Íhald og Framsókn samþykkja sölu Landsvirkjunar í borgarstjórn

Á fundi borgarstjórnar nú í kvöld, var samþykktur samningur sem borgarstjóri skrifaði undir 1. nóv. sl. um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur í Landsvirkjun.  Ítarleg umræða fór fram um málið og tóku fulltrúar minnihlutans virkan þátt í umræðunni en af hálfu meirihlutans töluðu einungis borgarstjóri og Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins.  Samningurinn var samþykktur með 8 atkvæðum íhalds og Framsóknar gegn 7 atkvæðum Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra. 

Við afgreiðslu málsins lögðum við fulltrúar Vinstri grænna fram eftirfarandi bókun:

Borgarfulltrúar Vinstri grænna mótmæla harðlega sölu á hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Með samþykkt borgarstjórnar í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknu mæli í hendur einkaaðilum. Salan á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun er liður í þessari yfirlýstu einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar gangast nú undir. Vinstri græn mótmæla einnig dæmafáum vinnubrögðum meirihlutaflokkanna í borgarstjórn sem héldu öllum efnisatriðum samningagerðarinnar leyndri uns skrifað hafði verið undir samkomulagið. Í júlí sl. hét borgarstjóri því í borgarráði að gera ráðinu grein fyrir framvindu málsins en hefur síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en samingur hefur verið undirritaður þar sem búið er að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign án þess að um það hafi verið fjallað af kjörnum fulltrúum og sjónarmið reifuð fyrr en eftir á. Hér gerir meirihlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar. Með þessum gjörningi er vegið að hagsmunum Reykvíkinga, bæði í bráð og lengd og ákvörðun um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun við þessar aðstæður leiðir til þess að raforkureikningar borgarbúa og landsmanna allra mun hækka stórlega í kjölfarið. Fulltrúar Vinstri grænna leggjast hér eftir sem hingað til gegn þeim einkavæðingarleiðangri sem staðið hefur yfir undir stjórn Sjálfstæðisflokks á annan áratug með stuðningi flokka sem setja hagsmuni valds og áhrifa í öndvegi á kostnað almannahagsmuna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband