13.1.2009 | 09:13
Var fjölmiðlum líka hótað?
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, sem var einn frummælenda á almennum borgarafundi í Háskólabíói í gærkvöldi, greindi svo frá í upphafi máls síns: einn ráðherra ríkisstjórnarinnar hafði samband við hana fyrir fundinn og ráðlagði henni að tala varlega á fundinum, sjálfrar sín og starfsframa síns vegna!
Sem sagt: ráðherrann hafði í hótunum við Sigurbjörgu, ef hún talaði ekki varlega gæti hún haft verra af. Þótt Sigurbjörg hefði ekki nafngreint ráðherrann kom glöggt fram í erindi hennar að um var að ræða heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson. Ráðherrann misbeitti augljóslega valdi sínu og umboði og þess á að krefjast að hann geri grein fyrir afskiptum sínum og stjórnarathöfnum í þessu máli.
Nú bregður svo við að fjölmiðlar, sem þó hafa sagt af fundinum, greina ekki frá þessum tíðindum. Eina undantekningin frá því er að vefritið smugan.is er með frétt um málið. Eyjan vísar síðan í þá frétt. Aðrir miðlar virðast mér hafa þagað þunnu hljóði. Hvernig stendur á því? Er ekki komið nóg af meðvirkni þeirra með spillingar- og eyðileggingaröflunum í þjóðfélaginu? Var þeim kannski líka hótað rétt eins og Sigurbjörgu?
Er nema von að spurt sé!
Viðbót kl. 12.40.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um málið og greint frá ofangreindum orðum dr. Sigurbjargar. Jafnframt var skýrt frá því að hún hefði ekki viljað tjá sig frekar um málið en með þeim hætti sem hún gerði á fundinum. Þá var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að hann kannaðist ekki við að vera umræddur ráðherra, hann hefði ekki talað við "þessa manneskju" eins og hann komst að orði, um langt skeið. Sé það rétt, er enn spurningin, hver er ráðherrann ungi sem varaði dr. Sigurbjörgu við og sagði hana að tala varlega? Enn er spurt.
Eftir kvöldfréttir
Og nú kom yfirlýsing frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hún væri ráðherrann sem hefði sent Sigurbjörgu skilaboðin um að tala varlega. Fátt kemur manni nú orðið á óvart!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:24 | Facebook
Athugasemdir
Þú gleymir alveg að taka fram að Smugan er fréttavefur í eigu VG, líklega eini „fréttamiðillinn" á Íslandi sem er i eigu stjórnmálaflokks.
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 09:22
Og hinir fjölmiðlarnir þá í eigu Sjálfstæðisflokksins (eða auðmanna á hans vegum) og þess vegna fjalla þeir ekkert um þetta hneyksli?
Árni Þór Sigurðsson, 13.1.2009 kl. 09:24
Ég skrifaði um þennan fund hér: Sjálfstæðismenn óttast að verða bornir út af "Lokuðum-borgarafundi"
Vonandi finnst þér óhætt að birta athugasemd mína.
Ástþór Magnússon Wium, 13.1.2009 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.