28.11.2006 | 11:26
Eiga verktakar og lóðabraskarar að ráða skipulagi borgarinnar?
Á fundi framkvæmdaráðs Reykjavíkur í gær, var lögð fram til kynningar og umsagnar tillaga að mikilli uppbyggingu á svokölluðum Kassagerðarreit, við hafnarsvæðið norðan Sæbrautar. Tillagan gerir ráð fyrir sex 10-14 hæða háum skrifstofu- og þjónustubyggingum og fjórum 17 hæða íbúðarhúsum með um 260 íbúðum. Virðist eins og verktakar og lóðarhafar á þessum reit kunni sér engin takmörk og vilji láta eigin fjárhagslegu hagsmuni ráða skipulagi borgarinnar en ekki heildarhagsmuni borgarbúa. Því miður bendir margt til þess að borgarstjórnarmeirihlutinn láti hagsmuni fjármagnsins sitja í fyrirrúmi en ekki almannahagsmuni.
Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þessi skipulagstillaga er ekki góð.
- Í fyrsta lagi gerir hún ráð fyrir að íbúðabyggð teygi sig í fyrsta skipti norður fyrir Sæbraut. Sú staða verður þá uppi að Sæbrautin sker í sundur íbúðabyggðina í Laugarneshverfi og nýja byggð norðan Sæbrautar. Sæbrautin er óumdeilanlega ein mesta umferðaræð borgarinnar og ekki skynsamlegt að skipuleggja íbúðabyggð sitt hvoru megin við hana enda veldur hún nú þegar margvíslegu ónæði.
- Í öðru lagi mun væntanleg Sundabraut enn auka umferðarmagn á Sæbraut og þar með álagið og ónæðið í næsta nágrenni.
- Í þriðja lagi er mjög erfitt að koma fyrir grunnþjónustu norðan Sæbrautar, eins og grunn- og leikskólum. Það þýðir að börn á þessu svæði yrðu að sækja skóla suður yfir Sæbraut sem eins og áður segir er ein umferðarþyngsta gata borgarinnar. Göngubrýr eða undirgöng myndu á engan hátt leysa þann vanda sem því er samfara að senda mörg ung skólabörn yfir þungar umferðargötur í skóla hvern virkan dag skólaársins.
- Í fjórða lagi er Sundahöfnin (enn) mesta inn- og útflutningshöfn landsins með umtalsverðum akstri þungaflutningabíla til og frá svæðinu. Hætt er við að slík starfsemi og íbúðabyggð fari ekki vel saman og fljótlega myndu koma upp árekstrar milli þessara hagsmuna. Hefur jafnvel heyrst í fulltrúum íbúa að þeir muni losna við starfsemi eins og t.d. Hringrás af svæðinu, en mér vitanlega er engin slík tillaga uppi. Engin ástæða er fyrir borgaryfirvöld að efna til slíkra árekstra. Svæðið er hafnarsvæði en þar er óheimilt skv. skipulagsreglugerð að skipuleggja íbúðabyggð. Íbúðabyggð á þessu svæði myndi aldrei geta notið allra þeirra gæða og þeirrar þjónustu sem við viljum bjóða íbúum borgarinnar upp á.
- Í fimmta lagi má minna á að nú er verið að endurskipuleggja Gömlu höfnina, byggja þar tónlistar- og ráðstefnuhús, slippasvæðið er í endurgerð og starfshópur er að fjalla um framtíð Örfiriseyjar. Að mínum dómi er ábyrgðarlaust með öllu að setja öll hafnarsvæði borgarinnar í uppnám á sama tíma. Ekki má gleyma því að Reykajvíkurhöfn er megin inn- og útflutningshöfn landsins og skapar borgarsamfélaginu umtalsverðar tekjur og skapar borgarbúum ennfremur fjölmörg störf.
Á hinn bóginn er sjálfsagt að taka Kassagerðarreitinn til endurskipulags þar sem hluti starfseminnar þar er úr sér genginn. Kemur þá vel til álita að skipuleggja þar ný atvinnu- og þjónustusvæði og aðra starfsemi sem hentar svæðinu. Við fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar erum samstíga í málinu og lögðum fram á fundinum eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telja hugmyndir um uppbyggingu á svokölluðum Kassagerðarreit alltof umfangsmiklar. Minnt er á, að um er að ræða hafnar- og athafnasvæði í skipulagi þar sem íbúðabyggð er óheimil. Skipulag íbúðabyggðar norðan Sæbrautar er óheppileg m.a. með tilliti til skólamála en einnig mun mikið nábýli íbúðabyggðar og hafnarstarfsemi valda árekstrum. Við teljum atvinnuuppbyggingu á svæðinu með nýtingarhlutfall nálægt 1,35 jákvætt, en leggjumst gegn skipulagi íbúðabyggðar á svæðinu."
Þetta mál verður vafalítið áfram til umfjöllunar hjá borginni, m.a. í skipulagsráði og svo hjá höfninni.
Við leggjum áherslu á að skipulag borgarinnar taki mið af heildarhagsmuni borgarinnar en ekki fjárhagslegum hagsmunum verktaka eða lóðabraskara og munum standa vörð um hagsmuni almennings.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, Árni minn, en mesti lóðabraskararinn í valdatíð R-listans var R-listinn sjálfur, t.d. í Norðlingaholtinu, þar sem borgin hafði, á einhverjum tímapunkti þegar púls var tekinn á þessu, grætt á níunda hundrað milljónir króna á slíku kaup- og sölubraski, eins og Guðlaugur Þór upplýsti svo ágætlega um í fjölmiðlum. En þetta fannst Steinunni Valdísi alveg sjálfsagt, af því að það væri eðlilegt að samfélagið hagnaðist á slíku, alls ekki einstaklingar! - En var eðlilegt að borgin narraði suma landskika-eigendur, sem höfðu átt land sitt áratugum saman, til að selja hvern fermetra á 1100 krónur, en selja síðan sama land til hæstbjóðenda á margfalt hærra verði? Af hverju máttu eigendurnir ekki njóta áratuga-fjárfestingar sinnar nema í sáralitlu, en borgin hins vegar okra margfalt á sömu skikum örfáum misserum síðar? Var ekki beitt blekkingum, þegar fólkinu var talin trú um, að landið væri ekki meira virði? Og ég tek fram, að oftast var þetta bara venjulegt alþýðufólk með óvenjusmáa kofa, engir stórgrósserar eða sérútvaldir R-lista-andstæðingar. -- Með góðum óskum, JVJ.
Jón Valur Jensson, 28.11.2006 kl. 16:10
Já, heilir og sælir, ég vil þakka Árna fyrir þetta sama, að hafa opið á athugasemdir við pistla sína, það er hrósvert, og mættu aðrir stjórnmálamenn taka sér það til fyrirmyndar, t.d. ungi varaborgarstjórinn í Framsóknarflokknum, en þar kom ég að lokuðum dyrum varðandi slíkt samband við kjósendur, þegar ég ætlaði að gera athugasemd við nýlegan Moggabloggspistil hans.
Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 00:35
Aðeins varðandi þetta hjá JVJ. Málið er að það eru þrátt fyrir allt borgaryfirvöld sem eru kjörin af borgarbúum til að fara með stjórn borgarinnar, þmt. í lóða- og skipulagsmálum. Það sem ég bendi á er mikilvægi þess að borgaryfirvöld missi ekki sjónar á almannahagsmunum og láti fjárhagslega hagsmuni einkaaðila ráða för. Um skipulagsstefnu borgarinnar geta menn síðan haft ýmislegt að segja og deilt um hana, en það er þá (vonandi) á lýðræðislegum forsendum og vettvangi.
kv
áþs
Árni Þór Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 09:04
Einn ósannfærður heilsar -- og kveður.
Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 2.12.2006 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.