Fornaldarhagfræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Ákvörðun Seðlabankans að hækka stýrivexti um 50%, í 18% byggist á skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) við lánveitingu til Íslands vegna efnahagskreppunnar.  Ýmsir höfðu varað við því að ganga sjóðnum á hönd og héldu því fram að skilyrðin yrðu óaðgengileg.  Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna sögðu hins vegar engin skilyrðium aðgerðir  fylgja sem við myndum ekki þurfa að grípa til hvort eð væri.  Ekki gat ég betur heyrt en verkalýðsleiðtoginn, forseti ASÍ, væri sömu skoðunar.

En nú er að koma í ljós hvað hékk á spýtunni.  Gamaldags kennisetningar hagfræðinnar ráða för, rétt eins og þegar AGS kom til skjalanna í efnahagskreppunni í Asíu í lok síðustu aldar.  Með fullkomnlega misheppnuðum árangri.  Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við hinn virta London School of Economics í London var í viðtali við Ríkisútvarpið í dag um vaxtahækkunina.  Þessi frétt á vefsíðu RÚV er athyglisverð:

"Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics, segir undarlegt að Seðlabankinn skuli hafa hækkað stýrivexti þegar Seðlabankar um allan heim hafi lækkað vextina. Hann segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi alltaf krafist mikilla vaxtahækkana og byggt á gamaldags hagfræði sem segi að hærri vextir styrki gengi gjaldmiðla.

Það hafi haft hræðilegar afleiðingar í Asíu þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hækkaði vexti þar. Gengið hefði haldið áfram að hrynja og hagkerfið fylgt á eftir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist því ekki hafa lært lexíuna af þeirri reynslu, segir Jón.

Jón segir hugmyndina rétta um að hækkun vaxta styrki krónuna til skamms tíma. Það hafi hins vegar miklu alvarlegri afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og óvíst að þetta takist. Jón segir það því heppilegra að halda vöxtunum lágum, auka peningaframboð og taka verðbólguskellinn til skamms tíma og grípa til aðgerða til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Liberal

Er þá Jón Daníelsson boðberi sannleikans í þínum huga?  Er í þínum huga hagfræði fræðigrein annars vegar sannleika og hins vega ósanninda?  Svona eins og eðlisfræði bara með eitt rétt svar við hverri spurningu?

Getur Jón Daníelsson ekki haft rangt fyrir sér, af því að hann er dósent við "virtan" skóla?

Það sem ég hef heyrt til Jóns hingað til hefur ekki beinlínis fyllt mann trausti á því að hann viti yfirhöfuð um hvað hann er að tala, ekki frekar en flestir aðrir hagfræðingar sem keppast við að komast í fjölmiðla nú um stundir. 

En segðu mér það, Árni, hvað er það sem þið í vinstrigrænum viljið gera?  Nánar tiltekið, til hvaða aðgerða viljið þið grípa, hvað kosta þær, hvernig á að borga fyrir þær, hvernig hefur það áhrif á efnahag landsins, og hversu mikil verðmætasköpun mun verða til við tillögur ykkar? 

Liberal, 29.10.2008 kl. 11:05

2 Smámynd: Haukur Baukur

Sæll Árni,

Skora á þig að sjá myndina Zeitgeist addendum, hægt að Googla henni, og sérstaklega þar sem rætt er um economic hitman.

Ég hef lengi verið Sjálfstæðismaður og hlegið að samsæriskenningum, en reynist þetta rétt þá hef ég engan áhuga á að gefa frá mér landið í formi vaxta og aukinna skulda við Bandarískan banka.

Kannski ætlar AGS aldrei að læra neitt heldur halda sér í gömlu fari og opna lönd fyrir stórfyrirtækjum sem kaupa auðlindir á útsölum.

Haukur Baukur, 29.10.2008 kl. 11:59

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Eitt land í SA Asíu neitaði að taka við "hjálp" frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Það var Malasía. Meðan löndin í kring hrundu, þá stóð Malasía vel af sér veðrið. Það þurfti að hafa tímabundnar skorður á gjaldeyrisviðskiptum, en það skaðaði síður en svo ímynd landsins eins og IMF sagði að myndi gerast. Efnahagskerfið stóð af sér ósköpin og nú streyma erlendar fjárfestingar inn í landið, ólíkt nágrannalöndunum Indónesíu og Filippseyjum sem menn halda sér frá. IMF byggir á úreltum hagfræðikenningum sem mun þýða það að miklu fleiri en ella munu lenda á götunni á Íslandi og miklu fleiri fyrirtæki leggja upp laupana.

Guðmundur Auðunsson, 31.10.2008 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband