29.4.2006 | 17:03
Góður fundur um Reykjanesfólkvang og önnur umhverfismál
Í dag var laugardagsfundur í kosningamiðstöð Vinstri grænna í Suðurgötu undir yfirskriftinni "Náttúruborgin Reykjavík". Sérstakur gestur fundarins var Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor við KHÍ og stjórnarformaður Reykjanesfólkvangs. Auk þess fjallaði ég um stöðu umhverfismála í Reykjavík.
Fundurinn var ágætlega sóttur. Fyrst rakti ég að hverju unnið hefur verið á sviði umhverfismála á kjörtímabilinu og hvaða áætlanir væru uppi varðandi næstu ár hjá Reykjavík. Þegar ég var að taka saman efni fyrir fundinn kom mér það í raun í opna skjöldu hversu mikið hefur áunnist í umhverfismálum í borginni á undanförnum árum, en VG hefur haft forystu í þeim málaflokki í borgarstjórn á því kjörtímabili sem er á enda. Ennfremur gerði ég grein fyrir endurskoðun staðardagskrár 21, sem ber heitið "Reykjavík í mótun". Þar er að finna greinargerð um fjölmörg stefnumið í átt til sjálfbærrar þróunar og lista yfir aðgerðir. Vakti það nokkra athygli, að uppistaðan í þeim atriðum sem unnið hefur verið að á umhverfissviði í víðtæku samráði við íbúa og fjölmarga hagsmunaaðila, er samhljóða stefnumálum okkar Vinstri grænna.
Hrefna Sigurjónsdóttir fjallaði um Reykjanesfólkvang, þessa náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem því miður allt of fáir þekkja. Rakti hún á greinargóðan hátt umfang fólkvangsins, verkefni stjórnarinnar, sérkenni svæðisins m.a. í jarðfræðilegu og náttúrfarslegu tilliti. Kom fram hjá henni að tilgangurinn með stofnun og friðlýsingu Reykjanesfólkvangs fyrir um 30 árum var að taka frá land þar sem höfuðborgarbúar gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Svæðið býður upp á fjölmarga möguleika en að því steðja líka ógnir. Orkuöflunar- og virkjunarfyrirtæki vilja gjarnan hasla sér völl innan fólkvangsins, m.a. með borunum í Brennisteinsfjöllum, en við því verður að sporna. Hefur umhverfisráð Reykjavíkur raunar ályktað til stuðnings stjórn fólkvangsins. Um langt skeið hefur stjórn fólkvangsins fremur haldið að sér höndum og ekki haft mikið frumkvæði en það hefur breyst á þessu kjörtímabili, undir stjórn Hrefnu Sigurjónsdóttur sem á heiður skilið fyrir vel unnin störf.
Er full ástæða til að efna til kynnisferðar um fólkvanginn og hefur VG í Reykjavík í hyggju að gera það nú í maímánuði. Verður það vonandi til að auka þekkingu og skilning á mikilvægi Reykjanesfólkvangs. Verkefnið á næsta kjörtímabili er að efla fólkvanginn enn frekar, marka honum skýra stefnu og ráða landvörð til að annast um starfsemina þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.