28.10.2008 | 15:33
Sveitarfélögin á berangri - neyðaráætlun er nauðsynleg
Í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag vakti ég athygli á vanda sveitarfélaganna og spurði samgönguráðherra til hvaða ráðstafana yrði gripið til að bæta stöðu þeirra.
Sveitarfélögin verða nú fyrir miklu tekjutapi vegna stöðu efnahagsmála. Útsvarstekjur lækka, framlög í jöfnunarsjóð sveitarfélaga lækka, í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er fellt niður sérstakt aukaframlag í jöfnunarsjóð að fjárhæð 1.400 mkr. og loks gerir fjárlagafrv. ráð fyrir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts af opinberum byggingum, og er sú ákvörðun tekin án nokkurs samráðs við sveitarfélögin, sem er brot á samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga. Tekjutap sveitarfélaganna vegna aukaframlagsins í jöfnunarsjóð og breytingum á fasteignaskatti verða rúmlega 2 milljarðar króna. Lækkun framlaga í jöfnunarsjóð vegna lækkandi tekjuskatts mun að líkindum nema sömu fjárhæð að lágmarki. Þessu til viðbótar munu sveitarfélögin á næstu vikum og mánuðum þurfa að efla stoðþjónustu sína, einkum fjárhagsaðstoð.
Svör samgönguráðherra vekja ekki von um að verið sé að taka á vanda sveitarfélaganna af nokkurri festu. Engar tillögur eða hugmyndir um aðgerðir eru mótaðar og ráðherra virðist ekki taka samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga alvarlega. Það blasir því við að sveitarfélögin eiga engan málsvara í ríkisstjórninni eins og þau svo sannarlega þyrfti á að halda, ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja. Nú þarf að vinna neyðaráætlun vegna vanda þeirra og það þarf að hafa hraðar hendur. Annars er hætt við að fari mjög illa hjá mörgum þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Einkennilegt er að fellt er niður aukaframlag í jöfnunarsjóðsveitarfélaga. Ljóst er að sveitarfélög eiga mörg hver í miklum vandræðum. Þá er fjárstreymi oft árstíðabundið og þá er lagt fyrir. Einnig er ljóst að mörg sveitarfélög verða fyrir umtalsverðu tapi vegna peningamarkaðsreikninga, fjármagns sem lagt hefur verið tímabundið á hærri vexti í gjaldþrota banka.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.11.2008 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.