8.8.2008 | 14:06
Stalín uppvakinn!
Átökin sem nú geisar á landamærum Georgíu og Rússlands, í sjálfsstjórnarhéraðinu Suður-Ossetíu, voru etv. fyrirsjáanleg. Um langt árabil hafa íbúar héraðsins, og raunar líka héraðsins Abkhazíu, barist fyrir sjálfstæði sínu og ljóst að þeir vilja ekki tilheyra Georgíu. Stjórnvöld í Georgíu gera á hinn bóginn tilkall til héraðanna og virðist sem alþjóðasamfélagið hafi fallist á þá skipan. En hvað veldur? Eru það hagsmunir og saga þjóðanna sem byggja þessi héruð sem ráða þeirri afstöðu eða eru það etv. frekar pólitískar ástæður, nefnilega að koma höggi á Rússlandsstjórn?
Fyrir þá sem hafa áhuga á þróun mála í þessum heimshluta væri fróðlegt að kynna sér sögu héraðanna. Hvað veldur því að þessi héruð eru talin til Georgíu? Ef íbúarnir fengju sjálfir að ráða málum sínum er ólíklegt að þeir kysu að tilheyra Georgíu. Íbúar Suður-Ossetíu vilja að líkindum sameinast Norður-Ossetíu, sem tilheyrir Rússlandi og íbúar Abkhazíu hafa krafist sjálfstæðis. Má fólkið ekki ráða sjálft? Af hverju á að gilda annað viðhorf til vilja íbúanna á þessu svæði en t.d. í Kosovo?
Þegar Sovétríkin voru stofnuð á sínum tíma gerði Georgía sérstakan samning um aðild að ríkjabandalaginu. Sjálfsstjórnarhéruðin sem hér um ræðir voru ekki hluti þess samkomulags, þau gerðust sjálfstæðir aðilar að Sovétríkjunum á eigin forsendum. Það var hins vegar Jósef gamli Stalín sem ákvað að þessi héruð skyldu tilheyra Georgíu, sínu gamla heimalandi. Þannig má segja að þessi héruð (og líklega er það nú enn óumdeildara hvað Abkhazíu varðar) séu enn að súpa seyðið af stalínismanum. Það skýtur óneitanlega skökku við að vesturlönd skuli vilja viðhalda gamla Stalín og alræðisvaldi hans. En það virðist mér eingöngu gert til að hnykkla vöðvana gagnvart Rússlandi og styðja við gulldrenginn sinn Saakashvili, sem rígheldur í ríkjaskipan Stalíns. Og etv. vert að rifja upp að átökin sem nú blossa upp, hófust í raun fyrst eftir að Saakashvili varð forseti Georgíu.
Það kemur ekki á óvart að hægri öflin sem víða halda um stjórnvölinn í hinum vestræna heimi, skuli láta rétt og vilja íbúanna lönd og leið í pólitískum leiðangri sínu, en verst er að jafnaðarmenn skuli elta eins og hundar í bandi. Sennilega vita þeir ekki að þeir eru að draga taum Stalíns og arfleifðar hans.
![]() |
Rússlandsher inn í Suður-Ossetíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sælir. Já merkilegt þetta. En voru ekki átök þarna um svipað leyti og óróinn var sem mestur á Kákasus? Mig rámar amk í það.
En annars skilst mér að það sé mjög fallegt þarna suðurfrá. Leiðinlegt að "Tour Guides" skuli ekki hafa fengið að selflytja hópa þarna suðureftir á sovéttímanum, áður en allt sprakk í loft upp og svæðið varð hættulegt yfirferðar. Þú hefðir vísast haft gaman að fara þangað á þessum tíma með skandinava í eftirdragi?
Snorri Bergz, 8.8.2008 kl. 14:30
Sæll Snorri.
Ég held að þessar þjóðir geti alveg lifað saman í friði, ef þær fá að vera í friði fyrir misvitrum leiðtogum og ef þær fá að ráða málum sínum sjálfar. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er grundvallaratriði sem við á vesturlöndum eigum að virða, óháð því hvaða þjóðir eiga í hlut, og óháð því á hvaða landssvæði þær búa.
Árni Þór Sigurðsson, 8.8.2008 kl. 15:25
Sælir Árni
Já, sjálfsákvörðunarréttur þjóða er erfiður, en jafnan viðurkenndur á Vesturlöndum, amk að miklu leyti til á 20. öld.. En þínir menn í Sovét voru nú ekki jafn vingjarnlegir við einstaka þjóðir sem vildu ráða sér sjálfar. En þetta í Ossetíu er semsagt vandamál sem Sovét skapaði...hvenær ætli heimurinn losni við arfleifð ofríkis róttækra sósíalista, Árni?
...og leiðinlegt að þú skyldir ekki hafa getað farið með ferðamannahóp þarna suðureftir meðan friðsamlegt var.
Snorri Bergz, 8.8.2008 kl. 16:29
Þetta er alveg hárrétt hjá þér Árni Þór. Hins vegar er þetta vandamál auðvitað til staðar víðsvegar í heiminum, s.s. í Kína og í ríkjum Afríku, þar sem ótal þjóðarbrot mynda ríki, sem dregin voru upp með reglustiku af nýlenduherrunum.
Ég get nú ekki samþykkt að þetta séu allt gjörðir hægri manna. Ekki voru þeir að verki í Kína og einnig finnst mér einkennilegt ef herma á nýlendustefnuna upp á hægri menn dagsins í dag.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.8.2008 kl. 16:57
Mér er ekki alveg ljóst hvaða ferðamannahópatal þetta er í þér Snorri, en hins vegar hef ég heimsótt Kákasus (reyndar ekki Georgíu) í tvígang. Og ég frábið mér tal um "mína menn" í Sovét, því ég hef ekkert með stjórnarherrana þar að gera og finnst þetta ekki ýkja málefnalegt innlegg.
Hvað varðar tengslin við hægri menn þá er ég einfaldlega að benda á það að stóru blokkirnar, Bandaríkin og Evrópusambandið, eru undir stjórn hægri manna og í þeirra huga er ekki viðhaft jafnræði gagnvart þjóðum sem berjast fyrir sjálfstæði. Og þar er ekki um mismunun að ræða sem helgast af þjóðarrétti heldur fyrst og fremt af pólitískum og hernaðarlegum hagsmunum. Á sama hátt og ég styð sjálfstæðisbaráttu Kosovo, styð ég einnig sjálfstæðisbaráttu Osseta og Abkhaza.
Árni Þór Sigurðsson, 8.8.2008 kl. 19:54
Ja, mig minnir að hafa lesið að þú hefðir verið "tour guide" í Sovét, meðan Sovét var og hét. Það hefur þá greinilega verið einhver annar, úr því þú berð það af þér, eða þá að ég sé að orðinn svona kalkaður.
En nú veit ég ekki, en fórstu ekki þarna austur í nám eins og margir aðrir góðir sósíalistar. Ég sé því ekki betur en að þetta hafi hugmyndafræðilega verið "þínir menn"; þarna var fyrirmyndarríki íslenskra sósíalista áratugum saman. Merkilegt að íslenskir sósíalistar skuli nú margir hafa afneitað Sovétfortíðinni. Þetta er það sem pirrar mig einna mest hvað snertir fyrrum Alþýðubandalagsmenn, að skyndilega er byrjað á núlli og fortíðin þurrkuð af harða disknum, óuppgerð. Ég veit ekkert um þig persónulega o hef ekkert við þig að athuga, persónulega, en þetta pirrar mig samt í víðum skilningi og má vel vera að ég sé sekur um að setja alla í sama bás. En flestir alhæfa um menn og málefni, í báðar áttir, t.d. eru íslenskir hægrimenn á Íslandi gjarnan bendlaðir við Repúblikana eða Búss.
Eins og þú ert að benda á, og það réttilega, að blokkirnar BNA og EB, hafa ekki "jafnræði gagnvart þjóðum", þá er ég að benda á vinstri menn eru engu skárri, þegar þeir hafa tök á. Vald spillir, alræðisvald gjörspillir. Þá held ég að sama sé uppi á teningnum hjá vinstri eða hægri. Ég man í svipinn ekki eftir mörgum sem hafa haft mikil völd og ekki látið þau stíga sér til höfuðs, m.a. í því að kúga minnihlutahópa, þjóðernis"brot" eða einhverja aðra.
En gott og vel, smáþjóðir með sjálfstæði. Ég er sjálfur á móti blokkum, hvort sem þær heita ESB, Sovét, eða annað, þar sem þjóðum er hrúgað saman á báðar hendur og rúmlega það. Það er ávísun á vandræði. En vandamálið er yfirleitt það, að meta hvenær einstök eining er nógu stór eða öflug til að geta staðið ein. Ættu t.d. Vestmannaeyingar að lýsa yfir sjálfstæði? Hver er viðmiðunin? Rétt eins og Abkhazar (sem að mínum dómi eru mjög merkileg þjóð -- þekki ekki til Osseta) hafa ákveðna sameiginlega fortíð og menningu og annað það sem gerir þjóð að þjóð, eru e.t.v. þúsundir sambærilegra eða næstum því sambærilegra "þjóða" eða "þjóðabrota" í heiminum, og hundruðir þeirra í núverandi Rússlandi. Eiga allar þessar þjóðir að fá sjálfstæði? Hvar á að setja viðmiðunarmörkin? Og er eitthvað skrítið þó "stóri bróðir" vilji halda ríkinu saman, þrátt fyrir sjálfstæðisviðleitni einstakra hópa. Þeir sem völdin hafa vilja yfirleitt ógjarnan missa þau.
Einnig er ég ekki viss um að allar þjóðir græði á því að fá sjálfstæði, amk ekki til langs tíma litið. Sumar þjóðir hafa einfaldlega hvorki efni né mannauð til að standa einar og gera það frambærilega, og séu þær í mannauðskreppu en hafa auðlindir er alveg eins líklegt að síður auðugri nágrannaríki ásælist svæðið, eins og þekkt er frá spjöldum sögunnar.
Síðan er það allt annar handleggur, að fæst þessara "vandamála" í Sovét voru Stalín að kenna, þó Georgíumálin hafi vísast verið á hans könnu, Tétníumál og nokkur fleiri. Flest þeirra komu til vegna útþenslustefnu Rússakeisara í allar áttir, þar sem þjóðir og ættbálkar voru innlimaðir med det samme í ríki Stóra bróður.
En við getum þó vonandi verið sammála um, að vítin eru til að varast og að benda megi ESB sinnum á að læra af þeim!
Snorri Bergz, 8.8.2008 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.