Hver á sér fegra föðurland?

„Stóriðjustefnan er ekki til,“ sagði formaður Framsóknarflokksins skömmu eftir að hann tók við starfi iðnaðarráðherra, a.m.k. ekki af hálfu stjórnvalda. Þessi yfirlýsing kom flestum sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum undanfarið spánskt fyrir sjónir. Jafnvel innan ríkisstjórnarinnar sperrti fólk eyrun og var ekki visst um að hafa heyrt rétt. Sumir veltu því fyrir sér til hvers þeir hefðu vaðið eld og brennistein fyrir stóriðjustefnuna sem einkum var borin uppi af forystu Framsóknarflokksins, ef nýkjörinn formaður þess flokks gat síðan strikað yfir hana og látið eins og hún væri ekki lengur til, án þess að nokkur hefði tekið eftir því að hún væri dáin drottni sínum. Enda er hún það ekki, hún lifir enn góðu lífi, þótt einhverjir kjósi nú að geyma hana í hýði sínu fram yfir alþingiskosningar.

Það er engu líkara en nú hafi ýmsir stjórnmálaflokkar áttað sig á því að það er að verða viðhorfsbreyting meðal þjóðarinnar um umhverfismálin og atvinnustefnu framtíðarinnar. Og stóriðjustefnan er ekki líkleg til fylgissöfnunar en það er einmitt það sem stjórnmálaflokkarnir aðhafast helst á kosningavetri, að safna sér fylgi. Og þá má tilgangurinn helga meðalið.
Gamla kosningatrixið er að gera út á skammtímaminni kjósenda, lofa því sem talið er heppilegast og gefa sér síðan að það komi ekki að skuldadögum. Stundum virkar þetta, stundum ekki. Mín reynsla er að sannleikurinn sé sagna bestur, frambjóðendur og flokkar eigi að segja hreinskilnislega frá því sem þeir vilja gera og telja best, jafnvel þótt það kunni að fæla frá
einhverja kjósendur, þegar upp er staðið kann fólk þó alltaf best við hreinskilni og trúverðugleika.

„Hver á sér fegra föðurland?“ spurði skáldkonan Hulda í ættjarðarljóði frá Lýðveldishátíðinni 1944. Og öll vitum við svarið, ekkert jafnast á við Frónið okkar, öllum þykir okkur vænt um það, við virðum það og dáum. En vandinn er sá að stundum rekast hagsmunir á, stundum er þess krafist að landið færi fórnir til þess að unnt sé að skapa skammgóðan auð sem svo alltof oft nýtist fáum meðan fórnirnar eru á kostnað fjöldans og kynslóða framtíðarinnar. Þannig tryggjum við ekki hagsmuni komandi kynslóða, það er ekki sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Og er þá trúverðugt að tala um virðingu fyrir landinu, fegurð þess og náttúruverðmætum? Svari hver fyrir
sig.

Hvernig er hægt að fara um landið og boða stefnubreytingu í umhverfismálum með áherslu á hið fagra Frón, en styðja um leið, og hafa jafnvel frumkvæði að stóriðjuuppbyggingu með tilheyrandi umhverfisfórnum vítt og breitt um landið? Virkjun jökulsánna í Skagafirði er nú komin á dagskrá, álverskröfur eru uppi á Húsavík, í Hafnarfirði og Helguvík. Er trúverðugt að boða á sama tíma að umhverfið eigi nú að hafa forgang en styðja um leið í verki þær umhverfisfórnir sem t.d. ofannefnd álver myndu hafa í för með sér? Að mínu mati þurfa menn að gera betur til að meint stefnubreyting verði trúverðug.

Það er jákvætt þó, að stjórnmálaflokkar ræði umhverfismálin af fullri alvöru, þótt augljóslega nálgist flokkarnir málin hver á sínum forsendum. Á forsendum markaðshyggjunnar, hinnar íslensku „þjóðhyggju” eða jafnaðarstefnunnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð sker sig þó úr vegna þess að sjálfbær samfélagsþróun er einn af hornsteinum stefnu flokksins og nær til allra annarra þátta stefnunnar. Við viljum nýta hugmyndagrundvöll sjálfbærrar þróunar á alla aðra málaflokka en ekki öfugt. Í þeirri nálgun liggur mikil sérstaða, og hún er í raun hin eina sem stenst til framtíðar litið. En jafnvel þótt aðrir flokkar nálgist umhverfismálin með öðrum hætti
er umræðan til marks um að öllum flokkum er að verða alvaran ljós: við getum ekki haldið áfram á sömu braut og hingað til.

Á næsta kjörtímabili verður að verða stefnubreyting í umhverfismálum. Ég tel að meðal meginverkefna stjórnvalda á næstunni verði:
– að tryggja þróun íslensks atvinnulífs er taki mið af hagsmunum komandi
kynslóða og þar sem umhyggja fyrir umhverfi og náttúruvernd er leiðarljós en
ekki afgangsstærð
– að móta langtímastefnu í orkunýtingu sem tekur ekki síst mið af þeim
verðmætum sem felast í verndun náttúru og umhverfis
– að taka forystu í þróun nýrra, umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkugjafa
– að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með stórefldum
almenningssamgöngum.

Eigi að tryggja stefnubreytingu sem m.a. tekur mið af þessum verkefnum, verður Vinstrihreyfingin – grænt framboð að gegna lykilhlutverki í næstu landsstjórn. Til þess eru allir möguleikar og víst er að við vinstrigræn erum reiðubúin að axla þá ábyrgð sem því fylgir. 

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember sl.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband