Ríkisstjórn á flótta

Það vekur athygli að í morgun safnaðist hópur fólks fyrir framan Alþingishúsið til að mótmæla ríkisstjórninni þegar hún kom saman til reglubundins ríkisstjórnarfundar.  Hvers vegna ekki í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu eða í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg?

Á Íslandi gildir þrískipting ríkisvaldsins.  Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.  Ráðherrar í ríkisstjórninni eiga að vísu yfirleitt sæti á Alþingi (með örfáum undantekningum) og þeir víka ekki sæti þar þótt þeir setjist í ríkisstjórn (eins og t.d. í Noregi).  En ráðherrar hafa til þessa fyrst og fremst komið í Alþingishúsið til að mæla fyrir þingmálum og taka þátt í almennum þingstörfum og þingflokksstörfum.  En nú ber nýrra við.

Alþingishúsið er allt í einu orðin fundarstaður ríkisstjórnarinnar fyrir hefðbundna fundi hennar (m.a.s. meðan þing starfar ekki).  Eins konar griðastaður ríkisstjórnar sem er orðin leið á að mæta ávallt mótmælum þegar hún kemur saman.  Þess vegna tók hún upp á því að funda í skjólinu í Alþingishúsinu, í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis, og átti von á að fá þá meiri frið, hún kæmist alltént klakklaust á fundarstað. 

En ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það skiptir engu máli hvar hún fundar.  Hún er jafnóvinsæl og jafn trausti rúin.  Hún verður væntanlega leituð uppi hvar sem hún fundar, jafnvel þótt hún fari á fjöll, því það er rík þörf hjá þjóðinni til að koma á framfæri mótmælum við störfum hennar og kröfunni um að hún fari frá og boðað verði til kosninga.  Ríkisstjórn sem er komin á þvílíkan flótta frá þjóð sinni, gerði best í því að flýja líka ráðherrastólana og skila umboði sínu til þjóðarinnar.  Það verður hennar að veita nýju Alþingi og nýrri ríkisstjórn umboð til að byggja hið "Nýja Ísland".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband