Glæsilegt forval hjá Vinstri grænum

Þá er forvalinu hjá okkur Vinstri grænum á höfuðborgarsvæðinu lokið. Þátttakan var afar góð og fjölmargir nýir félagar gengu til liðs við flokkinn.  Úrslitin voru mjög í takt við það sem flestir gerðu ráð fyrir.  Ögmundur Jónasson fær "formannskosningu" í efsta sæti á einhverjum listanna þriggja og varaformaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, kemur afar sterk inn í forystusveitina og mun leiða einn listanna.  Kolbrún Halldórsdóttir þingkona fær einnig prýðilega kosningu í eitt efstu sætanna.  Það verða því þau þrjú, Ögmundur, Katrín og Kolbrún sem munu skipa efstu sætin í Reykjavík suður, norður og Suðvesturkjöræmi.

Glæsileg kosning Guðfríðar Lilju í eitt af sætum nr. 2 vekur vitaskuld athygli.  Hún kemur fersk til starfa í flokknum en hefur getið sér góðs orðs af störfum sínum á öðrum vettvangi og breikkar forystusveit flokksins heilmikið.  Álfheiður Ingadóttir hefur verið ötull varaþingmaður og starfað sömuleiðis heilmikið að borgarmálum og fær góða kosningu.  Ég næ einnig því sæti sem ég stefndi að í forvalinu og taldi raunhæft og er afar þakklátur öllum þeim sem lögðu mér lið.

Í sætum þrjú eru Gestur Svavarsson, Auður Lilja Erlingsdóttir og Paul Nikolov.  Allt ungt fólk sem hefur starfað innan flokksins um skemmri eða lengri tíma og hefur góða skírskotun.  Gestur er einn af forystumönnum okkar í Hafnarfirði, Auður Lilja er formaður ungra vinstri grænna og Paul kom til starfa í flokknum í haust en hann er meðal helstu talsmanna innflytjenda.

Sæti fjögur skipa þau Mireya Samper, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Magnússon.  Mireya er formaður VG félagsins í Kópavogi en Steinunn Þóra og Guðmundur hafa bæði starfað á vettvangi flokksing og einnig innan Öryrkjabandalagsins.

Þessi tólf manna sveit mun skipa fjögur efstu sætin í kjördæmunum þremur í kosningunum í vor.  Þetta er afar öflugur hópur fólks með mismunandi reynslu, þekkingu og skírskotun og ég er sannfærður um að félagarnir í Vinstri grænum hafa kosið sterka sigursveit.  Saman munum við vinna sigur í vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband