"Við förum í gegn um þetta saman"

Flestir þeir sem ég hef heyrt í og séð frá eru samdóma um að ræða Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG hafi skarað framúr í umræðum á Alþingi í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra.  Sumir segja að ræða Steingríms sé sú sem Geir hafi átt að flytja!  Ótvírætt er að Steingrímur talaði kjark í þjóðina, gagnrýndi vitanlega það ástand sem nú er uppi og þá stefnu sem m.a. hefur leitt til þess.  En um leið sýndi hann ótvíræða forystuhæfileika og lýsti mikilvægi þess að þjóðin snúi nú bökum saman og takist í sameiningu á við vandann.  Og hann bauð fram krafta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboð í því þjóðarátaki.  Það er ábyrgðarhluti að hafna slíku boði, ,jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi góðan meirihluta á Alþingi.  Nú snýst málið einmitt um að stjórnmálalífið standi saman og heiti á samfélagið allt að gera slíkt hið sama.  Ég sé fulla ástæðu til að birta ræðu Steingríms J. Sigfússonar hér á bloggsíðunni, hún er góð og gagnleg lesning.

Ræða Steingríms J. Sigfússonar eftir stefnuræðu forsætisráðherra:

"Góðir landsmenn.

Vofa gengur nú ljósum logum um hinn kapítalíska heim. Það er ekki vofa kommúnismans sem skrifað var um á nítjándu öldinni, nei, það er vofa kapítalismans sjálfs.

Í flestum vestrænum löndum standa nú yfir neyðaraðgerðir, þar sem gripið er til gríðarlegra fjármuna úr almannasjóðum til að afstýra algjöru hruni nýfrjálshyggju-kapítalismanns. Hugmyndafræðin sem vildi færa nánast öll verkefni samfélagsins með einkavæðingu yfir til markaðarins, hataðist við alla reglusetningu frá hinu opinbera, vildi í raun ekkert af ríkisvaldinu hefur nú étið sjálfa sig upp innanfrá og skríður undir pilsfald hins opinbera. Nýfrjálshyggjubyltingin er að éta börnin sín, enda hefur Hannes Hólmsteinn ekki skrifað blaðagrein í margar vikur.

Lærdómar heimskreppunnar miklu um 1930 eru nú rifjaðir upp og eðlilega spyrja margir sig í forundran: Hvernig gat mannkynið verið svona heillum horfið og vitlaust að glata reynslunni frá þeim hildarleik og endurtaka að verulegu leyti sömu mistök sem voru fólgin í hinni blindu trú á markaðinn?

Er það ekki undarlegt, góðir áheyrendur, að á nokkurra áratuga eða hálfrar til einnar aldar fresti hið mesta, skuli þessi skrítna skepna, Homo Sapiens, sem þýtt hefur verið; sem hinn viti borni maður, þurfa að læra allt upp á nýtt, læra það að hún græðgin, hann hrokinn og það siðleysið eru ekki góðir ferðafélagar í þróun mannlegs samfélags?

Hér uppi á Íslandi er staðan sú að allt frá því fyrir mitt ár 1991 hafa setið hægri sinnaðar ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins, með aðild; fyrst Alþýðuflokksins sáluga, síðan Framsóknarflokksins í tólf ár og nú Samfylkingarinnar og fylgt þessum sömu leiðarljósum.

Við Íslendingar erum staddir í versta ólgusjó efnahags- og þjóðmálaupplausnar sem við höfum lent í a.m.k. um áratuga skeið, ef ekki í raun og veru nokkru sinni síðan við endurheimtum fullveldi og sjálfstæði. Ég held að maðurinn í Múrbúðinni hafi skilist, þegar hann sagði efnislega að vandinn væri sá að útrásar- og bankastrákarnir væru búnir að skuldsetja okkur, íslenska þjóðarbúið, upp í rjáfur og við afleiðingar þess væri nú að glíma. En; fjármálageirinn og viðskiptalífið bera hér ekki ein sök. Leikvöllurinn var lagður með pólitískum ákvörðunum, með einkavæðingu ekki síst banka, með sömu blindu trúnni á markaðinn. Útrásarvíkingarnir voru þjóðhetjur, stjórnvöld hældust um af afrekum sínum, mikluðust af góðæri og velgengni. Ísland var að sigra heiminn. Hvernig má það þá vera að nú; um mánaðarmótin september október 2008 skuli fjármálakerfi landsins riða til falls, kaupmáttur og eignir almennings brenna upp í óðaverðbólgu, með gengishruni og sökum okurvaxta. Þetta átti ekki að fara svona var það?

