Saddam gerður að píslarvotti - var það nú gáfulegt?

Þá hefur Saddam Hussein verið tekinn af lífi.  Hann var fundinn sekur um fjöldamorð og var dæmdur til dauða.  Nú er áreiðanlegt að Saddam stór fyrir einni mestu ógnarstjórn síðari tíma og verðskuldaði að sjálfsögðu harðan dóm fyrir afbrot sín gegn írösku þjóðinni.  Það á raunar við um sorglega marga þjóðarleiðtoga vítt og breitt um heiminn.

Hitt er svo sjálfstæð spurning hvort dauðarefsingar séu réttlætanlegar yfirleitt.  Í Evrópu hafa dauðarefsingar verið aflagðar fyrir löngu og svo er einnig um mörg ríki annars staðar í heiminum.  Bandaríkin standa þó enn á lista yfir þjóðir sem beita dauðarefsingum, þess vegna koma viðbrögð forseta Bandaríkjanna við aftökunni á Saddam ekki á óvart.  Ríki sem notast við dauðadóma réttlætir um leið á vissan máta þann gjörning að deyða.  Í því felst auðvitað þversögn en svona er það nú samt.

Með aftöku Saddams hefur hann nú verið gerður að píslarvotti.  Víst er að ofbeldið í Írak mun nú enn aukast og hætt er við hermdarverkum bæði þar og víðar.  Það má velta því fyrir sér hvort það hafi verið mjög gáfulegt að gera Saddam að píslarvotti eins og nú hefur verið gert.  Allir þeir sem eru andstæðingar dauðarefsinga hljóta að fordæma aftökuna.  Hún er engin lausn í þeirri erfiðu og viðkvæmu stöðu sem uppi er í Írak og hin ólöglega innrás Bandaríkjanna og stuðningsríkja þeirra hefur kallað yfir landið.  Þvert á móti er líklegt að hún virki eins og olía á eld haturs og ofbeldis.  Ábyrgðin liggur ekki síst hjá innrásarþjóðunum og þeirri heimsku að halda að uppræta megi ofbeldi með ofbeldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Komdu sæll, Árni

Ljóst má vera að menn eru almennt sammála um að Saddam Hussein hafi verið voða, voða vondur maður. Samt er hann mannvera, af tegundinni Homo sapiens.

Hver gefur okkur rétt að taka mannveru af lífi, jafnvel þó að sú sama mannvera sé algjör drullusokkur??

Flosi Kristjánsson, 30.12.2006 kl. 14:32

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Spurningunni, hvort uppræta megi ofbeldi með ofbeldi, þ.e. hvort það sé siðferðislega rétt, svara pacifistar yfirleitt neitandi. Hefðbundnir sósíalistar, einkum kommúnistar, hafa hins vegar svarað henni játandi. Það er fróðlegt, ef Árni Þór er kominn í hóp pacifistanna. (Ég læt ógert að þýða orðið sem "friðarsinnar," því að hér er um annað og meira að ræða. Margir, sem í einlægni telja sig friðarsinna, eru alls ekki pacifistar.) -- Þeir, sem eindregið svara þessari spurningu neitandi, hefðu sennilega verið andvígir því, að Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Hitlers-Þýzkalandi haustið 1939 vegna yfirgangs þess ríkis og innrásarinnar í Pólland. Menn athugi það.

Þessari spurningu er önnur sviplík, en ólík að innihaldi og hefur þó oft verið borin fram um leið og hin, þ.e. hvort yfirleit sé unnt að uppræta ofbeldi með ofbeldi. Það er að verða ein af klisjum samtímaumræðunnar að segja slíkt ekki unnt, gott ef þetta nær ekki upp í predikunarstólana um þessar mundir. Vitaskuld er ég ekki málsvari ofbeldis sem slíks, en valdbeiting getur verið nauðsynleg og leyfileg, bæði gagnvart einstaklingi og ríkisher sem ryðst yfir landamæri annars ríkis.

Jón Valur Jensson, 8.1.2007 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband