21.1.2009 | 00:38
Hitnar í kolum
Mótmælin gegn ríkisstjórninni sem fram fóru á Austurvelli í dag og kvöld eru söguleg. Það eru áratugir síðan stjórnvöldum hér á landi hefur verið mótmælt af ámóta þunga og aldrei jafn ítrekað og gerst hefur nú undanfarnar vikur og mánuði. Og tilefnið er ærið. Hér situr vanhæf ríkisstjórn sem hefur komið íslensku þjóðarbúi í þrot.
Andstaðan við ríkisstjórnina fer stigvaxandi og það er þverskurður af samfélaginu sem mætir á Austurvöll reglulega og lætur í sér heyra. En ráðamenn skella því miður skollaeyrum við og virðast lifa í fullkominni afneitun. Telja sjálfum sér trú um að mótmælendur séu fámennur hópur stjórnleysingja, sem vinstrimenn skipuleggi. Þegar svo er komið fyrir forystu ríkisstjórnarinnar er hún algerlega sambandslaus við þjóð sína - hún er hrædd.
Stemningin fyrir framan Alþingishúsið nú í kvöld var einstök. Fólk á öllum aldri, foreldrar með börn, ömmur og afar, allt pólitíska litrófið (eða svo gott sem). Krafan var skýr: ríkisstjórnin er vanhæf, hún verður að fara frá og boða til kosninga. Mælirinn er fullur, ríkisstjórnin misbýður þjóðinni gersamlega. Einn þingmaður úr stjórnarliðinu sagði við mig á þingi í dag að viðkomandi væri fullkomnlega misboðið yfir framgöngu okkar Vinstri grænna á Alþingi þegar við vöktum máls á ráðleysi ríkisstjórnarinnar og kröfðumst umræðu um raunverulegar aðgerðir. Vissulega var málflutningur okkar hvass og hávaðasamur á köflum, en væri ekki nær fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að hlusta á þjóðina? Eða tala þeir ekki lengur sama tungumál og þjóðin? Skilja þeir ekki hvernig fólki er innanbrjósts og að fjöldi fólks er á barmi örvæntingar vegna ástandsins?
Dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir. Spurningin er hvenær það rennur upp fyrir forsætisráðherra og hann mannar sig í að segja af sér. Sú stund nálgast dag frá degi, því fyrr því betra. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem fer í að endurmóta og byggja upp íslenskt samfélag á grundvelli félagshyggju og jöfnuðar og með það að leiðarljósi að forðast óbærilega skuldbindingar núverandi og komandi kynslóða. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki erindi í þann leiðangur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:42 | Facebook
Athugasemdir
Manni er bara svo fullkomlega misboðið. Mér finnst eins og stjórnin hafi verið að hafa mann að fífli.
Anna Svavarsdóttir, 21.1.2009 kl. 00:46
Þú skalt ekki hlakka of mikið yfir þessu. Þú ert einn af þessum 63 sem skulu taka pokann sinn.
Hlynur Jón Michelsen, 21.1.2009 kl. 02:09
Þið voruð frábær á þingi í gær. Á tímum sem þessum er ekki hægt annað en að vera verulega hvass og undirspilið utanhúss undirstrikaði einungis það sem þið voruð að reyna að segja blessaðri ríkisstjórninni.
Bjarkey Gunnarsdóttir, 21.1.2009 kl. 08:28
Kýs ykkur Vinstri Græna í næstu kosningum, ekki spurning. Sé eftir því að hafa kosið Samfylkinguna. Mín skoðun.
Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:08
sæll Árni Þór!
þú gleymir einu þegar þú segir að krafan hafi verið að fá ríkisstjórnina frá. Krafan var að fá allt þingið frá ykkur líka allir þingmenn bera ábyrgð á því aðgerðaleysi sem er að setja okkur á hausinn. Stjórnarandstaðan ber líka ábyrgð en hefur brugðist gjörsamlega eftirlitskyldu sinni
Gylfi Björgvinsson, 21.1.2009 kl. 09:25
Sæll Hlynur Jón.
Það hverjir verða kosnir á Alþingi er ákvörðun þjóðarinnar í þingkosningum. Við í VG höfum staðið vaktina og höfðum reyndar varað við efnahagsástandinu strax fyrir 2-3 árum síðan. Þeirri aðvörun var illa tekið af ríkisstjórnarflokkunum. Við höfðum frumkvæði að því að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina. Meirihluti Alþingis felldi þá tillögu. Við kvíðum ekki dómi kjósenda, en fyrsta krafan er að það verði boðað til kosninga svo þjóðin geti sjálf tekið ákvörðun um það hverjum hún treystir fyrir landsstjórninni.
Árni Þór Sigurðsson, 21.1.2009 kl. 09:58
Sæll Gylfi.
Ég er ekki á sama máli og þú að stjórnarandstaðan hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni. Þó má alltaf gera betur og við tökum það til okkar sannarlega. Vísa til þess sem ég segi hér að ofan í svari til Hlyns um aðvaranir VG, málflutning á þingi og vantrauststillögu. Við finnum nú mikinn stuðning í þjóðfélaginu við málflutning okkar.
Árni Þór Sigurðsson, 21.1.2009 kl. 10:04
Það þarf nýjar kosningar. En ég vill að við kjósendur fáum skýrt val, Ég vill ekki kjósa einn flokk en vera síðan kalla yfir mig annan í stjórnarsamstarfi.
Ég vill félagshyggjustjórn Samfylkingar, VG og framsóknar ef ekki næst nægur meirihluti.
Ég vill ekki sjá gjaldþrota íhaldsmenn hvort sem þeir kalla sig sjálfstæðismenn eða frjálslynda.
Geti þið myndað þetta kosningabandalag?
Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 10:38
Svo er að sjá sem stórkarlalegar hræringar á fjármálamarkaði séu farnar að hafa áhrif á mótmæli gegn ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á Íslandi. Leikarinn geðþekki fer fyrir mótmælafundum á Austurvelli á daginn, og eftir sólsetur eru haldin afleiðu-mótmæli þar sem vináttuvottur Norðmanna er borinn á eld, bara til að gera eitthvað. Hver skyldi verða fyrstur til að bjóða upp á "structured political demonstrations", eða mótmælavöndla? Þeir eru kannski til reiðu í röðum ónefndra stjórnmálasamtaka
Það fer ekki framhjá neinum að meðal okkar er margt fólk sem hefur misst atvinnuna og sér fram á sí-auknar þrengingar vegna minnkandi fjárráða. Þessu fólki er lítill greiði gerður með því að valda spjöllum á mannvirkjum í miðborginni. Alla eyðileggingu þarf að bæta með aðgerðum sem greiddar eru af almannafé, þar með talið af fjármunum ofangreindra aðila.
Nánar: http://flosi.blog.is/blog/flosi/entry/777899/
Flosi Kristjánsson, 21.1.2009 kl. 14:23
Stjórn Samfylkingarinnar hlýtur að sjá leið út úr ruglinu með því að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn núna.
Þið stóðuð ykkur vel í þinginu í gær Árni og frábært að Katrín og Álfheiður hafi farið út og staðið með fólkinu.
Bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 21.1.2009 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.