Hægri menn tala gjarnan þannig, þegar mestur er á þeim gállinn, að þeir einir kunni með peninga að fara. Þeir einir geti stjórnað fjármálum sveitarfélaga eða ríkis þannig að vel fari og ábyrgt sé. Ekki vantar það á Íslandi að hægri sinnaðir stjórnmálamenn hafi ekki haft völdin síðastliðin rúm 17 ár. Það eru ekki vinstri stjórnir sem hafa á þessum tíma gert Ísland að skuldugasta hagkerfi meðal þróaðra þjóða.

Nei, það eru ekki sósíalistar, græningjar, anarkistar, marxistar eða reynslulitlir unglingar sem hér hafa vélað um, það eru Davíð Oddsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde og nú upp á síðkastið með honum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir; Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðuflokkurinn sálugi, Framsóknarflokkurinn og nú Samfylkingin sem bera hér pólitíska ábyrgð.

Auðvitað gerir hin alþjóðlega fjármálakreppa ástandið illt verra en ég fullyrði það hér að þó hún hefði alls ekki komið til þá ættum við Íslendingar engu að síður í miklum vanda.

Ef það er eitthvað eitt sem ég, sem formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, er umfram annað virkilega stoltur af, þá er það það hvernig Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sjálfri sér samkvæm fjallað um þessi mál og eins þótt tíska og tíðarandi hafi verið okkur mótdræg. Nú sýnist mér heldur betur vera orðin þar breyting á. Þegar hægri maðurinn Sarkosý Frakklandsforseti vill setja niður nefnd til að endurskoða Kapítalismann er heldur betur stungin tól.

En nú er, góðir landsmenn, komið eins og komið er. Því miður. Og það veitir mér afar takmarkaða ánægju þó ég geti sagt með réttu að við, Vinstri – græn, höfum, allt frá árunum 2004-5 bent á hvert stefndi. Við höfum flutt á hverju einasta þingi tillögur um að ráðist yrði í aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, stöðva skuldsetningu þjóðarbúsins, ná tökum á ástandinu og koma þjóðarskútunni á rétta stefnu. Það gremjulega, það sorglega, það dýrkeypta  er auðvitað, að þetta þurfti aldrei, og átti aldrei að fara svona.

En við erum þar sem við erum, góðir landsmenn. Gert er gert og liðið er liðið og nú er að takast á við hlutina. Nú verðum við að hugsa í lausnum. Áhöfn á lekum bát sest ekki niður til að velta því fyrir sér hvers vegna fór að leka, hún fer strax að ausa. Nú verðum við að sameina kraftana. Við verðum að vinna saman. Við verðum að slíðra vopnin, hvort sem heldur er í pólitískum skylmingum eða í bolabrögðum úti í viðskiptalífinu og sameinast um það stóra verkefni að vinna okkur í gegnum og út úr vandanum og inn í framtíðina.

Ég eyði hér ekki orðum á framsöguræðu forsætisráðherra. Í henni var; því miður ekkert. Nema þá gamansemin um hvað ríkisstjórnin hafi góð tök á hlutunum -  nema þetta hafi af misgáningi verið ræðan frá því í fyrra?

Ég eyði þaðan af síður orðum í málflutning Samfylkingarinnar að undanförnu. Orka þeirra fer fyrst og fremst farið í eitt: að níða niður gjaldmiðilinn og útmála hversu ónýtur hann er. Heldur betur það sem krónan þarf á að halda. Ekki lækkar greiðslubyrði erlendra húsnæðis- og bílakaupalánanna við það.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum unnið aðgerðaáætlun í 20 liðum sem er tilbúin í okkar fórum, sem við getum lagt á borðið með okkur.

