1.1.2007 | 23:06
Nú þarf að taka á fjármálum fjölmiðla
Gleðilegt ár ágætu lesendur og takk fyrir samfylgdina á liðnu ári.
Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir jólahlé var að samþykkja lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Skoðanir um þá löggjöf eru vissulega skiptar eins og eðlilegt er. Ég er í hópi þeirra sem hef talið löngu tímabært að sett væri löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka og tryggt yrði að þeir væru í störfum sínum ekki háðir einstaka fyrirtækjum eða öðrum velunnurum. Vitanlega má deila um það hvort ný löggjöf sé nákvæmlega hin eina rétta eða hvort hægt hefði verið að taka á fjármálum og starfsemi stjórnmálaflokka með öðrum hætti. Sjálfsagt er að endurskoða löggjöfina sem samþykkt var á Alþingi í desember eftir 1-2 ár í ljósi reynslunnar.
Hitt er umhugsunarvert hvort nóg sé að gert með löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka. Nú um áramótin var t.d. upplýst að umræðuþáttur Stöðvar 2 um áramót, þar sem m.a. leiðtogar stjórnmálaflokka eru fengnir til að fjalla um stöðu þjóðmála við áramót, hafi verið kostaður af Alcan á Íslandi. Fyrirtæki sem stendur í pólitískum átökum við almenning og lýðræðislega kjörna aðila um stækkun og frekari stóriðju í Straumsvík. Forsvarsmenn Stöðvar 2 segja þetta mjög eðlilegt og að umræddur þáttur, Kryddsíldin, hafi áður verið kostuð af fyrirtækjum.
Það er vitaskuld reginhneyksli að Stöð 2 skuli bjóða forystumönnum í stjórnmálum til þátttöku í slíkum umræðuþætti án þess að upplýsa þá um að þátturinn væri í boði tiltekins fyrirtækis. Stjórnendur Stöðvar 2 sigla hér undir fölsku flaggi og ættu að skammast sín fyrir ósvífnina. Þeir setja verulega niður við framkomu sína. Ekki síst þegar þeir velja að láta fyrirtæki sem á í pólitískum slag kosta þáttinn og segjast svo óháðir fyrirtækinu. Það er auðvitað eins og hver önnur firra. Nú hefur Alcan keypt Stöð 2 í aðdraganda kosninganna í Hafnarfirði um stækkun álversins og sanniði til - Stöð 2 mun að sjálfsögðu draga taum fyrirtækisins gegn hagsmunum almennings þegar kemur að umfjöllun um álverið í Straumsvík og stækkun þess. Nema hvað?
Þetta dæmi sýnir svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að taka á fjármálum fjölmiðla ekki síður en stjórnmálaflokka. Nauðsynlegt er að banna með öllu kostun pólitískar umræðuþátta eins og Kryddsíldarinnar, Kastljóss eða hverra annarra þátta til að tryggja að ekki sé unnt að kaupa sér velvild fjölmiðla. Það er verðugt verkefni þess Alþingis sem kjörið verður í vor.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fyrirgefðu Árni en þið í Vinstri Grænum hafið mætt í þennan þátt síðan þið komust á þing án þess að gera athugasemd. Er munur á Ora og Alcan? Ekki vera með þessa hræsni bara vegna þess að þið eruð á móti Alcan og þeirra rekstri. Ekki gera ykkar slag í vor í Suðvestur kjördæmi að máli Stöðvar 2 heldur. Það er örlítið eins og hafa góða afsökun í bakhöndinni ef illa fer hjá Ögmundi, allt Stöð 2 að kenna mun kannski hljóma??? Þetta er einnig ódýr leið til að ná sér í meira en 1415 atkvæði í Hafnarfirði einum sér í vor líkt og þið fenguð í bæjarstjórnarkosningunum.
Björn Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 00:46
Alcan styrkti Kryddsíldina einnig í fyrra en ekki man ég til þess að VG hafi komið athugasemdum á framfæri þá. Er þetta ekki bara ódýrt upphlaup í aðdraganda kosninga?
Björg K. Sigurðardóttir, 2.1.2007 kl. 01:37
Þessi umræða um kostnun á sjónvarpsþætti er álíka 'stupid' og umræðan um smsið frá dominos... Fólk sem horfði á þáttinn er væntanlega ekki það vitlaust (eins og Vinstri Grænir virðast halda) að það hefði orðið þess áskynja ef að stjórnendur þáttarins hefðu verið með eitthvað 'agenda' í gangi... Held það þurfi tafarlaust að taka upp umræðu um það af hverju íhaldsmönnum (DO, Björn og liðinu í kringum þá) og vinstri mönnum sé svo tamt að halda að fólk sé almennt það vitlaust að það geti ekki dregið sínar eigin ályktanir...
IJ (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.