15.1.2009 | 09:22
Hroki og hleypidómar
Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar gerir hann tilraun til að verja ríkisstjórnina og sannfæra sjálfan sig og aðra um að það sé allt í besta lagi að hún sitji sem fastast.
Það er skondið að jafnvel þótt þingmaðurinn viðurkenni að kerfið hafi hrunið og að stjórnvöld hafi brugðist, finnst honum engin ástæða til að ríkisstjórnin axli ábyrgð á ástandinu. Um leið og hann segir að krafan um kosningar sé ekki ósanngjörn, má hann ekki til þess hugsa að kosið verði nú fljótlega (nema náttúrulega ef Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum!). Hann segir það hlutverk stjórnvalda (þeirra sömu og brugðust hlutverki sínu og skyldum) að sannfæra almenning um að hann hafi rangt fyrir sér þegar hann krefst kosninga! Það hvarflar ekki að þingmönnum stjórnarflokkanna að ÞEIR hafi rangt fyrir sér og þjóðin rétt. Að það sé einmitt mikilvægt að stjórnvöld stigi til hliðar og boði til kosninga svo þjóðin geti sjálf ákveðið hverjum hún treystir til að leiða endurmótun samfélagsins. Nei, þeir vilja bara fá frið fyrir kvabbinu í þjóðinni.
Þvílíkur hroki og hleypidómar í garð þjóðarinnar. Og svo vogar þingmaðurinn sér að segja að enginn þingmeirihluti en sá sem núverandi ríkisstjórn styðst við sé líklegri til að koma í gegn mikilvægum og nauðsynlegum breytingum! Sami meirihluti og kollkeyrði íslenskt samfélag og kann ekki einu sinni að skammast sín. Sami Sjálfstæðisflokkur og hefur rekið harða nýfrjálshyggjustefnu undanfarin 18 ár og sem ber höfuðábyrgð á því hvernig komið er, á að stýra uppbyggingarstarfinu í boði Samfylkingarinnar. Áfram á sérgæskan og gróðahyggjan að ráða för, einkavæðing í velferðarþjónustu, spillingin í stjórnkerfinu, þmt. í bankageiranum (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit o.fl.).
Samfylkingin átti sér etv. viðreisnar von fram undir lok síðasta árs, enda var hún ekki jafn þvæld í stjórnleysi undanfarinna ára eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Nú er hins vegar hætt við að það fari að halla undan fæti í þeim herbúðum eftir því sem flokkurinn sekkur dýpra í ábyrgðarfenið og límir sig fastar að Sjálfstæðisflokknum. Skyldi manninum líða vel?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.