21.6.2008 | 21:33
Stórleikur Rússa
Þetta var stórleikur Rússa, í einu orði sagt. Nú var mér nokkur vandi á höndum því ég hef fylgst með Evrópumeistaramótinu í fótbolta með þá von í brjósti að Hollendingar yrðu meistarar. En Rússar voru númer tvö í mínum huga.
Það var því nokkuð blendin tilfinning að þurfa að horfast í augu við þessi tvö draumalið mín keppa á þessu stigi, hefði auðvitað viljað sjá þau í úrslitaleiknum. Það var hins vegar ekki í boði og því beið ég þess sem verða vildi. En Rússar áttu einfaldlega stórleik. Roman Pavljútsjenko og Andrej Arshavin voru frábærir og einnig Dmítríj Torbinskij sem kom inná sem varamaður.
Vissulega eiga Hollendingar frábæra leikmenn eins og Van der Saar og Nistelrooy, og það er sárt að sjá þá dottna út, meðan miklu síðri lið eins og Tyrkir og Ítalir halda áfram. Svona er fótboltinn ósanngjarn á stundum.
En Rússar mega vel við una. Þeir áttu einfaldlega stórleik í kvöld, voru mun betri lengi framan af þótt Hollendinga sæktu í sig veðrið og þeim tókst jú að jafna á 86. mínútu. En í framlengingunni voru Rússar eins og þeir væru að byrja nýjan leik og úrslitin voru afar verðskulduð.
Og í öllu falli var leikurinn stórkostleg skemmtun.
![]() |
Rússar í undanúrslit eftir sigur á Hollandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2008 | 21:04
Skelfilegar lokamínútur
Það er óhætt að segja að lokamínútur leiks Tékka og Tyrkja hafi verið ótrúlega, í mínum augum raunar skelfilegar því sananrlega vonaðist ég til að vinir mínir Tékkar kæmust áfram upp úr riðlinum. Af því verður ekki, því miður. En í hópi uppáhaldsliða minna eru enn eftir Hollendingar og Króatar sem eru líklegir til að standa sig vel. Vonandi verða Hollendingar Evrópumeistarar. En Tékkar fara heim, en þeir stóðu sig samt prýðilega og áttu vitaskuld að vinna þennan leik í kvöld. Svona getur fótboltinn verið nöturlega ósanngjarn!
![]() |
Ótrúlegur lokakafli tryggði Tyrkjum sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.6.2008 | 13:57
Djúpstæður trúnaðarbrestur
Flest bendir á þessari stundu til að talsverður meirihluti Íra hafi hafnað Lissabon-sáttmálanum svokallaða. Miðað við tölur sem þegar hafa birst virðist munurinn meiri en flestir töldu fyrirfram og má þá hafa í huga að fyrir fáum mánuðum hvarflaði ekki að mörgum annað en að sáttmálinn rynni greiðlega í gegnum írska þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vafalaust er hægt að nefna fjölmargar ástæður þess að andstæðingar sáttmálans eru fleiri en stuðningsmenn í atkvæðagreiðslu sem er afar afdrifarík fyrir framtíð Evrópusambandsins. Þættir eins og valdaframsal til Brussel, minnkuð áhrif fámennari ríkja í framkvæmdastjórn ESB og í þinginu og illskiljanlegur texti sáttmálans eru oft nefndir til sögunnar. Jafnvel nefnt að afsögn írska forsætisráðherrans fyrr í vetur vegna hneykslismála geti verið ein af ástæðunum o.s.frv.
Enginn getur fullyrt með vissu að einhver ein ástæða sé hér að baki. Og líklega skipta ástæðurnar ekki miklu máli. Hitt varðar miklu, að niðurstaðan sýnir fullkominn og djúpstæðan trúnaðarbrest á milli almennings annars vegar og kjörinna leiðtoga landsins og stjórnenda ESB hins vegar. Æ ofan í æ kemur í ljós að leiðtogar og forystumenn einstakra ríkja eða Evrópusambandsins í heild hafa enga tilfinningu fyrir viðhorfum og sjónarmiðum almennings og virðast líka kæra sig kollótta um þau. Þess vegna völdu leiðtogar annarra ríkja en Írlands að sniðganga þjóðir sýnar og notfæra sér þingmeirihluta til að knýja sáttmálann í gegn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi staða kemur upp. Árið 2005 höfnuðu bæði Frakkar og Hollendingar nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og flest benti til að það sama yrði ofan á hjá Bretum og fleirum. Ferlinu var að vísu hætt strax að loknum atkvæðagreiðslunum í Frakklandi og Hollandi, það hafði jú ekkert upp á sig að halda áfram þá. Það var þó gert með nokkuð laumulegum hætti, með því að taka stjórnarskrána sem hafði verið hafnað og færa hana í nýjan búning og kalla Lissabon-sáttmála. Og þá töldu menn sig geta komist hjá þjóðaratkvæðagreiðslum. Nema á Írlandi, þar sem stjórnarskráin þeirra er afdráttarlaus í þessu efni.
Það var sem sagt með ráðnum hug að leiðtogar ESB-ríkjanna og Brussel-veldið ákvað að sniðganga almenning. Nú virðist írskur almenningur hafa tekið í taumana. Og það hefði áreiðanlega gerst víðar ef þjóðirnar hefðu verið spurðar. Þessi staða endurspeglar djúpstæðan trúnaðarbrest og valdhroka stjórnvalda. Evrópusambandið er ekki lýðræðislegur vettvangur og verður það enn síður því meir sem stjórnendurnir fjarlægjast allan almenning. Einmitt lýðræðisskorturinn og valdhrokinn munu væntanlega líklega leiða til þess að Írum verði hótuð brottviking úr Evrópusambandinu. En við skulum bíða og sjá hverju fram vindur.
12.6.2008 | 10:55
ESB-lýðræði á brauðfótum
Írar ganga í dag að kjörborði til í þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Sáttmálanum er ætlað að koma í stað "stjórnarskrárinnar" svonefndu sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu um mitt ár 2005. Írland er eina land ESB sem heldur þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann, öll hin ríkin 26 bera hann upp í þjóðþingunum. Stjórnarskráin átti hins vegar almennt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en því ferli var hætt þegar Frakkar og Hollendingar gerðu út um málið. Þó er í raun sáralítill munur á Lissabon-sáttmálanum og stjórnarskránni sálugu. Því til stuðnings má vísa í ummæli Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum forseta Frakklands og forseta stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, en hann sagði í fjölmiðlum sl. haust að: The Treaty of Lisbon is the same as the rejected constitution. Only the format has been changed to avoid referendums. (Lissabon-sáttmálinn er hið sama og stjórnarskráin sem hafnað var. Aðeins hefur verið breytt um form til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum).
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að leiðtogar ESB-ríkjanna hafa hver um annan þveran reynt að selja landsmönnum sínum Lissabon-sáttmálann þar sem hann væri allt annar en stjórnarskráin og engin ástæða væri til að þjóðirnar fengju að kjósa um hann.
En Írar ganga sem sagt að kjörborði í dag. Allir helstu flokkar, nema Sinn Fein, hafa lýst stuðningi við sáttmálann og leiðtogar þeirra draga upp dökka mynd, ef þjóðin hafnar sáttmálanum og í raun haft í hótunum við þjóðina. Fyrir nokkrum vikum benti ekkert til annars en að sáttmálinn yrði samþykktur með miklum mun. Undanfarna daga hefur sú mynd þó verið að breytast. Skoðanakannanir sýna að mjög mjótt getur orðið á munum og allt að þriðjungur kjósenda kvaðst vera óráðinn í afstöðu sinni nú fyrr í vikunni. Allt getur því gerst.
Sú staða sem uppi er í málinu varpar skýru ljósi á þá brauðfætur sem lýðræði innan Evrópusambandsins stendur á. Engir þjóðarleiðtogar hafa þorað að bera málið undir þjóðina sína, Írar gera það einungis vegna þess að stjórnarskrá þeirra sjálfra krefst þess. Það er umhugsunarvert á hvaða leið lýðræðisríki eru þegar leiðtoga þeirra skortir kjark til að horfast í augu við sína eigin þjóð og láta hana taka afstöðu til ákvarðana stjórnmálamannanna. Sömuleiðis er það umhugsunarvert þegar þjóðarleiðtogar hafa hálfpartinn í hótunum við þjóðina.
Verði sáttmálinn samþykktur á Írlandi má segja að hótanirnar hafi borið árangur og með slíkum vinnubrögðum hafi stuðningsmenn sáttmálans unnið sigur. Falli á hinn bóginn sáttmálinn er það áfellisdómur yfir öllum hinum ríkjunum sem ekki vildu gefa fólkinu sjálfu að eiga síðasta orðið um þær umfangsmiklu breytingar sem Lissabon-sáttmálinn hefur í för með sér, m.a. til að auka vægi stóru ríkjanna á kostnað hinna smærri. En við sjáum hvað setur.