Ríkisstjórn Íslands verður nú á næstu sólahringum að svara því hvort hún treysti sér til og hefur bolmagn og styrk, kjark og sjálfstraust til, að leiða endurreisnaraðgerðir í okkar þjóðarbúskap. Ef ekki, þá verður þar að verða breyting á, með hvaða hætti sem það getur gerst. Við Vinstri græn erum tilbúin, tilbúin til að axla ábyrgð og leggja okkur sjálf undir ef það má verða að liði og með hvaða hætti sem það getur gerst. Ég persónulega er tilbúinn til að leggja sjálfan mig undir. Ég hef af því litla gleði, hafandi helgað stjórnmálum stærstan hluta minna fullorðinsára og hafandi setið hér á Alþingi í 25 ár að aðstæðurnar skuli vera þessar.

Við verðum að ganga í að leysa gjaldeyriskreppuna og stöðva fall krónunnar. Takist það ekki innan fárra daga verður gjaldeyrisviðskiptum sjálfhætt og eins gott að stöðva þau formlega.

Við verðum að fullvissa almenning um að innistæður landsmanna í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum verði tryggðar og að í þeim efnum sé ástæðulaust að óttast.

Við verðum að ná hratt niður verðbólgu og lækka vexti, við lifum ekki veturinn hvað þá lengur við óbreyttar aðstæður.

Við verðum að veita fé í umferð þannig að almenningur fyrirtæki og stofnanir fá eðlilega bankaþjónustu og hjól samfélagsins og þjóðarbúskaparins geti snúist áfram.

Við verðum að verja lífskjörin og stöðu heimilanna eins og nokkur kostur er og afstýra því að fólk fari umvörpum að missa húsin sín og komast í þrot. Í því efni verðum við að beina þeim mætti sem við höfum til þeirra sem standa höllustum fæti. Þeir sem betur eru settir verða að sjá um sig. Tekjulágt fólk, ungt skuldsett fólk, einstæðir foreldrar, aldraðir og öryrkjar sem hafa einan saman lífeyri til að framfleyta sér og aðrir hópar sem lakast eru settir verða að vera í forgagni við aðstæður sem þessar.

Og síðast en ekki síst verðum við að slá óvígri skjaldborg um velferðarþjónustuna. Nú reynir á velferðarkerfið, það er aldrei dýrmætara en á erfiðum tímum.

Góðir landsmenn! Það hefur oft verið meira gaman að koma til Alþingis á fögrum haustdegi og hefja hér störf. Það var lítið um bros í þingsalnum í gær. Alvara málsins er öllum ljós.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, afneitun eða sjálfsblekking gerir aldrei nema illt verra.

En; við skulum ekki missa kjarkinn.

Ég segi við ykkur góðir landsmenn þar sem þið sitjið og hlustið eða horfið.

Ekki missa móðinn

Ekki gefast upp

Við förum í gegn um þetta saman

Það er líka þannig að margt mun leggjast með okkur

Við eigum enn fiskimiðin og tæki mannafla og þekkingu til að nýta þau.

Við eigum enn landbúnað og matvælaiðnað sem sér fyrir um hálfri fæðuþörf þjóðarinnar

Við eigum útflutningsiðnað og tækniþekkingu í matvæla- stoðtækja- lyfjaiðnaði o.fl.ofl.

Við eigum þetta dásamlega og orkuríka land sem útlendingar vilja sækja heim og sem sér okkur fyrir ljósi og hita

Við eigum í ríkulegum mæli ein eftirsóttustu gæði jarðarinnar sem nú eru að verða, hreint vatn

Við erum ung og vel menntuð þjóð

Við erum dugleg þjóð og teljum ekki eftir okkur að vinna mikið svo lengi sem vinnu er að hafa

Við eigum tungu okkar, menningu og rætur og þangað sækjum við styrk, sjálfsvitund og sjálfstraust

Við eigum hvert annað, við hjálpumst að, við styðjum hvert annað innan fjölskyldunnar, vinahópsins, byggðarlagsins

Við erum öll áhöfn á sama báti og það er löngu komið ræs.

 

Og hvernig á að fara í þetta örlaga verkefni í sögu þjóðarinnar?

Á morgun á að boða saman til fundar:

-Okkur forustumenn stjórnmálanna

-Forustumenn fjármálalífsins

-Verkalýðsforustu og atvinnurekendur

-mikilvægustu heildarsamtök

Og læsa okkur inni

Við þurfum ekki Laugardalshöllina, hið sögufræga hús Höfði nægir. Þetta eru nokkrir tugir karla og kvenna, því þarna eiga ekki bara að vera jakkafataklæddir karlar, þarna þurfa líka að vera margar hagsýnar húsmæður, konur, sem hefðu betur ráðið meiru um okkar mál en þær hafa gert, við höfum ekki staðið okkur svo vel karlarnir.

Og þarna á þessi hópur að sitja og koma ekki út fyrr en búið er að ná samkomulagi um hvernig þjóðarbúið verður unnið út úr yfirstandandi erfiðleikum. Dyrnar verða læstar þar til kominn er hvítur reykur.

Við höfum ekkert leyfi til þess, við sem höldum nú á fjöreggi þessarar þjóðar í höndunum, á efnahagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar og á framtíð barnanna okkar, að láta okkur mistakast.

Forsætisráðherra góður, þú átt að boða fundinn, ég er tilbúinn til að mæta og það sama gildir örugglega um alla aðra. Slíku fundarboði yrði tekið fagnandi bæði af þeim sem boðaðir yrðu og af þjóðinni.

Munum það að lokum góðir landsmenn að öll él byrtir upp um síðir en pössum vel upp á hvert annað meðan þetta gengur yfir, þessi bylur sem nú stendur.

Og vaki nú allar góðar vættir yfir Íslandi."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Gaman að sjá þessa ræðu svona á rituðu máli.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 3.10.2008 kl. 19:54

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég eyði þaðan af síður orðum í málflutning Samfylkingarinnar að undanförnu. Orka þeirra fer fyrst og fremst farið í eitt: að níða niður gjaldmiðilinn og útmála hversu ónýtur hann er. Heldur betur það sem krónan þarf á að halda. Ekki lækkar greiðslubyrði erlendra húsnæðis- og bílakaupalánanna við það.


Sæll Árni Þór og takk fyrir þetta.

Þetta er í það minnsta þjóðholl ræða hjá Steingrími og er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir því. Ég gæti ekki verið Steingrími meira sammála í umfjöllun hans um niðurtal Samfylkingarinnar á gjaldmiðli þjóðarinnar.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.10.2008 kl. 20:18

3 Smámynd: Oddur Ólafsson

Besta ræða sem flutt hefur verið á Alþingi um langt árabil.

Á ensku myndi maður segja að í henni hafi verið "sense of urgency" sem svo átakanlega vantaði í flestar aðrar ræður.

Þetta eru engir venjulegir tímar, og flestir virtust hálfsofandi miðað við Steingrím.  Því miður.

Oddur Ólafsson, 4.10.2008 kl. 08:17

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Skemmtilegt orðskrúð sem ræðumaður veit að hann þarf ekki að standa við.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 4.10.2008 kl. 10:05

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Alsæll Árni.

Þetta var góð ræða hjá Steingrími.

Nú er tími til að breyta um stefnu.

Við verðum að draga þá til ábyrgðar sem hafa dregið efnahagskerfið á asnaeyrunum. Bæði heima á Íslandi og annarstaðar.

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.10.2008 kl. 19:54

6 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

....En það var of mikið af ásökunum í ræðu Steingríms og of lítið að uppbyggjandi ábendingum um hvað við eigum að gera (tillögur eins og verðtrygging lágmarkslauna í hámarkslaunum o.s.f.)

Það er alltaf létt að vera gagnrýninn þagar andstæðingurinn liggur í valnum. En nú þurfum við bæði að gagnrýna EN ekki síður að koma með uppbyggjandi tillögur að lausnum.

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.10.2008 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband