Geir H. Haarde er ónauðsynlegur - í stóli forsætisráðherra

Forsætisráðherra segir úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka hafa verið ónauðsynlegan.  Þegar sami umhverfisráðherra úrskurðaði á annan veg í tengslum við annað verkefni, var allt í himna lagi að mati sama forsætisráðherra.  Stjórnsýslan á sem sagt að fara að duttlungum forsætisráðherrans.

Pólitískur forystumaður sem hefur þetta viðhorf hefur ekkert að gera í stóli forsætisráðherra á 21. öldinni.  Þetta viðhorf heyrir til liðinni öld.  Forsætisráðherra sem vill ekki að lög um mat á umhverfisáhrifum séu virt, forsætisráðherra sem vill ekki huga að hagsmunum umhverfis og náttúru og komandi kynslóða hefur ekkert að gera í ríkisstjórn.  Ekkert frekar en flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nú setið við ríkisstjórnarborðið í 17 ár og lætur eins og hann eigi þar allt og megi öllu haga að eigin geðþótta.

Formaður Sjálfstæðisflokksins gerist einnig talsmaður Samfylkingarinnar, eða amk. margra innan hennar, að eigin sögn.  En var ekki stefna Samfylkingarinnar að ljúka við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og meta í kjölfarið í hvaða virkjanir yrði ráðist og hverjar ekki?  Er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur því?  Eru kannski giska margir forystumenn Samfylkingarinnar andvígur eigin stefnu?  Er forsætisráðherra (og fyrrverandi utanríkisráðherra), andvígur alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í umhverfismálum?

Er nema von að spurt sé.  Fáheyrð viðbrögð forsætisráðherra eru enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í þrot.  Ástandið í ríkisstjórnarliði hans og þingflokki er lítið skárra en í borgarstjórnarflokknum.  Hann á að fara frá völdum, hans tími er liðinn.


mbl.is Úrskurðurinn ónauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Já, það væri frábært ef Samfylkingin hefði einhvern samstarfsflokk til að vinna með þegar það þarf að mynda nýja ríkistjórn. Miðað við heiftina og skotin sem koma frá VG oft, þá held ég að VG sé líklegra að hlaupa undir bagga með Sjálfstæðisflokknum en að vilja koma Samfylkingunni til valda. Enda sagði Steingrímur J. í kryddsíldinni að álver á bakka væri engin fyrirstaða þegar kæmi að ríkistjórn með VG - eins gott fyrir umhverfisverndarsinna að það kom flokkur með breiðara bak en það á móti íhaldinu í þessa ríkistjórn.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 1.8.2008 kl. 14:24

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Árni

Það voru margir sem vildu Vinstri Græna í ríkisstjórn fyrir síðustu kosningar. Á tímabili leit út fyrir að Steingrímur Sigfússon yrði forsætisráðherra. Þegar niðurstaða kosninganna voru ljósar, mátti þjóðin horfa upp á formann VG eyðileggja alla möguleika á stjórnarmyndun, nema að fá að vera með Sjálfstæðisflokknum. Síðan hvarf Steingrímur og hefur ekki sést til hans síðan. Þegar þú kvartar yfir Geir, væri viturlega að auglýsa eftir Steingrími. Fyrir marga í VG er umhverfisbaráttan, aðeins gríma til þess að fela innrætið, trúna á óheft ríkisafskipti, kommúnismann.

Sigurður Þorsteinsson, 2.8.2008 kl. 06:43

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ágæti Sigurður Þorsteinsson: Þar er fyrst til að taka að ég er ekki málsvari Vinstri grænna og þess vegna þarf enginn að taka mark á mér þó ekki kæmi fleira til. Ég er sammála þér um að Steingrími varð á í aðdraganda stjórnarmyndunar og það svo að ámælisvert verður að teljast. En auðvitað hefðu V.G. aldrei stoppað lengi í stjórn með D listanum án þess að gera sína pólitík ótrúverðuga. Þessi einstreymisloki í pólitískum pípum sjálfstæðismaanna að einungis ein leið sé til við uppbyggingu atvinnu á Íslandi er auðvitað móðgun við hugsandi fólk og af því er meira í V.G. en í Sjálfstæðisflokknum þar sem pólitísk völd byggjast á því að kæfa skapandi hugsun.

Nú hafa mál skipast svo að markaðshyggjan er búin að kúka á sig með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina utan þá sem tókst að greiða sjálfum sér ofurlaun í hnignandi afkomu fyrirtækjanna sem þeir stýrðu.

Nú heimta þeir að ríkið komi til hjálpar með aðgerðum sem kennd eru við Sovétríkin sálugu og byggja á áætlunarbúskap sem stjórnað er pólitískt. Þetta gengur ekki upp nema hjá þeim sem sæst hafa á bannið við rökrænni hugsun.

En Vinstri grænum hefur enn sem fyrr sést yfir það að boða endurskoðun á stjórn fiskveiða og krefjast úrbóta. Þeim hefur sést yfir að við eigum fiskimið þar sem þorskurinn syndir í svo miklu magni að ef henn yrði nýttur skynsamlega væri hægt að auka útflutningstekjur okkar um hundruð milljarða og treysta um leið vöxt og viðgang auðlindarinnar.

Þess í stað hafa talsmenn V.G. borið lof á Sjávarútvegsráðherrann fyrir að herða enn á hengingarólinni og tryggja lénsherrunum stöðu til að viðhalda okurverðinu á leigu aflaheimildanna sem að miklum hluta voru afhentar þeim sem gjöf frá þjóðinni.

Á meðan svona aulaháttur fær fimm stjörnur frá Vinstri grænum verða þeir að deila sök með stjórnvöldum á vaxandi brottkasti afla og úrkynjun hinna fjölmörgu þorskstofna við landið, og sem nú eru farnir að bera glögg merki úrkynjunar vegna átuskorts.

Þeir trúa á vísindalega stjórnun lífríkisins. Þeir trúa gagnrýnilaust á pólitískt heilbrigðiskerfi auðlinda hafsins sem hefur eftir 30 ár skilað árangri upp á mínus 67%. Og þeim finnst ekki svara kostnaði að horfa á árangur Norðmanna og Rússa sem hefur tekist að fimmfalda þorskaflann í Barentshafi á átta árum. 

Og,- fyrirgefið. Vinstri grænum er skítsama um hnignandi sjávarbyggðir með verðlausum eignum víðs vegar um landið.  

Árni Gunnarsson, 2.8.2008 kl. 10:59

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

P.s. Gleymdi að taka fram að ég held að ég sé sammála hverju orði síðuritara um aulahátt ríkisstjórnarinnar og vandræðagang vegna undirbúnings álvers við Húsavík.

Mín skoðun er sú að þann ófögnuð eigi að fjarlægja úr umræðunni. Ég dáist að Þingeyjarsýslu, umhverfi og fornri menningu. Ég dáist ekki að íbúunum í dag.

Árni Gunnarsson, 2.8.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband