2.2.2009 | 09:41
Sunnudagur til sigurs!
Í gær, sunnudag, á 105 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar, tók við völdum ný ríkisstjórn á Íslandi. Stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Það eru mörg tímamót sem tengjast myndun þessarar ríkisstjórnar og hún er söguleg fyrir margra hluta sakir.
Í fyrsta skipti er kona skipuð forsætisráðherra hér á landi. Ríkisstjórnin er skipuð jafn mörgum konum og körlum en það hefur ekki áður gerst hér. Vinstrihreyfingin - grænt framboð sest nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti en flokkurinn fagnar 10 ára afmæli sínu um næstu helgi.
Með myndun þessarar ríkisstjórnar fer Sjálfstæðisflokkurinn frá völdum, sest í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í 18 ár. Nærfellt tveggja áratuga stjórnarsetu hans og nýfrjálshyggjunnar er lokið. Það mátti sannarlega ekki dragast eitt augnablik, eftir að sú stefna hafði kollsiglt íslenskt efnahagslíf. Það segir sína sögu að aðeins 1 af 25 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur setið í stjórnarandstöðu, en það er Geir Haarde. Nú er einfaldlega kominn tími til að önnur gildi og grundvallarsjónarmið ráði för við stjórn þjóðmálanna. Hvort sem litið er til efnahags- og atvinnulífsins, lýðræðis og stjórnskipunar, velferðar- eða menntamála eða hvaða annarra þátta þjóðlífsins.
Stjórnarflokkarnir ásamt Framsóknarflokknum leggja til að kosið verði til Alþingis 25. apríl nk. Stjórnin hefur því ekki langan tíma til að sýna hvers hún er megnug. Vissulega eru miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar og það er vel, en um leið verðum við að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir að á um 80 dögum verða ekki nein kraftaverk unnin. Þjóðin biður heldur ekki um það. En það sem þjóðin þarf á að halda er trúnaður og traust milli hennar og stjórnvalda. Það verður því ekki lítill hluti af starfi ríkisstjórnarinnar að endurvekja það traust sem fyrri stjórn var með öllu rúin. Þá skiptir mestu máli að verkin tali.
Brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs í landinu munu fljótlega líta dagsins ljós. Endurskipulagning stjórnkerfis, ekki síst banka- og eftirlitsmála, ný stjórn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, endurskoðun stjórnarskrár og ný löggjöf um stjórnlagaþing skipta hér veigamiklu máli. Ekki síður áform stjórnarinnar um samtal við þjóðina, reglubundna upplýsingagjöf og heiðarleg og hreinskiptin samskipti. Þjóðin verður að vita undanbragðalaust hver staða þjóðarbúsins er.
Nýrri ríkisstjórn fylgja bestu heillaóskir - hún boðar vonandi upphaf nýrra tíma í íslensku samfélagi og vekur von um að okkur takist í sameiningu að vinna okkur út úr þeirri erfiði stöðu sem við höfum ratað í.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju öll, glæsilegt!
Hlynur Hallsson, 2.2.2009 kl. 09:51
Til hamingju með brotthvarf fálkans
Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 13:26
Skyldu Baugsfeðgar reyna að hafa áhrif á úrslit næstu kosningar til Alþingis?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.2.2009 kl. 17:21
Nú þurfa "systurflokkarnir" að leggja áherslu á lýðræðislegar umbætur, ávallt viljugir á samstarfs með virðingu fyrir fjölbreytileika í viðhorfum. Til lukku, mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.2.2009 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.