26.11.2006 | 13:37
Framsókn á undanhaldi
Hinn nýi formaður Framsóknarflokksins reiddi hátt til höggs á miðstjórnarfundi flokksins í gær. Fyrir högginu urðu Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson. Og Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde. Nú segir hann að innrásin í Írak og allt það ferli hafi verið mistök. Þannig tekur hann undir með Vinstri grænum og hinum stjórnarandstöðuflokkunum sem gagnrýndu ákvörðun þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra harðlega.
Menn hljóta að velta því fyrir sér hvað vakir fyrir formanni Framsóknarflokksins. Sumum finnst þetta djarft útspil hjá honum, öðrum þykir þetta aumkunarvert. Getur verið að formaðurinn sé að opna dyr til vinstri? Getur verið að skilaboðin eigi að vera að það sé ekki sjálfsagt að Framsóknarflokkurinn vinni með Sjálfstæðisflokknum? Eða er þetta bara örvæntingarfull tilraun til að ná aftur til flokksins því fylgi sem hefur yfirgefið hann í stríðum straumum að undanförnu? Það er að mínu mati líklegasta skýringin. Hið sama á við um yfirlýsingu hans skömmu eftir að hann tók við formennsku og ráðherradómi, að stóriðjustefnan væri ekki lengur til!
Framsóknarflokkurinn hefur áður leikið þann leik að breiða yfir gerðir sínar í ríkisstjórn þegar kemur að kosningum. Draga upp allt aðra mynd heldur en þá sem blasað hefur við kjósendum, og freista þess að fríska upp á andlitið. Koma með digurbarkalegar yfirlýsingar sem vísa til vinstri en hlaupa svo strax til baka að kosningum loknum í fangið hjá íhaldinu og halda áfram fyrri iðju við stjórnarstörfin.
Hernaðurinn gegn landinu sem felst í stóriðjustefnunni, hernaðurinn gegn almennum borgurum sem felst í stuðningnum við stríðið í Írak, allt er þetta á sínum stað í afrekaskrá Framsóknarflokksins. Hið sama á við um misskiptinguna í samfélaginu og svikin við aldraða og öryrkja. Við hljótum að spyrja okkur hversu trúverðugur þessi málflutningur er. Kjósendur eru ekki svo gleymnir að hægt sé að strika yfir fortíðina með yfirlýsingum af því tagi sem formaður Framsóknarflokksins sendi frá sér í gær. Stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. Framsóknarflokksins, verður haldið til haga í komandi kosningabaráttu. Framsóknarflokkurinn verður að leggja það allt í dóm kjósenda þótt hann sé nú á harðahlaupum undan ábyrgðinni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.