28.12.2006 | 14:00
Borgin vill ekki spilakassa í Mjóddina
Á fundi borgarráðs nú rétt fyrir jól tókst góð samstaða um að hvetja Háskóla Íslands til að hætta við áform um að koma upp spilakössum í Mjóddinni. Í samhljóða samþykkt borgarráðs segir:
Borgarráð tekur undir áhyggjur íbúa í Breiðholti og hverfisráðs Breiðholts sem hafa mótmælt rekstri svokallaðs spilasalar á vegum Háskóla Íslands í Mjódd. Ráðið telur slíka starfsemi ekki heppilega á þessum stað, hvorki fyrir verslunarmiðstöðina né hverfið í heild. Borgarráð samþykkir að skora á Háskóla Íslands að hverfa frá áformum um starfrækslu spilasalar í verslunarmiðstöðinni í Mjódd.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur um langt skeið látið sig sérstaklega varða málefni þeirra sem verða spilafíkn að bráð. Hann vakti athygli á þessari samþykkt borgarinnar á heimasíðu sinni. Þar kemur líka fram í spurningu frá mér, að borgin hafi reynt að koma í veg fyrir starfrækslu spilakassa (á Skólavörðustíg) en verið gerð afturreka með þá ákvörðun af dómstólum. Nú er mikilvægt að tryggja nægilegan lagagrundvöll til að sveitarfélög geti, t.d. með skipulagsákvörðunum, komið í veg fyrir starfrækslu spilakassa þar sem það er talið óheppilegt.
Flest bendi til að við getum átt bandamann í Morgunblaðinu í þessari baráttu, ef marka má leiðara blaðsins í gær, 27. des.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.