8.1.2009 | 14:06
Sjálfstæðisflokkur á hröðum flótta
Sjálfstæðisflokkurinn heldur landsfund sinn í lok janúarmánaðar. Forysta flokksins ákvað að flýta landsfundinum til að ræða stefnuna í Evrópumálunum. Fundurinn verður haldinn undir hótunum formanns samstarfsflokksins í ríkisstjórn, Samfylkingarinnar, um að stjónarsamstarfinu sé sjálfhætt ef Sjálfstæðisflokkurinn breytir ekki um stefnu og tekur stefnuna með Samfylkingunni inn í Evrópusambandið.
Eitt er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta aðra flokka ráða því hvenær hann heldur landsfund og um hvað á að ræða. Það er í sjálfu sér aumkunarvert. Hitt er svo annað að það getur vel hafa hentað forystu Sjálfstæðisflokksins að flýta landsfundi og láta hann snúast um Evrópumálin í þeim tilgangi að breiða yfir hneykslið sem er efnahagshrunið og skuldabyrðarnar sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir.
Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar, sem í ríkum mæli hefur verið leiðarljós ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins allt frá 1991, hefur beðið skipbrot. En Sjálfstæðisflokkurinn og forysta hans forðast að ræða þá staðreynd. Ólíklegt er að landsfundurinn muni gera upp við þá stefnu sína, sem þó væri gustuk. (Úr þessum herbúðum eru menn amk. vanir að krefjast uppgjörs við hrun eða fall pólitískrar hugmyndafræði, einkum ef það á við aðra en þá sjálfa!).
Nei, Sjálfstæðisflokkurinn neitar að horfast í augu við ábyrgð sína á hruninu í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Hann neitar að axla ábyrgð, á stóru og smáu, og allir gæðingarnir sem og léttadrengirnir sitja sem fastast í sínum stólum. Á meðan er slóðin hulin, slóð mistaka og afglapa. Og þá er gott að geta ornað sér við umræðu um Evrópumál, sem öll mun snúast um að þóknast samstarfsflokknum svo þeir geti vermt valdastólana enn lengur, í óþökk þjóðarinnar. Sérsveit Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum þeysist um landið til að leita einhvers konar málamiðlunar og á meðan verður ekki rætt um neyðarástandið sem flokkurinn ber ábyrgð á. Það heitir að vera í miðjum skafli við að moka! Það snjóar og snjóar á ríkisstjórnarheimilinu þótt hvarvetna um landið sjái almenningur auða jörð - og sviðna - eftir hátt í tveggja áratuga stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, sem íslenskir jafnaðarmenn hafa verið svo hupplegir að framlengja. Einnig það í óþökk þjóðarinnar.
Væri ekki nær að flokkurinn sem kennir sig við sjálfstæði, og fékk í síðustu alþingiskosningum flest atkvæði, gerði upp við fallít hugmyndafræði og léti öðrum eftir landsstjórnina? Öðrum sem eru reiðubúnir að moka flórinn eftir nýfrjálshyggjuna og byggja upp samfélag á nýjum og breyttum grunni, grunni velferðar, réttlætis, jöfnuðar og lýðræðis. Það held ég nú.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru nokkuð skemmtilegar pælingar hjá þér Árni og umhyggja þín fyrir Sjálfstæðis-flokknum er aðdáunarverð. Hins vegar virðist ekki örla á hugsun hjá þér, hvort og hvernig VG ætlar að koma að landsmálunum. Ætlar VG að halda áfram að standa á hliðarlínunni og gera hróp að leikmönnum, eða gefa sig fram til þátttöku í leiknum ?
Ég get frætt Árna um, að hörð barátta stendur þessa dagana um fullveldi þjóðarinnar. Sú barátta stendur fyrst og fremst innan Sjálfstæðisflokks, en jafnvel VG gæti lagt sitt af mörkum. Væri ekki ráð að Árni og félagar hugleiddu svo sem andartak hvað þeir geta gert fyrir Ísland og hættu að gleðjast yfir úrslitum í skoðanakönnunum.
Ekki er hægt að fullyrða að þeir VG-menn séu tækir í ríkisstjórn, en er ástæða til að sópa þeim möguleika út af borðinu ? Sjálfstæðisflokkur á ýmsa möguleguleika til myndunar Fullveldisstjórnar og stjórn með VG er þar á blaði, þótt ekki virðist vænlegasti kosturinn:
Hvernig væri að þú tækir þér nú tak Árni og færir að hugsa um alvöru dagsins. Fall kommúnismans og sárindi þín þess vegna eru skiljanleg, en er ástæða til að bera þau á torg ? Reyndu að bera þig karlmannlega og fara að gæta þjóðarhags, eins og þú varst kosinn til. Gakktu til liðs við aðra þjóðholla Íslendinga og reyndu að leggja þitt af mörkum til varnar fullveldis landsins.
Loftur Altice Þorsteinsson, 8.1.2009 kl. 17:09
Sæll Loftur.
Ég vík mér ekki undan ábyrgð, má minna á að ég sat í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í 12 ár, m.a. sem forseti borgarstjórnar og formaður í ýmsum nefndum. Þessi pistill lýtur að Sjálfstæðisflokknum, ég hef sagt ýmislegt og skrifað um fullveldismál og almennt um þá stöðu sem nú er komin upp og við í VG höfum lagt fram aðgerðaráætlun og flutt fjölmörg þingmál í því samhengi. Þá voru það við Vinstri græn sem margoft vöruðum við því að það stefndi í óefni í efnahagsmálum án þess að á það væri hlustað.
Árni Þór Sigurðsson, 8.1.2009 kl. 20:34
Sæll Árni.
Þú ert vel að þér um fortíðina, ekki efa ég það. Hins vegar vil ég horfa til framtíðar og ég var að hvetja þig til að gera það einnig. Hvað við gerðum fyrir 10-20 árum hefur sáralítið með framtíðina að gera. Þótt þið í VG hafið varað við áföllum, fríar það ykkur ekki undan ábyrgð á framtíðinni. Þótt umhyggja fyrir Sjálfstæðisflokknum sé góðra gjalda verð, þá dugar það skammt. Nú gildir að láta verkin tala. Mynda þarf nýja ríkisstjórn án þátttöku Samfylkingar.
Loftur Altice Þorsteinsson, 8.1.2009 kl. 21:07
Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn reynst íslensku þjóðinni dýr. Ákvörðun um inngöngu í EB eða þarfnast ískalds mats á kostum og göllum. Ekki á að fara eftir því hvað þeir í Sjálfstæðisflokknum kunna að samþykkja undir lok landsfundar þeirra. Þeir kunna að samþykkja allt mögulegt sem leiðtogar þeirra leggja til, hvort sem það sé vitrænt eður ei. Því miður er eðli Sjálfstæðisflokksins að á þeim bæ er lagt allt traust á leiðtogana sem draga síðan alla og þar með allt samfélagið oft til kolvitlausra ákvarðana. Við sjáum t.d. afleiðingarnar af ákvörðuninni um byggingu Kárahnjúkuavirkjunar. Sú framkvæmd var of stór fyrir þetta örsmáa hagkerfi. VG varðai við þessari framkvæmd á sínum tíma m.a. á þessum forsendum. Alþjóða gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur staðfest þetta og er umhugsunarvert að við í VG vorum skynsamari en Sjálfstæðisflokkurinn hvað þetta viðkemur. Vandinn varð vegna gervi-góðærisins sem átti sér engar traustar forsendur nema síður sé, og við erum að súpa seyðið af því.
Gangi þér vel í þínum góða praxís Árni!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 10.1.2009 kl. 11:11
Það er mjög fjarri lagi, að Kárahnjúkavirkjun hafi verið orsök efnahagshrunsins. Hún olli ekki þennslunni fyrir fall, en hún hjálpar okkur núna að rétta við. Hjá Guðjóni kemur fram fortíðarhyggja, eða misskilningur sem ekki kemur okkur að gagni.
Á undanförnum vikum hef ég bent á hina raunverulegu orsök falls Krónunnar og bankanna. Hún stafaði af rangri peningastefnu, sem ég hef ekki heyrt VG viðurkenna. Í stað Seðlabankans þurfum við að taka upp Myntráð. Í stað "Torgreindrar peningastefnu" (discretionary monetary policy), sem Seðlabankinn nefnir "Sjálfstæða peningastefnu, þurfum við að taka upp "Reglubundna peningastefnu" (rule-bound monetary policy).
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/750298/
Oft var þörf, en nú er nauðsyn.
Ég bíð eftir alvöru viðbrögðum frá VG.
Loftur Altice Þorsteinsson, 10.1.2009 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.