Samband sveitarfélaga móti stefnu í innflytjendamálum

Öllum er ljóst að íslenskt samfélag hefur á undanförnum misserum og árum tekið miklum breytingum. Meðal annars hefur fjölbreytnin í samfélaginu aukist til mikilla muna með fjölda fólks sem hingað hefur flutt frá öðrum löndum. Fjölmenningin er komin til að vera og það er fagnaðarefni. Í mörgum sveitarfélögum er fjöldi fólks af erlendu bergi umtalsverður og því mikilvægt að þau hafi skýra stefnu og sýn hvað þetta varðar.

Í umræðum á vettvangi samstarfs sveitarfélaganna hefur verið rætt um málefni innflytjenda. Á síðasta fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði ég til að stjórnin móti sér stefnu í innflytjendamálum og var tekið vel í tillöguna. Verður vonandi tekin um það ákvörðun á næsta fundi stjórnarinnar.

Talsvert hefur verið fjallað um málefni innflytjenda að undanförnu. Hygg ég að flestum sé nú orðin ljós þörfin á því að við tökum málefni þeirra föstum tökum, mótum skýra framtíðarsýn um það hvernig við tökum á móti fólki, hvernig það getur sem best aðlagast nýjum aðstæðum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Borgarstjórnarflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa nú þegar kynnt tillögu sína að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Framkvæmdaáætlunin byggist á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en endurspeglar jafnframt að samþætting, farsæl aðlögun og barátta gegn fordómum og aðgreiningu er fjölþætt og mikilvægt samfélagslegt verkefni sem vinnst ekki án athygli og atbeina stjórnvalda.

Ítarlega er fjallað um tillögu Vinstri grænna og Samfylkingar í borgarstjórn í Morgunblaðinu 22. nóvember sl. og má nálgast hana hér eða hér.

Fleiri sveitarfélög hafa mikla reynslu af starfi með innflytjendum og er sjálfsagt að Samband íslenskra sveitarfélaga leiti í smiðju til þeirra en umfram allt er þýðingarmikið að samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á landsvísu móti sínar áherslur og markmið, m.a. að því er lýtur að samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þessu efni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband