki smeyk við að kynna borgarbúum okkar áherslur í samgöngu- og skipulagsmálum.  En við þurfum ekki framsóknarmenn eða aðra til að túlka okkar sjónarmið, borgarbúar eru fullfærir um það sjálfir að taka afstöðu til stjórnmálaflokkanna á grundvelli stefnumála og þess hversu trúverðugir frambjóðendur þeirra eru.  Við leggjum fram ábyrga stefnu á grundvelli meginsjónarmiða Vinstri grænna, en leikum okkur ekki að lýðskrumi og yfirboðum.  Aðrir geta séð um þá deild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband