5.12.2006 | 00:27
Meirihlutaskipti í Árborg
Nýr meirihluti Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks er tekinn við í sveitarfélaginu Árborg. Eins og kunnugt er hafði slitnað upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vegna ágreinings um skipulagsmál.
Stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í Árborg varð heldur endaslepp. Oddviti flokksins fer fram með fádæma offorsi gegn nýja meirihlutanum og líkir honum við Frankenstein! Satt að segja hélt ég að þeir sjálfstæðismenn í Árborg hefðu ekki efni á palladómum um aðra og er óþarfi að rifja upp atburðina í þeirra herbúðum í aðdraganda kosninganna í vor. En það er eins og sagt er að þeir leita víða fanga í suðurkjördæminu, sjálfstæðismenn.
Nýi meirihlutinn leggur áherslu á skipulags- og umhverfismál, velferðar- og jafnréttismál og mennta- og menningarmál. Allt málefni sem falla vel að áherslum Vinstri grænna. Við erum að sjálfsögðu stolt af því að okkar fólk axlar ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins og ánægð með hinn nýja meirihluta. Oddviti Samfylkingarinnar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, verður bæjarstjóri. Ég hef átt þess kost að starfa með henni á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og veit að hún er vel þeim vanda vaxin að vera bæjarstjóri. Oddviti VG, Jón Hjartarson, verður forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs á móti Þorvaldi Guðmundssyni, oddvita Framsóknarflokks. Allt er þetta traust fólk sem mun án nokkurs vafa standa sig vel í ábyrgðarmiklum störfum í forystu fyrir sveitarfélag í vexti og örri þróun. Ég óska þeim til hamingju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.