24.8.2006 | 13:44
Orkuveitan lætur undan þrýstingi
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.10.2006 kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2006 | 11:45
Össur og álverið...
Það er ánægjulegt að sjá að helstu talsmenn Samfylkingarinnar eru nú hver sem betur getur að skrifa sig frá stóriðjustefnunni og tala máli umhverfis- og náttúruverndar. Sérhver viðbót, í þann hóp sem vill að snúið verði frá öfgafullri stóriðjustefnu í sjálfbæra atvinnustefnu þar sem virðing er borin fyrir náttúru og umhverfi, er kærkomin. Þó er ekki hægt annað en að rifja upp ummæli Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi formanns Samfylkingarinnar og eins helsta forystumanns hennar í dag, í umræðum á Alþingi í desember 2002 þegar þessi mál voru til umfjöllunar. Þá sagði Össur: "Ég kem hingað, herra forseti, sem stjórnmálamaður sem styður Kárahnjúkavirkjun eindregið. Ég og minn flokkur erum þeirrar skoðunar að það eigi að ráðast í þá virkjun og það eigi að byggja álver við Reyðarfjörð."
Nú hefur flokkurinn að vísu skipt um formann, en Össur lætur a.m.k. sjálfur oft eins og hann sé enn formaður og fer þá mikinn. Hinn nýi formaður Samfylkingarinnar talar nú með allt öðrum hætti en áður um virkjana- og stóriðjumálin og vonandi veit það á gott. Hvort Össur hefur síðan skipt um skoðun er óljóst, og óvíst hvort hann mun fylgja formanni sínum í þessu máli frekar en öðrum.
14.8.2006 | 08:36
Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs
UM ÁRATUGASKEIÐ höfum við heyrt og séð fréttir af "ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs". Æ ofan í æ brestur á ófriður og átök þar sem óbreyttir borgarar eru fórnarlömbin. Enda þótt á umliðnum árum og áratugum hafi verið gerðir friðarsamningar, og helstu gerendur jafnvel verið heiðraðir með friðarverðlaunum Nóbels, kemur allt fyrir ekki. Enginn varanlegur friður er í augsýn og þjáningar þúsunda virðast engan enda ætla að taka. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins sýna því miður enn einu sinni að mannslífin eru mismikils virði.
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs ógna heimsfriðnum. Þess vegna eiga allar þjóðir að hafa skoðun á því ófremdarástandi sem þar ríkir og beita sér af fullu afli til að binda endi á það. Ísland og Íslendingar geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með einarðri afstöðu og skýrum skilaboðum. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki sýnt sama sjálfstæði, skilning og frumkvæði og þegar þau ruddu brautina og studdu sjálfstæðisyfirlýsingar Eystrasaltsríkjanna á sínum tíma og nú nýlega Svartfjallalands.
Það er orðið deginum ljósara að Ísraelsmenn fremja þjóðarmorð í Líbanon. Mörg hundruð manns, og jafnvel þúsundir, mestmegnis óbreyttir borgarar, þ.ám. mörg börn, hafa verið myrt. Eyðileggingin blasir hvarvetna við og engu er eirt. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru ekki óhultir því Ísraelsmenn hafa þegar drepið fjóra slíka eins og kunnugt er. Og allt er þetta hefnd vegna þess að tveir ísraelskir hermenn voru teknir í gíslingu af Hizbollah-samtökunum. Ísraelsk stjórnvöld hafa gert sig sek um þjóðarmorð og brot á ýmsum alþjóðlegum mannréttindaákvæðum. Hvers vegna Ísraelsmenn komast sífellt upp með að brjóta alþjóðalög, s.s. að því er varðar að koma sér upp kjarnavopnum, er umhugsunarefni. Kann að vera að það stafi af því að Ísrael er talið til hluta Vesturlanda? Getur verið að stjórnvöld á Vesturlöndum líti svo á að Ísrael myndi í raun víglínuna gagnvart hinum íslamska heimi? Er þarna komin skýringin á afstöðuleysi íslenskra stjórnvalda og þrálátri fylgispekt við bandaríska heimsvaldastefnu? Þessa afstöðu er með engu móti hægt að verja. Framgöngu Ísraelsmanna ber að fordæma skilyrðislaust og krefjast vopnahlés tafarlaust. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við "rétt Ísraela til að verja sig" eins og svo oft er gert, enda eru "varnaraðgerðir" þeirra nú þegar komnar langt út fyrir öll mörk. Þeir sem þannig tala minnast aldrei einu orði á rétt palestínsku þjóðarinnar til sjálfstæðs ríkis.
Bandaríkjamenn, og venju samkvæmt hinn fylgispaki Blair, vilja einfaldlega ekki frið í Mið-Austurlöndum. Þeir vilja ekki stöðva ofbeldisverk Ísraela, þeir halda verndarhendi yfir morðum, misþyrmingum og eyðileggingunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Því sannleikurinn er sá að ef Bandaríkin tækju ekki einarða afstöðu með Ísrael, eins og þau hafa ávallt gert, gætu þau stöðvað blóðbaðið. En eins og þau koma fram, þá verða þau aldrei trúverðugur sáttasemjari. Íslendingar eiga að skipa sér í sveit með þeim þjóðum sem vilja knýja fram frið í Mið-Austurlöndum tafarlaust, þeim sem krefjast þess undanbragðalaust að Ísrael fari að alþjóðalögum. Við eigum að krefjast þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman nú þegar til að þrýsta á um að ofbeldið verði stöðvað. Það mál þolir enga bið. Mannslífin eru mikils virði - líka í Líbanon!
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 14. ágúst 2006.
11.8.2006 | 11:02
Átök um skipan leikskólamála
Á borgarráðsfundinum lagði ég fram óskir um að áður en endanleg ákvörðun yrði tekin lægju fyrir mikilvægar upplýsingar, en þær eru:
a. Skrifleg greinargerð meirihluta borgarstjórnar um faglegar forsendur og ávinning af breytingunum.
b. Yfirliti yfir þá fagaðila sem málið hefur verið unnið í samráði við, sbr. bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í menntaráði þ. 4. ágúst sl.
c. Skriflegar umsagnir félaga leikskólakennara, leikskólastjóra, grunnskólakennara og grunnskólastjóra.
d. Skrifleg lýsing sviðsstjóra menntasviðs á því hvernig skipta eigi sviðinu upp.
e. Skrifleg svör við fyrirspurnum fulltrúa SAMFOKS sem lagðar voru fram í menntaráði þann 4. ágúst sl.
f. Umsögn fjármálasviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs um breytingarnar.
g. Skýringar formanns stjórnkerfisnefndar á því hvað átt er við með yfirlýsingu í fjölmiðlum í gær um að á öllum stigum málsins hafi fullt tillit verið tekið til þess sem minnihlutinn fór fram á nema það væru tillögur eingöngu til að tefja málið.
Þá lagði ég ennfremur fram eftirfarandi bókun:
"Í umsögn menntaráðs koma engin haldbær fagleg eða pólitísk rök fram sem réttlæta eða styðja ákvörðun meirihlutans um að kljúfa leikskólamál frá öðrum menntamálum í borginni. Ákvörðunin er ekki studd neinum athugunum eða könnunum á reynslunni af núverandi fyrirkomulagi né viðhorfsathugunum meðal fagfólks. Engin fagleg umræða fór fram um umsögn meirihluta menntaráðs á fundi ráðsins 4. ágúst sl., enda var tillaga meirihlutans að umsögn ekki kynnt ráðinu fyrr en í lok fundar og hafði enginn ráðsmaður tök á að kynna sér hana áður. Enda þótt sviðsstjóri menntasviðs hafi komið á fund stjórnkerfisnefndar þann 1. ágúst kom ekkert fram í þeim umræðum sem skaut stoðum undir tillögur og ásetning meirihlutans, þvert á móti kom fram að sviðsstjórinn hafði ekki hugmynd um að til stæði að kljúfa menntasviðið í tvennt fyrr en þann sama dag. Vinnubrögð meirihlutans hafa til þessa verið honum til vansa. Enn er þó ekki of seint fyrir hann að sjá að sér og er hvatt til að efnt verði til opinnar og lýðræðislegrar umræðu við starfsfólk og stjórnendur leik- og grunnskóla um málið áður en lengra er haldið."
Ljóst er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætla að keyra þetta mál í gegn af mikilli óbilgirni, þrátt fyrir að þeir hafi ekki gert kjósendum grein fyrir þessum áformum fyrir kosningar. En nú hafa leikskólastjórar í Reykjavík boðað til fundar nk. þriðjudag með fulltrúum stjórnmálaflokkanna til að fá fram skýringar á málinu og verður fróðlegt að sjá hvernig ákvörðun meirihlutans verður rökstudd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 20:33
Leikskólinn skilinn frá öðru skólastarfi
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að kljúfa leikskólann frá öðru skólastarfi í borginni. Þetta ákveða Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur þrátt fyrir varnaðarorð fagfólks og foreldra leikskólabarna. Nú er verið að stíga skref aftur á bak í málefnum leikskólans og það er nöturlegt. Borgarfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra sendu frá sér yfirlýsingu í dag vegna málsins og fylgir hún hér neðar.
"Á fundi stjórnkerfisnefndar nú í morgun steig núverandi borgarstjórnarmeirihluti skref sem undirstrika ólýðræðislega nálgun og ófagleg vinnubrögð þannig að ekki verður við unað án þess að vakin sé athygli fjölmiðla og borgarbúa allra.
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að kljúfa menntaráð og menntasvið í tvennt þannig að fyrsta skólastigið er nú slitið frá öðru skólastarfi í borginni og samstarfi og samræmingu grunnskóla- og leikskólastarfs er gert örðugra um vik. Fyrir hálfu öðru ári var leikskólaráð sameinað fræðsluráði undir heiti nýs menntaráðs. Þetta nýja ráð hefur farið vel af stað, samvinna milli skólastiga er markvissari, stjórnun, yfirsýn og fagleg samþætting skólastiganna hefur aukist og nýir möguleikar opnast. Ekki síst hefur verið lögð áhersla á mýkri og sveigjanlegri skil milli skólastiga og enn fremur að nálgun, aðferðir og hugmyndafræði skólastiganna hvors um sig nýtist báðum stigum. Breytingin hefur reynst vel, fleiri kostir koma í ljós og starfsfólk nýs menntasviðs axlað ábyrgð á nýju starfsumhverfi og tekist á við þau úrlausnarefni sem upp hafa komið. Engin úttekt hefur verið gerð á því hvernig breytingin hefur reynst en almennt virðist hún hafa gefið góða raun. Fagfólk sem starfar á skólastigunum báðum hefur varað mjög við áformum um að slíta leikskólann úr samhengi við annað skólastarf, eins og fyrirhugað er, og hafa samtök foreldra auk þess lýst áhyggjum sínum vegna þeirra, en meirihlutinn skellt skollaeyrum við.
Athygli vekur að engin áform um umrædda breytingu voru látin uppi í aðdraganda kosninga sem gefur ástæðu til að ætla að önnur rök en pólitísk eða fagleg liggi hér að baki. Þá hefur eðlilegum kröfum um faglega umræðu um málið á vettvangi menntaráðs verið hafnað en menntaráð hefur ekki fengið til umræðu þau drög að samþykktum fyrir nýtt leikskólaráð sem nú liggja fyrir. Á fundi stjórnkerfisnefndar í síðustu viku var ennfremur lögð fram krafa Samfylkingar og Vinstri grænna um umsagnir fjármálasviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs, en þær liggja ekki enn fyrir. Svör við fyrirspurnum minnihlutans í menntaráði liggja heldur ekki fyrir og enn síður svör við spurningum fulltrúa Samfoks á sama vettvangi sem menntaráð fól sviðsstjóra að draga saman.
Opin og eðlileg umræða innan menntaráðs fer ekki fram, ekki er hlustað á fagfólk og samtök þess, vaðið er yfir kjörna fulltrúa og hagsmunaaðila án umræðu í krafti meirihluta. Aflsmunar er neytt, og lýðræðisleg umræða fyrir borð borin. Ólýðræðislegum og ófaglegum vinnubrögðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hér með harðlega mótmælt sem og í bókun sem lögð var fram í stjórnkerfisnefnd nú í morgun."
20.6.2006 | 21:00
Tillaga Vinstri grænna um kynjajafnrétti samþykkt í borgarstjórn
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nú í dag, tillögu okkar Svandísar Svavarsdóttur um úttekt á stöðu kynjajafnréttismála í Reykjavík. Það verður að telja til tíðinda að nýr meirihluti í borgarstjórn skuli samþykkja tillögu frá okkur í VG um þessi mál, strax í upphafi kjörtímabilsins. Vissulega lofar það góðu.
Tillagan sem samþykkt var hljóðar þannig:
"Borgarstjórn samþykkir að fela mannréttindanefnd að láta gera úttekt á stöðu kynjajafnréttismála hjá Reykjavíkurborg. Nefndin afli upplýsinga um skiptingu kynja í nefndir og ráð, launakjör starfsmanna eftir kynjum, verkaskiptingu hjá sviðum og stofnunum borgarinnar og viðhorf embættismanna til kynjajafnréttis á þeim stofnunum og sviðum sem þeir eru í forsvari fyrir. Nefndin skili niðurstöðum og tillögum til úrbóta sé þeirra þörf, fyrir lok árs 2006."
Með samhljóða samþykkt borgarstjórnar hefur mannréttindanefnd verið falið þetta veigamikla verkefni, en niðurstöður úr vinnu nefndarinnar eru mikilvægt tæki til að bæta enn frekar stöðu kynjajafnréttismála hjá borginni. Borgarfulltrúar Vinstri grænna eru afar ánægðir með breiðan stuðning allra borgarfulltrúa við ofangreinda tillögu.
29.5.2006 | 22:52
8. maður íhaldsins!!
Nýr meirihluti er kominn á koppinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Ríkisstjórnin er á leið í Ráðhúsið. Hvernig stjórnarflokkarnir geta lesið skilaboðin frá kjósendum á laugardag þannig að það væri rökrétt, er mér lífsins ómögulegt að skilja. Kjósendur höfnuðu nefnilega Framsóknarflokknum og stóriðju(brj)álæðisstefnu ríkisstjórnarinnar en þá er eins og forkólfar ríkisstjórnarflokkanna ákveði að gefa þjóðinni langt nef: úr því að þjóðin er að reyna að refsa ríkisstjórninni er best að hún fái ríkisstjórnarflokkanna sem allra víðast við völd. Í Reykjavík, Kópavogi, Ísafirði, Húsavík og vafalaust miklu víðar.
Í fréttaviðtölum kom fram hjá oddvitum flokkanna að enginn málefnaágreiningur væri milli þeirra. Líklega er kenning Hannesar Hólmsteins rétt, um að eðlilegt væri að sameina Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Björn Ingi lýsti því yfir fyrir kosningar að slagurinn stæði um hann sjálfan eða 8. mann íhaldsins. Nú kemur í ljóst að hann meinti vitaskuld að slagurinn stæði um hann SEM 8. mann íhaldsins. Á örfáum klukkustundum var nýr meirihluti handsalaður, stólaskiptingin ákveðin en málefnin, ja þar er hvort eð er enginn ágreiningur.
Niðurstaðan hlýtur þá að vera að Framsóknarflokkurinn er ekki flokkur um nein mál, neina stefnu, heldur einungis um það eitt að sitja að völdum. Og varðar hann engu þótt nýi meirihlutinn hafi minnihluta kjósenda í Reykjavík á bak við sig. Það er svona eins og þegar Bush var kosinn forseti Bandaríkjanna, með minnihluta atkvæða. Enda eru ríkisstjórnarflokkarnir í sama leiðangri og Bush svona almennt talað.
Mestur er skaði Reykvíkinga. Hinn nýi meirihluti (sem er semsagt minnihluti) mun hundsa lýðræðisleg vinnubrögð enda er hann algerlega á móti umræðum eins og margoft hefur komið fram. Honum verður hins vegar veitt verðugt aðhald og við vinstri græn hefjum nú þegar undirbúning að því að velta ríkisstjórninni úr sessi á næsta ári - hið síðasta. Bylgjan sem við sigldum á í sveitarstjórnarkosningunum mun bara stækka og verða að boðafalli í þingkosningum að ári.
22.5.2006 | 08:24
Pólitískar hleranir hægri aflanna
Upplýst hefur verið að stjórnvöld hafi staðið fyrir umfangsmiklum hlerunum á tímum kalda stríðsins. Fórnarlömbin eru m.a. dagblöð, verkalýðshreyfing, félagasamtök , stjórnmálaflokkar og þingmenn. Þessar uppljóstranir berskjalda pólitískt hneyksli. Ragnar Arnalds, fyrrv. formaður Alþýðubandalagsins og þingmaður til margra ára segir að rannsaka verði málið til hlítar. Kannski var einfaldlega um brot á stjórnarskránni að ræða, a.m.k. hvað varðar hleranir hjá þingmönnum.
Á hinum Norðurlöndum hefur þegar farið fram "uppgjör" vegna pólitískra hlerana stjórnvalda sem einkum beindust að stjórnmálastarfsemi á vinstri vængnum, verkalýðshreyfingu, fjölmiðlum o.s.frv. Uppljóstranir Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sýna að hægri sinnuð stjórnvöld skirrast einskis og víla ekki fyrir sér að grípa til alls kyns óþrifaráða í þeim tilgangi að ná sínu fram. Nú vill dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, koma á fót svokallaðri "greiningardeild" hjá lögreglunni, sem að því er virðist á að vera einhvers konar hlerunardeild. Upplýsingar Guðna Th. hljóta hins vegar að vekja menn til umhugsunar um það, á hvaða leið við erum raunverulega með samfélagið. Er ekki rétt að staldra við og gera fyrst upp fortíðina, og leiða allar staðreyndir hinna pólitísku hlerana fram í dagsljósið og bæta þeim sem voru fórnarlömb miskann.
20.5.2006 | 20:04
Leikskólinn er hornsteinn menntakerfisins
Kann að vera að þessi fullyrðing sé nokkuð langsótt? En sannleikurinn er nú sá að leikskólinn er sá grunnur sem allt annað nám og önnur menntun byggir á lengi býr að fyrstu gerð. Það er því mikilvægt að tryggja góða leikskóla og að börn almennt eigi jafnan kost á leikskólagöngu án tillits til efnahags eða annarra aðstæðna. Þannig hefur það ekki alltaf verið og þannig er það ekki enn í dag, í upphafi 21. aldarinnar!
Málefni leikskólanna hafa lengið verið okkur vinstrimönnum hugleikin. Margir muna enn ástand leikskólamála í Reykjavík þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihluta í borgarstjórn og hvernig grettistaki var lyft í þessum málaflokki eftir að félagshyggjuflokkar fengu umboð borgarbúa til að stjórna borginni. Þá fyrst var giftum foreldrum og sambúðarfólki heimilað að sækja um heilsdags leikskóladvöl fyrir börnin sín. Áður fengu börn foreldra sem bjuggu saman aldrei meira en hálfsdagsdvöl. Árið 1994 voru aðeins um 20-30% rýma í leikskólum borgarinnar heilsdagsrými, í dag lætur nærri að þau séu um 80-90%. Markvisst er stefnt að því að borgin geti boðið öllum börnum 18 mánaða og eldri heilsdagsdvöl í leikskólum og er óhætt að fullyrða að nokkuð vel gangi að ná því marki, þó nokkuð vanti þar enn á, einkum í yngstu hverfum borgarinnar.
Leikskólinn er nú viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og nú er orðið tímabært að þetta skólastig verði foreldrum að kostnaðarlausu. Það eru í dag hærri skólagjöld í leikskólum en einkareknum háskólum. Við Vinstri græn teljum það ófært. Þegar hafa verið stigin fyrstu skrefin í þá átt í Reykjavík að gera leikskólann gjaldfrjálsan og hafa barnafjölskyldur í borginni því fengið miklar kjarabætur.
Það er grátbroslegt að fylgjast með viðbrögðum minnihlutans í borgarstjórn og félaga þeirra á Alþingi, ekki síst fjármálaráðherrans, þingmanns Reykjavíkur við áformum um gjaldfrjálsan leikskóla. Gremja þeirra yfir frumkvæði borgarinnar er með ólíkindum. Enda hefur Sjálfstæðiflokkurinn í borgarstjórn lýst því yfir að hann styðji ekki gjaldfrjálsan leikskóla, hann mun sem sagt snúa við af þeirri braut, fái hann til þess umboð, og væntanlega leggja á ný gjöld á þá sem nú þegar hafa fengið umtalsverða lækkun gjaldanna.
Vinstri græn setti fyrst stjórnmálaflokka fram markmiðið um gjaldfrjálsan leikskóla. Sannleikurinn er sá að það hefur kostað nokkuð átak að sannfæra aðra um réttmæti þessa máls, jafnvel innan meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. En dropinn holar steininn og nú hafa aðrir flokkar tekið þetta stefnumál VG og gert að sínu aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er vel. Hins vegar er sú hætta yfirvofandi að horfið verði frá áformum um gjaldfrjálsan leikskóla ef Sjálfstæðismenn ráða för í borginni.
Vinstri græn munu berjast fyrir því að leikskólinn verði að fullu gjaldfrjáls á næsta kjörtímabili og þannig undirstrikað að leikskólinn sé hornsteinn menntakerfisins. Látum ekki Sjálfstæðisflokkinn koma í veg fyrir það!
16.5.2006 | 23:22
Hversu lágt geta Sjálfstæðismenn lagst?
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn telja að margt í nýrri samgöngustefnu borgarinnar sé jákvætt og þeir geta vel hugsað sér þá framtíðarsýn sem þar kemur fram. Og þeir greiddu ekki atkvæði gegn stefnunni heldur sátu hjá, einmitt vegna þess að þeir styðja fjölmargt sem þar kemur fram. Engu að síður sendu þeir frá sér harðorða yfirlýsingu í dag til að mótmæla gjaldskyldu á bílastæðum, t.d. við vinnustaði.
Þetta háttalag er einkennilegt, þeir geta sem sagt alls ekki haldið sig við kjarna málsins sem er sjálf stefnan, heldur beina sjónum að einum af fjölmörgum hugmyndum um aðgerðir sem "eru hugsanlegar" til að ná markmiðum um sjálfbærar samgöngur. Og þá kjósa þeir að fjalla um gjaldskyldu í bílastæði. Nokkuð sem er og hefur verið tíðkað í Reykjavík um langt árabil, gott ef Sjálfstæðismenn fundu ekki upp stöðumælana í borginni, og er viðtekið í flestum nálægum löndum og raunar þótt víðar sé leitað.
Þetta er sami Sjálfstæðisflokkur sem vill hins vegar taka skólagjöld í leikskólum borgarinnar, telur jafnvel við hæfi að taka jafnhá eða hærri skólagjöld af 1-5 ára leikskólabörnum en háskólastúdentum í einkareknum háskólum. Hversu berskjaldaðir standa ekki Sjálfstæðismenn í þessum samjöfnuði? Nú vitum við hvar áherslur Sjálfstæðisflokksins liggja. Hagur bílsins er tekinn fram yfir börnin í borginni. Hversu lágt geta Sjálfstæðismenn lagst?
En það er líka nöturlegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem enn er stærsti flokkur landsins, skuli ekki reiðubúinn, þegar 21. öldin er gengin í garð fyrir nokkru, að taka ábyrð í umhverfismálum. Stærsta málaflokki þessarar aldar. Neikvæð áhrif samgangna eru stærsti umhverfisvandinn í Reykjavík, eins og í svo fjölmörgum öðrum borgum. Nýr leiðtogi breska Íhaldsflokksins hefur tekið umhverfismálin upp á sína arma, enda skilur hann að það eru mál framtíðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi skilar auðu, situr hjá, og ætlar enga ábyrgð að taka í þeim málaflokki. Það er beinlínis skammarlegt.