24.4.2006 | 08:24
Morgunblaðið tekur upp stefnu Vinstri grænna
Það er ánægjulegt að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag um leikskólagjöld. Þar tekur blaðið fyllilega undir þann málflutning sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haldið fram í nokkur ár. Það er ósæmandi að hæstu skólagjöld í landinu skuli vera í leikskólum!
Við Vinstri græn töluðum fyrir gjaldfrjálsum leikskóla í aðdraganda alþingiskosninganna 2003. Það var af mörgum talið óábyrgt tal. Nú vildu allir Lilju kveðið hafa! Á vettvangi borgarstjórnar hafði VG frumkvæði að því að tala fyrir gjaldfrjálsum leikskóla. Aðrir flokkar hafa nú tekið það upp nema Sjálfstæðisflokkurinn sem talar fyrir áframhaldandi skólagjöldum á fyrsta skólastiginu. Það er ekki sannfærandi.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (nánar tiltekið EX VAFF) vill útrýma skólagjöldum í leik- og grunnskólum. Það teljum við að sé raunhæft að gera á næsta kjörtímabili. Fyrir 12 árum, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað borginni einn í fjöldamörg ár, var ekki einu sinni sjálfsagt að börn fengju pláss á leikskólum. Aðeins forgangshópar áttu kost á leikskóladvöl og flestir voru þá aðeins í 4 tíma dvöl. Þegar Reykjavíkurlistinn tók við stjórn borgarinnar 1994 tók ég við formennsku í Dagvist barna sem þá hét og fór með leikskólamálin. Þá var hafist handa við uppbyggingu leikskólanna í borginni sem stórátaki sem með sönnu hefur verið líkt við grettistak. Það var stefna róttækra vinstri manna sem þar réði för.
Enn er brýn þörf á róttækum vinstri sjónarmiðum í þessum málum eins og víðar. Við í Vinstri grænum munum leggja mikla áherslu á gjaldfrjálsan leik- og grunnskóla, það skiptir miklu ef börnin í borginni eiga öll að sitja við sama borð. Það varðar fjölskyldurnar í borginni miklu. Liðsauki Morgunblaðsins í þessari baráttu er vel þeginn.
Athugasemdir
Sælir og takk fyrir athugasemdirnar.
Málið er að við í VG lögðum á það áherslu fyrir síðustu þingkosningar að taka upp gjaldfrjálsan leikskóla. Þá voru aðrir flokkar ekki reiðubúnir að ganga svo langt. Innan meirihlutans í borgarstjórn varð niðurstaðan að koma á 7 tíma gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum og því yrði lokið á næsta kjörtímabili. Við hefðum viljað ganga hraðar til verks en um það varð ekki samstaða. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að kynna okkar stefnumál skýrt í þessu máli. Mergurinn málsins er þó sá að ef Sjálfstæðisflokkurinn mun ráða för á næsta kjörtímabili ÞÁ MUN HANN HÆTTA VIÐ GJALDFRJÁLSA LEIKSKÓLANN!! Það er áhyggjuefnið.
[Þetta með EX VAFF var grín :)]
Árni Þór Sigurðsson, 24.4.2006 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.