Meira um Dalai Lama - og íslensk yfirvöld

Eins og ég hef greint frá hér á síðunni mun ég hitta Dalai Lama á morgun, þriðjudag.  Þá heimsækir hann Alþingi og fundar með utanríkismálanefnd.

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um það hvort íslenskir ráðamenn muni hitta þennan aufúsugest og hver sé þá skýringin á því ef svo er ekki.  Hefur líka verið sagt að þingmenn hafi ekki svarað boði um að óska eftir fundi með trúarleiðtoganum og friðarverðlaunahafanum.  Ekki veit ég um aðra en get talað fyrir sjálfan mig.

Þann 17. febrúar sl. átti ég fund með þremur fulltrúum þeirra sem skipuleggja heimsókn Dalai Lama til Íslands.  Þá var ég nýorðinn formaður utanríkismálanefndar og fannst mikilvægt að kynna mér tildrög þess að honum var boðið hingað til lands, hvernig dagskránni yrði háttað og hvort flötur væri á að hann hitti íslenska ráðamenn eða stjórnmálamenn.  Það var alveg ljóst af minni hálfu að ég hafði áhuga á heimsókninni og vildi gjarnan að utanríkismálanefnd ætti þess kost að eiga með honum fund.  Á hinn bóginn var ekki vitað í febrúar hverjir yrðu í nefndinni eftir kosningar.  Þegar svo ný nefnd hafði verið kosin eftir að Alþingi kom saman í kjölfar kosninga, og fyrirspurn barst frá skipuleggjendum heimsóknarinnar hvort nefndin vildi hitta Dalai Lama, lagði ég til við nefndina að þeir nefndarmenn sem vildu gætu átt fund með honum í Alþingishúsinu.  Að höfðu samráði við forseta Alþingis mun hann heimsækja þinghúsið þar sem þingforseti tekur á móti honum og síðan mun hann eiga fund með nefndarmönnum í utanríkismálanefnd.

Mér finnst rétt að þetta komi fram hér, ekki síst vegna þess að fjölmiðlar hafa einkum beint kastljósinu að ráðherrum í tengslum við heimsókn Dalai Lama, en lítið fjallað um heimsóknina í þingið.  Má í þessu efni benda á að Alþingi er æðsta stofnun þjóðarinnar og því má fullyrða að Dalai Lama sé sýndur mikill sómi með heimsókninni þangað og fundi með þingmönnum úr utanríkismálanefnd.  En nú hafa svo einnig nokkrir ráðherrar greint frá því að þeir hyggist hitta tíbetska gestinn og vonandi takast þeir fundir vel og verða ríkisstjórninni til sóma.


Evrópumálin í utanríkismálanefnd

Þá eru komnar fram á Alþingi tvær þingsályktunartillögur er varða tengsl Íslands og Evrópusambandsins.  Utanríkisráðherra mælti fyrir annarri þeirra, hin er sameiginleg tillaga þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Eftir fyrri umræðu um tillögurnar á fimmtudag og föstudag var þeim vísað til utanríkismálanefndar til umfjöllunar.

Lesa meira >>


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband