Næst besti kosturinn á ballinu!

"Bakkafjöruhöfn er næst besti kosturinn en það er orðið vinsælt hjá ráðamönnum þjóðarinnar að velja næst besta kostinn á ballinu."  Þetta eru ummæli stjórnarþingmannsins Árna Johnsen í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að ýta öllum frekari vangaveltum um jarðgöng til Vestmannaeyja út af borðinu.

Án þess að fara meira út í umræðu um Vestmannaeyjagöngin þá vekja þessi ummæli Árna Johnsen nokkra athygli.  Hér er á ferðinni stjórnarþingmaður, annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem vann þar góðan sigur í prófkjöri flokksins.  Það er ekki hægt að skilja ummæli hans öðruvísi en að hann sé að vísa til ákvörðunar formanns flokksins að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni.  Í augum Árna var Samfylkingin alls ekki sætasta stelpan á ballinu svo vitnað sé í fræg ummæli forsætisráðherra, en hún gerir augljóslega sama gagn!  Hvernig ætli Samfylkingarfólki þyki þessi sending frá samherja í stjórnarliðinu?


mbl.is Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarfsmaður fellur frá

Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, er látinn.  Á björtum sumardegi í fjallgöngu á heimaslóðum kom kallið.  Það minnir okkur svo óþyrmilega á að enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Leiðir okkar Einars Odds lágu aðeins skamma hríð saman á Alþingi, þar sem ég settist í fyrsta skipti nú í vor að loknum þingkosningum, en Einar Oddur hafði þá setið þrjú kjörtímabil á þingi.  Raunar lágu leiðir okkar fyrst saman fyrir allmörgum árum, þegar hann sem nefndarmaður í sjávarútvegsnefnd kom og heimsótti Reykjavíkurhöfn, þar sem ég var þá stjórnarformaður. 

Ég hafði fyrir löngu, eins og þjóðin öll, séð að þar fór maður sem var fylginn sér, sjálfum sér samkvæmur, skoðanafastur og lét ekki bugast eða bogna svo auðveldlega.  Hvað sem líður ágreiningi um grundvallarskoðanir í stjórnmálum, verður Einar Oddur ávallt virtur fyrir störf sín í atvinnulífi og á þingi.  Hann var litríkur stjórnmálamaður og hafði góða kímnigáfu og þannig munu samstarfsmenn hans minnast hans.

Aðstandendum Einars Odds votta ég samúð mína.


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einkavæðing vatnsveitunnar ekki ólögmæt?

Einkavæðing orkugeirans er hafin fyrir tilstilli stjórnvalda.  Þar á meðal er vatnið.  Engu að síður eru í gildi í landinu lög sem kveða á um að vatnsveitur megi ekki vera í eigu einkaaðila.  Ekki enn að minnsta kosti.  Hvernig stendur þá á því að einkavæðing vatnsveitna er látin óáreitt?

Og hvar eru fjölmiðlarnir?  Þeirra hlutverk er mikilvægt í hverju lýðræðissamfélagi.  Hvers vegna hamast þeir ekki í málinu?  Ná eigna- og hagsmunatengslin e.t.v. svo langt inn í íslenskan fjölmiðlaheim að þar er ekki amast við neinu sem þjónar hagsmunum fjármagns og valds?

Í gildandi lögum um vatnsveitur segir m.a.:

4. gr. Heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags.
Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.
Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG og fulltrúi í iðnaðarnefnd Alþingis hefur bent á þetta atriði og er full ástæða til að fylgja því eftir.  Var salan á Vatnsveitu Vestmannaeyja í samræmi við þessi lagaákvæði?  Er einkavæðingin á Hitaveitu Suðurnesja í samræmi við þessi lög, nú þegar stefnir í að Geysir Green Energy geti orðið meirihlutaeigandi í því fyrirtæki? 
Hvernig hyggjast stjórnvöld, t.d. iðnaðarráðherra, bregðast við?  Er ekki rétt að vakna af þeim væra blundi sem færðist yfir núverandi stjórnarflokka um leið og stjórninni hafði verið klambrað saman?  Munu fjölmiðlar spyrja ráðamenn gagnrýnna spurninga?
Þessum og mörgum fleirum spurningum þarf að svara.  Og þeirra svara verður leitað.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband