17.10.2008 | 08:44
Fær leið
Hugmyndir Þórólfs Matthíassonar prófessors í hagfræði, um að við tökum upp norskar krónur, er athyglisverð. Hún er að vísu ekki alveg ný af nálinni og hefur verið sett fram áður á undanförnum mánuðum. En hún fær nú aukinn þunga þegar hagfræðiprófessor viðrar hana nú þegar við erum í miðjum öldudal bankakreppunnar.
Mörgum hættir til að gera íslensku krónuna að blóraböggli og gefa jafnvel í skyn að við hefðum aldrei lent í þeim hremmingum sem við glímum nú við ef við hefðum haft annan gjaldmiðil, t.d. evru. Það verður að vísu ekki séð að útrásarvíkingarnir og spákaupmennirnir hefðu hagað sér öðruvísi þótt gjaldmiðillinn hefði verið annar, að mönnum hefði ekki tekist að skuldbinda íslenska þjóð með öðrum gjaldmiðli. Miklu fremur er íslenska krónan fórnarlamb í þessu umróti öllu.
Á hitt verður að líta að það er rétt að íslenska krónan er afar smár gjaldmiðill með lítið hagkerfi á bak við sig. Þess vegna er ekki óeðlilegt að því sé velt upp hvort við eigum aðrar leiðir færar í gjaldmiðilsmálum til framtíðar en íslenska krónu. Veruleg rök mæla þó með því að við notumst við íslenska krónu áfram meðan við erum að koma okkur út úr mesta óveðrinu, m.a. til að styrkja stöðu útflutningsatvinnugreinanna og ferðaþjónustu, og um leið til að draga úr einkaneyslu og viðskiptahalla.
En þegar fram í sækir getur verið nauðsynlegt að við ræðum fordómalaust um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála. Þar eru hugmyndir prófessors Þórólfs eðlilegt innlegg. Staðreyndin er sú að norskt atvinnulíf er að mörgu leyti mun líkara því íslenska en atvinnulíf evrusvæðisins. Norska krónan stendur styrkum fótum og hefur öflugt hagkerfi á bak við sig. Vel mætti hugsa sér að leitað yrði til Norðmanna strax um gjaldmiðilssamstarf, t.d. með því að binda íslensku krónuna þeirri norsku, en slíkt samstarf mætti svo þróa áfram yfir í einn sameiginlegan gjaldmiðil. Engin ástæða er til að ætla annað en að Norðmenn væru reiðubúnir til að skoða þessa leið með okkur Íslendingum á jákvæðan hátt.
Vill norsku krónuna inn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Maður hefur nú fengið það á tilfinninguna að þið í Vinstri grænum væruð ansi sátt við að vera lítið hagkerfi með litla mynt; þjóð sem hugsar smátt og er upptekin öllu því sem hún ekki getur. Það er jú samasemmerki á milli þess að vera hluti af kommúnismanum og vera sannfærður um vangetu sína sem einstaklings.
Liberal, 17.10.2008 kl. 12:07
Alveg er þetta furðulegt, menn sem telja sig þá þjóðræknustu sem fyrir finnast, kaþólskari en páfin þegar kemur að þjóðrækninni. Þessir einstaklingar eru síðan þeir fyrstu að mæla með því að færa Ísland undir eitt konungsríki. Ég veit ekki hvenær þetta gerðist í hugartetri einangrunarsinna að "Gamli Sáttmáli" varð allt í einu birtingarmynd þjóðernisástar. En fyrir mér sem íslendingi sem skilur söguna þannig að með Gamla Sáttmála hafi sjálfstæði þjóðarinnar endað og markar upphaf niðurleigingarskeiðs þjóðarinnar. Þannig að fyrir mér með tilliti til sögunnar, tákn um uppgjöf fyrir tilverurétti íslenska ríkisinns. Þingmaður íslenska lýðveldisins sem óskar sér konungsstjórnar skal hafa skömm á sér fyrir slík orð.
Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 14:01
Er einhver að tala um konungsstjórn? Alla vega ekki undirritaður.
Árni Þór Sigurðsson, 17.10.2008 kl. 14:09
Sæll Árni
Það sem felst í þínum orðum er að þú telur réttlætanlegt að íslendingar eigi að vera undir hæl norðmanna í efnahagsmálum. Á þjóðveldinu voru það skipin nú á það að vera gjaldmiðilinn, nei takk. Síðasta aðstoð þeirra "þróaðist" í að kosta okkur sjálfstæðið og það á að vera nægt víti til varnaðar. Já, konungsstjórn, því norska krónan er merkt konungsslektinu. Reynda tel ég að rífa eigi danska pjátrið af þinghúsinu okkar og senda það á þjóðminjasafnið. Þinghúsið á að vera skreytt með vættunum og fálkanum!
Einnig, þá er norska krónan er réttilega sterk, en það er það síðasta sem við þurfum núna. Þegar þörfin er á að keyra upp íslenskan útflutning og byggja upp íslenskan iðnað og framleiðslugreinar er það sem er mikilvægast nú um stundir. Nokkuð sem virst hefur verið eitur í beinum ykkur vinstri græna. En það gerist ekki með sterkum gjaldeyri sem gerir okkur ósamkeppnisfær.
ps. þakka svarið, það er ekki margir starfsbræður þínir sem svara athugasemdum.
Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 16:55
Reyndar hefi ég oft ritað um þetta á blogginu mínu. Samtengjast norsku krónunni. Gera með okkur myntbandalag, en halda útlitinu á seðlum og mynt! AF HVERJU EKKI?
Baldur Gautur Baldursson, 21.10.2008 kl. 15:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.