Nú þarf að byggja á bjargi

Samfélagið hefur orðið fyrir áfalli og stendur á krossgötum.  Sjálft þjóðskipulagið stendur á krossgötum.  Nýfrjálshyggjan sem hefur riðið húsum um öll Vesturlönd mörg undanfarin ár er hrunin, hún reyndist byggð á sandi. Hún var nöguð í sundur innanfrá.

Stjórnvöld standa nú í björgunaraðgerðunum miðjum.  Mikið er rætt um að nú sé ekki tími til að leita að sökudólgum, því allir kraftar verði að fara í björgunina sjálfa og svo uppbyggingarstarf.  Þetta má til sanns vegar færa.  Á hinn bóginn er í mínum huga alveg ljóst hver sökudólgurinn er, það er ekki einhver einn eða nokkrir einstaklingar, það er heil hugmyndafræði og pólitísk stefna sem því miður hefur verið fylgt nær gagnrýnislaust sem augu okkur eiga að beinast að, nú þegar við þurfum að byggja upp að nýju.

Græðgin og drambið, gróðahyggjan hefur verið hafin upp á stall, ímyndin um að velmegun og vöxtur gæti varað að eilífu, dansinn í kringum gullkálfinn myndi engan enda taka.  Og það eru ekki bara þeir sem þar hafa verið í fararbroddi sem gjalda nú fyrir skipbrot þessara gilda.  Nei, það er þjóðin öll.  Um allt samfélagið er fjöldi fólks sem býr nú við mikla óvissu um framtíðina.  Þess vegna er brýnt að menn hugsi ekki bara um peninga, um fjármuni sem hafa farið forgörðum þó þeir skipti máli, heldur ekki síður um hið félagslega, um andlega líðan einstaklinga, fjölskyldna og raunar þjóðarinnar allrar.  Við þurfum að vinna með kvíðann og angistina sem hefur búið um sig í hjörtum þúsunda Íslendinga.  Margir hafa tapað umtalsverðum sparnaði, og margir hafa misst vinnuna eða munu verða atvinnulausir á næstu mánuðum.  Þetta er staða sem við Íslendinga höfum ekki staðið frammi fyrir um margra áratuga skeið, ef nokkru sinni.

Við tekur uppbygging og endurreisn íslensks samfélags.  Nú verðum við að byggja á bjargi.  Samhjálpin verður að vera leiðarstef hins endurreista samfélags.  Og við megum ekki vera feimin við að setja skýrar reglur um fjármálastarfsemina þar sem hagsmunir alls almennings eru hafðir að leiðarljósi en ekki fjárfesta og spákaupmanna.  Velferðarkerfið þarf að efla.  Ný gildi þarf að hefja til vegs og virðingar, gildi samstöðu, réttlætis, jöfnuðar og umhyggju fyrir einstaklingum og náttúru.  

Reynslan er harður húsbóndi.  En einmitt nú er hún dýrmætari en oftast áður.  Við skulum hafa hana í farteskinu þegar við hefjum uppbyggingarstarf, við skulum öll taka höndum saman um að kasta nýfrjálshyggjunni á "öskuhauga sögunnar" og hefja raunverulega félagshyggju í öndvegi.  Þannig mun okkur best farnast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Er hægt að fá allt þetta hjá Vinstrum Grænum?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.10.2008 kl. 18:01

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Ég trúi ekki að þú hafir efasemdir um það, félagi  Vilhjálmur!

Árni Þór Sigurðsson, 12.10.2008 kl. 22:21

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Félagi Árni, ég er efins um allt þessa dagana. Við getum aldrei famkvæmt þá byltingu sem við töluðum um í MH? Þjóðin hefur alltaf verið ónýt í svoleiðis. En ég er á vissan hátt sammála þér.

En Kreppu Jón og Banka Jón eru ekki sama þjóðin, og Jón í bankanum og Jón hæst í þjóðfélagsstiganum verða að punga öllu út, eða þangað til þeir eru á sama róli og Kreppu Jón og allir hinir í vosbúð næstu ára. Fyrr getum við ekki talað um jöfnuð. Svo verðum við að hlífa gamla fólkinu og því yngsta að besta megni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.10.2008 kl. 06:53

4 Smámynd: Steinarr Bjarni Guðmundsson

Var á fundi með Atla Gíslasyni hér á Hornafirði í gær (12. okt.) og með mér var 10 ára dóttir mín. Þegar heim var komið hafði hún miklar áhyggjur af sparnaði sínum, enda fór hún reglulega með sparibaukinn í Íslandsbanka heitinn sem jú síðar varð Glitnir (heitinn) á meðan við bjuggum á Akureyri. Ég gerði mitt besta til að sannfæra hana um að hennar sparnaður væri öruggur. Svo sagði hún: "Mig langaði til að tala á fundinum og segja að mér fyndist að við ættum bara að hætta að vera sjálfstæð, við kunnum það hvort sem er ekki. Svo þegar einhver er búinn að kenna okkur það, þá getum við fengið sjálfstæðið aftur."

Steinarr Bjarni Guðmundsson, 13.10.2008 kl. 16:17

5 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

VG verður líka að axla ábyrgð eða ætlar VG að vera í stjórnarandstöðu
til 2050.  Sitjandi stjórn mun ekki sitja lengi.  Samfylkingin mun
slíta þessu um leið og um hægist.  Eina mögulega næsta stjórn
inniheldur 2 flokka...VG og Samfylkingu.  VG verður þess vegna núna
strax að endurskoða afstöðu sína til aðildar að EB og hætta þessari
einangrunarhyggju.  Þessir 2 flokkar verða að mætast á miðri leið og
mynda breiðfylkingu, því hagsmunir þjóðarinnar eru meiri en hagsmunir
flokka, hvaða nafni sem þeir nefnast eða miðar VG við að verða
einhverntíma það stór flokkur að geta verið ein í ríkisstjórn. 
Endurskoða þetta lykilatriði sem fyrst og hefja kosningabaráttuna strax
í dag undir því kjörorði að ætla að sitja í næstu ríkisstjórn og ekkert
helvítis en..eða ..ef....því það er komið að þessum 2 flokkum að starfa
saman og þó fyrr hefði verið.  Besti leikurinn í stöðunni er því að
byrja sem fyrst að semja við Samfylkinguna og endurskoða afstöðu
flokksins til EB aðildar.

Máni Ragnar Svansson, 15.10.2008 kl. 21:33

6 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Og hver er svo miðjan leiðin milli þessara flokka í ESB-málinu að þínu mati Máni?

Árni Þór Sigurðsson, 17.10.2008 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband