16.5.2006 | 17:48
Samgöngustefna í borgarstjórn
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nú síðdegis samgöngustefnu fyrir Reykjavík. Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavík verði borg sem tryggir greiðar og öruggar samgöngur fyrir alla er jafnframt stuðla að bættu umhverfi, góðri heilsu og aðlaðandi borgarbrag.
Hlutverk samgöngustefnunnar er þríþætt:
- Að tryggja greiðar samgöngur án þess að ganga á verðmæti svo sem umhverfi, heilsu og borgarbrag
- Að uppfylla fjölbreyttar ferðaþarfir borgarbúa á jafnréttisgrundvelli
- Að stuðla að fullnýtingu samgöngukerfa borgarinnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2006 | 07:58
Landspítalinn og sjónarmið Vinstri grænna
Sjónarmið okkar Vinstri grænna um að endurmeta eigi umfang og staðsetningu nýs Landspítala hefur vakið verðskuldaða athygli. Margir fjölmiðlar taka undir þetta sjónarmið og hrósa okkur fyrir hugrekki, stundum "þrátt fyrir fyrra aðkomu VG að málinu." Og mér heyrist að ýmsir úr hinum flokkunum jánki líka.
Það er mjög eðlilegt að menn staldri við á þessum tímapunkti málsins. Sannleikurinn er sá að þegar borgin fjallaði um málið á sínum tíma, var fyrst og fremst verið að taka afstöðu til þeirrar grundvallarspurningar hvort spítalinn ætii að byggjast upp við Hringbraut, í Fossvogi eða í Garðabæ. Heilbrigðisráðherra ákvað að leggja áherslu á Hringbraut og borgin féllst á það. Á þeim tíma lá ekki fyrir nein tillaga að skipulagi þannig að ómögulegt var að gera sér grein fyrir umfangi bygginganna. Síðan kom fram tillaga spítalans að rammaskipulagi svæðisins en borgin átti enga aðkomu að þeirri vinnu. Sú tillaga var kynnt fyrir skipulagsráði borgarinnar nú fyrir fáum vikum. Þá fyrst gat skipulagsráð byrjað að fjalla um málið og þá er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir myndi sér skoðun á málinu.
Það höfum við Vinstri græn gert. Við teljum ástæðu til að fara betur yfir skipulagsforsendur, meta hvernig þessi miklu mannvirki fara í landinu og í nálægðinni við smágerða byggð Þingholtanna, athuga umferðartengingar og umferðarsköpun o.fl. í þeim dúr. Þá hafa margir í heilbrigðisstétt gagnrýnt þá ofuráherslu sem er á nýja byggingu þegar ýmsir hlutar í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins eru fjársveltir, s.s. hin almenna heilsugæsla og þjónusta við aldraða.
Enda þótt lengi hafi verið beðið eftir úrbótum í húsnæðismálum Landspítala er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að skoða með opnum þær tillögur sem nú hafa verið að fæðast um skipulag svæðisins. Það er enn enginn skaði skeður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2006 | 21:05
Ósannindi ex-bjé
Nefnd ríkis og borgar, undir forystu Helga Hallgrímssonar fyrrum vegamálastjóra, hefur í samvinnu við ýmsa ráðgjafa unnið að tillögum um staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugsins. Eftir að hafa skoða fjölmarga kosti hefur nefndin staðnæmst við fjóra möguleika. Í fyrsta lagi að flugið verði áfram í Vatnsmýrinni en þó í breyttri mynd þannig að flugvallarsvæðið minnkaði og meira rými fáist til uppbyggingar. Í öðru lagi að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkur. Í þriðja lagi að nýr völlur verði byggður á Lönguskerjum og í fjórða lagi að nýr völlur verði byggður í Hólmsheiði. Ljóst er að allir þessi kostir koma til greina en þeir hafa mismunandi kosti og galla. Við í VG höfum lýst þeirri skoðun okkar að af þessum kostum teljum við Hólmsheiðarvöll ákjósanlegastan. Hann hefur þá kosti að vera tiltölulega ódýr, hann er í góðum tengslum við helstu umferðaræðar að og frá höfuðborginni, hann er aðeins í um 15 mín. aksturfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur. Lönguskerjarvöllurinn er amk. tvöfalt dýrari, þar munar í það minnsta 10 milljörðum króna!! Og svo eru umhverfismálin; það yrði augljóst umhverfisslys að demba gríðarlegum landfyllingum út í Skerjafjörðinn með brimvarnarmannvirkjum og vegtengingu yfir fjöruna.
Á kynningarfundi nefndarinnar með borgarfulltrúum og frambjóðendum var sérstaklega spurt um vatnsverndarmálið á Hólmsheiði. Kom þar skýrt fram að nefndin hefði aldrei lagt til völl á Hólmsheiði ef það ógnaði vatnsbólum höfuðborgarbúa. Nema hvað?
En það er eins og bjé-listinn sé í örvæntingu sinni eftir sæti í borgarstjórn, að lofa til hægri og vinstri og virðist telja að því dýrari sem loforðin eru, því betra. Og er reiðubúinn að kosta ótæpilegum fjármunum í auglýsingar í þeim tilgangi. Svo er bara að sjá hvort það skilar tilætluðum árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2006 | 20:06
Gallup könnun í Reykjavík
Niðurstöður Gallup könnunar fyrir aprílmánuð voru birtar nú í kvöld. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 49% og 8 menn kjörna, Samfylkingin 32% og 5-6 menn, Vinstri grænir 11% og 1-2 menn, Frjálslyndi flokkurinn 5% og engan mann og EXBÉ fengi 3% og engan mann. Raunar er 2. maður VG ofar 6. manni Samfylkingar skv. þessum tölum þannig að VG er með 2 menn og Samfylkingin 5, en það eru nú kannski ekki helstu tíðindin.
Það vekur athygli að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig 2% frá síðustu Gallup en Samfylkingin að tapa 4%. Þá eru frjálslyndir að bæta við sig 2% en VG og Framsókn standa í stað. Að íhaldið bæti við sig fylgi er sérkennilegt, þegar það er haft í huga að flokkurinn hefur verið að dala allt þetta ár, eftir að hafa mælst með yfir 50% í haust og fram á árið og jafnvel upp í 55-56%. Hvað veldur þessum viðsnúningi er ekki einfalt að sjá. Fylgistap Samfylkingar verður vart rakið til annars en ósannfærandi málflutnings og þess að frambjóðendahópurinn virðist ósamstæður og sigurviljann virðist skorta. Ef Samfylkingin ætlar að ná flugi á nýjan leik verður hún að höggva í raðir Sjálfstæðisflokksins og verður fróðlegt að sjá hvort þau átta sig á því í framhaldi af þessari könnun.
Slök útkoma Framsóknarflokksins kemur út af fyrir sig ekki á óvart. Milljónaauglýsingar flokksins virðist ekki ætla að slá í gegn nú, eins og þær gerðu þó fyrir síðustu alþingiskosningar. Enn er þó alltof snemmt að afskrifa exbé, þau munu áreiðanlega bregðast við með stórefldu auglýsingaflóði enda mikið í húfi fyrir forystu flokksins.
Frjálslyndir ná ágætri viðspyrnu í þessari könnun. Ólafur F. sýnist nær því að ná kjöri í borgarstjórn en Björn Ingi, og telur hann sig vafalaust eiga harma að hefna eftir Kastljósþáttinn í vikunni, þar sem oddvitar flokkanna leiddu saman hesta sína. Ólafur og félagar hans í Frjálslyndum geta áreiðanlega tekið meira fylgi af Sjálfstæðisflokknum og eiga tvímælalaust að beina spjótum sínum í þá átt.
Fylgið við okkur í VG stendur í stað, en þá er á það að líta að könnunin nær frá lokum mars til 25. apríl, en við kynntum kosningastefnuskrá okkar þann 28. apríl og fengum ágæta umfjöllun um hana og góð viðbrögð hvarvetna. Hún á því augsýnilega eftir að skila sér í fylgismælingu. Ennfremur lauk þessari Gallupkönnun áður en áðurnefndur Kastljósþáttur var, en óvíst er að hann hafi breytt miklu. Björn Ingi og Ólafur F. annars vegar og Dagur og Vilhjálmur hins vegar lentu í nokkuð hörðum persónulegum skylmingum en Svandís Svavarsdóttir komst sem betur fer hjá öllu slíku, var málefnaleg og rökföst.
Verður fróðlegt að sjá næstu könnun sem líklega kemur frá Félagsvísindastofnun Háskólans, og þá sennilega fyrir Morgunblaðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2006 | 17:03
Góður fundur um Reykjanesfólkvang og önnur umhverfismál
Í dag var laugardagsfundur í kosningamiðstöð Vinstri grænna í Suðurgötu undir yfirskriftinni "Náttúruborgin Reykjavík". Sérstakur gestur fundarins var Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor við KHÍ og stjórnarformaður Reykjanesfólkvangs. Auk þess fjallaði ég um stöðu umhverfismála í Reykjavík.
Fundurinn var ágætlega sóttur. Fyrst rakti ég að hverju unnið hefur verið á sviði umhverfismála á kjörtímabilinu og hvaða áætlanir væru uppi varðandi næstu ár hjá Reykjavík. Þegar ég var að taka saman efni fyrir fundinn kom mér það í raun í opna skjöldu hversu mikið hefur áunnist í umhverfismálum í borginni á undanförnum árum, en VG hefur haft forystu í þeim málaflokki í borgarstjórn á því kjörtímabili sem er á enda. Ennfremur gerði ég grein fyrir endurskoðun staðardagskrár 21, sem ber heitið "Reykjavík í mótun". Þar er að finna greinargerð um fjölmörg stefnumið í átt til sjálfbærrar þróunar og lista yfir aðgerðir. Vakti það nokkra athygli, að uppistaðan í þeim atriðum sem unnið hefur verið að á umhverfissviði í víðtæku samráði við íbúa og fjölmarga hagsmunaaðila, er samhljóða stefnumálum okkar Vinstri grænna.
Hrefna Sigurjónsdóttir fjallaði um Reykjanesfólkvang, þessa náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem því miður allt of fáir þekkja. Rakti hún á greinargóðan hátt umfang fólkvangsins, verkefni stjórnarinnar, sérkenni svæðisins m.a. í jarðfræðilegu og náttúrfarslegu tilliti. Kom fram hjá henni að tilgangurinn með stofnun og friðlýsingu Reykjanesfólkvangs fyrir um 30 árum var að taka frá land þar sem höfuðborgarbúar gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Svæðið býður upp á fjölmarga möguleika en að því steðja líka ógnir. Orkuöflunar- og virkjunarfyrirtæki vilja gjarnan hasla sér völl innan fólkvangsins, m.a. með borunum í Brennisteinsfjöllum, en við því verður að sporna. Hefur umhverfisráð Reykjavíkur raunar ályktað til stuðnings stjórn fólkvangsins. Um langt skeið hefur stjórn fólkvangsins fremur haldið að sér höndum og ekki haft mikið frumkvæði en það hefur breyst á þessu kjörtímabili, undir stjórn Hrefnu Sigurjónsdóttur sem á heiður skilið fyrir vel unnin störf.
Er full ástæða til að efna til kynnisferðar um fólkvanginn og hefur VG í Reykjavík í hyggju að gera það nú í maímánuði. Verður það vonandi til að auka þekkingu og skilning á mikilvægi Reykjanesfólkvangs. Verkefnið á næsta kjörtímabili er að efla fólkvanginn enn frekar, marka honum skýra stefnu og ráða landvörð til að annast um starfsemina þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2006 | 20:11
Stefnumálin kynnt - sterk málefnastaða og öflugur listi
Frambjóðendur V-listans, Vinstri grænna í Reykjavík, kynntu stefnumál sín fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í dag. Borgin skartaði sínu fegursta á þessum heitasta degi vorsins, þar sem víða féllu áratuga hitamet.
Við buðum fréttamönnum að koma í ökuferð um borgina í strætisvagni sem er sérstaklega merktur VG og ókum hring um Vesturbæinn, eftir Sæbraut í Ártúnsholt, þaðan um Breiðholtið og eftir Bústaðavegi í Öskjuhlíð. Á leiðinni kynntum við frambjóðendur helstu málefni: Svandís Svavarsdóttir (1. sæti) kynnti sín okkar á samfélag í Reykjavík, ég (2. sæti) kynnti orkuborgina Reykjavík, Þorleifur Gunnlaugsson (3. sæti) kynnti náttúruborgina Reykjavík, Sóley Tómasdóttir (4. sæti) kynnti kynjaborgina Reykjavík og Hermann Valsson (5. sæti) kynnti barnaborgina Reykjavík. Í Öskjuhlíð var stoppað og þar gerði ég grein fyrir helstu stefnuatriðum í skipulagsmálum. Svandís rammaði svo fréttamannafundinn inn með því að tala um það sem aðallega greinir okkur frá hinum flokkunum. Nánar verður greint frá því á heimasíðu framboðsins: www.xv.is og einnig á heimasíðum okkar Svandísar: www.svandis.is og www.arnithor.is
Það var táknrænt fyrir VG að halda fréttamannafundinn í strætó og undirstrikaði áherslu okkar á þann málaflokk. Fjölmiðlar mættu vel og gerðu stefumálum okkar ágæt skil í útvarpi og sjónvarpi í kvöld. Vonandi verður umfjöllun prentmiðlanna góð á morgun. Verður ekki annað sagt að málflutningi okkar hafi verið tekið vel, bæði af fjölmiðlafólki, en einnig hvarvetna þar sem við höfum komið og kynnt okkar sjónarmið.
Þá hefur Svandís Svavarsdóttir, oddviti okkar, staðið sig með stakri prýði í umræðum, m.a. í Kastljósi í gærkvöldi. Sýndi hún þar að það er margt sem greinir VG frá hinum flokkunum, bæði í stefnumálum, en einnig í framkomu og allri nálgun. Var hún t.d. eini oddvitinn sem féll ekki í karpgryfjuna. Einnig er það styrkur hennar og VG að hún er eina konan sem leiðir framboðslista í Reykjavík í vor og má það undun sæta árið 2006 að við séum ekki komin lengra í jafnréttismálum. Enda var það svo að stjórnandi þáttarins virtist alls ekki átta sig á því þegar hann ávarpaði viðmælendur sína "herrar mínir". Er full ástæða fyrir RÚV til að hugleiða það vel hvernig uppstillingin verður að þessu leyti í lokaumræðum oddvitanna, kvöldið fyrir kjördag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 07:46
Ummæli mín um ummæli Alfreðs
Í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum var viðtal við Alfreð Þorsteinsson, núverandi oddvita Framsóknarflokksins (ex-bjé) í borgarstjórn. Þar upplýsti hann að meirihluti R-listans hafi hangið á bláþræði í desember 2002 þegar Ingibjörg Sólrún og Össur ákváðu að hin fyrrnefnda skyldi fara í framboð fyrir Samfylkinguna í alþingiskosningum. Jafnframt sagði hann frá því að Framsóknarflokkurinn hafi þá verið kominn í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta. Þegar Blaðið leitaði álits hjá mér á þessum ummælum sagði ég að okkur hinum í borgarstjórnarflokki R-listans hefði verið kunnugt um viðræðurnar en að ég áttaði mig ekki á því hvaða tilgangi það þjónaði að rifja það upp nú.
Þessi ummæli mín fara fyrir brjóstið á blaðamanni Fréttablaðsins sem skrifar um þau á bls. 12 í blaðinu í dag. Segir hann þetta dæmigerða afstöðu stjórnmálamanna að vilja ekki ræða málin heldur láta það sem gerist að tjaldabaki liggja í kyrrþey.
Nú finnst mér út af fyrir sig að blaðamaðurinn dragi allt of víðtækar ályktanir af því sem ég sagði um málið. Hefði ekki verið nær að Framsóknarflokkurinn hefði upplýst um viðræður sínar við Sjálfstæðisflokkinn þegar þær áttu sér stað? Átti almenningur ekki rétt á því að fá fregnir af þeim á þeim tímapunkti? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að umræðan sé mjög af hinu góða og ef skilja mátti ummæli mín í Blaðinu á þann hátt sem blaðamaður Fréttablaðsins gerir þá er ég eiginlega sammála honum um niðurstöðuna. Fyrir mér vakti aðallega að vekja athygli á því að tímasetningin á þessari "uppljóstrun" er umhugsunarverð. Nema tilgangurinn sé kannski einfaldlega sá að gefa kjósendum til kynna að Framsóknarflokkurinn sé að búa sig undir meirihutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þannig að við fáum núverandi ríkisstjórnarmynstur í borgarstjórn Reykjavíkur eftir kosningar.
Önnur ummæli Alfreðs voru þau að það hafi verið Vinstri grænir sem ákváðu að halda ekki áfram R-listasamstarfinu. Sannleikurinn er sá að Vinstri grænir höfðu kjark og þor til að segja það sem allir hugsuðu, bæði Samfylkingarmenn og Framsóknarmenn. Nefnilega að forsendurnar fyrir áframhaldandi sameiginlegu framboði væru ekki lengur til staðar, rótina að því má svo finna í viðtalinu við Alfreð. Svo getur vel verið að það þjóni pólitískum hagsmunum einhverra að geta "kennt" VG um. Við tökum það ekki nærri okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2006 | 21:28
Sundabraut í borgarstjórn
Tekist var á um málefni Sundabrautar á fundi borgarstjórnar í dag. Málshefjandi var Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi. Fjallaði hann m.a. um fjármögnun Sundabrautarinnar og þá óvissu sem ríkir um hana af hálfu ríkisvaldsins. Gísli Marteinn Baldursson talaði fyrstur af hálfu Sjálfstæðismanna og fór hann mikinn um seinagang í málinu og fann að flestöllu sem meirihlutinn í borgarstjórn hefur aðhafst eða ekki aðhafst undanfarin ár. Spurði hann m.a. hvort meirihlutinn hefði ástæðu til að ætla að afstaða Vegagerðarinnar til fjármögnunar væri breytt að því leyti til að borgin yrði að greiða umframkostnað við dýrari lausnir en þá ódýrustu.
Af minni hálfu kom fram í þessari umræðu að enginn skaði væri skeður þótt enn hefði ekki verið ráðist í Sundabraut, málið væri flókið og þyrfti langan aðdraganda. Margvíslega hagsmuni þyrfti að vega og meta. Benti ég á þá staðreynd að í umhverfismati hefði verið fjallað um mismunandi kosti og niðurstaða umhverfisráðherra hefði verið sú að fallast á lagningu Sundabrautar með skilyrði um samráð við íbúa, höfnina og fleiri hagsmunaaðila. Umhverfismatið er að sjálfsögðu lögformlegur hluti af undirbúningi framkvæmdar eins og Sundabrautar og skilyrði umhverfisráðherra um samráð væri bindandi, jafnt fyrir borgina og ríkið. Ef samráðið sem er áskilið á að vera eitthvað annað en orðin tóm, verða allir aðilar að vera undir það búnir að niðurstaða þess verði önnur en sú sem Vegagerðin lagði upp með. Þess vegna getur ríkið þurft að una því að greiða fyrir dýrari leið en þá sem Vegagerðin helst kýs. Annars er skilyrði umhverfisráðherra um samráð einskis virði.
Hygg ég að flestir geti verið sammála um þennan skilning minn, og tók m.a. Gísli Marteinn undir hann í andsvari. Í umræðunni lét ég jafnframt í ljósi þá skoðun mína að best væri að leggja Sundabraut í jarðgöngum á "ystu leið", þannig að göngin næðu frá Gufunesi í austri að Laugarnesi í vestri með tengingum við austanverða Sæbraut og hafnarsvæðið. Þessi lausn er líkleg til að skapa sátt milli íbúasamtakanna í Vogum og Heimum og í Grafarvogi og er vel ásættanleg fyrir hafnarsvæðið þar sem auðvelt yrði að koma þungaflutningum til og frá hafnarsvæðinu án þess að þeir færu inn í hið almenna umferðarkerfi borgarinnar. Jafnframt hefur þessi leið þann kost í för með sér að tengja austur- og norðurhluta höfuðborgarsvæðisins betur við miðborgina en það hefur lengstum verið áhugamál borgarinnar frá skipulagslegu sjónarmiði.
En þótt Sundabraut sé mikilvæg framkvæmd, er hún ekki svo áríðandi að hún þoli ekki góðan og vandaðan undirbúning og víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila, ekki síst íbúasamtökin. Mannvirki sem á að standa í 100 ár verður að vera vandað og það er mikilvægt að menn hrapi ekki að ákvörðunum um staðsetningu sem menn síðar sjá eftir. Til þess er of mikið í húfi. Og jafnvel meiri kostnaður sem nemur einhverjum milljörðum er réttlætanlegur í þessu samhengi. Aðalatriðið er að leyfa því samráði sem nú stendur yfir að hafa sinn gang, og vonandi tekst samráðshópnum að komast að góðri og farsælli niðurstöðu. Til þess stendur hugur okkar allra sem störfum í hópnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2006 | 23:17
Illa talað um samtök sveitarfélaga
Það vakti athygli mína að í fréttaflutningi af árlegum fundi borgar- og bæjarstjórasem haldinn var austur á landi nú nýverið, kom fram að ýmsir hefðu orðið til að gagnrýna Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir linkind í samskiptum við ríkisvaldið. Þá var líka gagnrýnt að mikill hægagangur einkenndi starfið og frumkvæði væri ekkert.
Nú má vel halda því fram að ýmislegt í starfsemi Sambands sveitarfélaga mætti betur fara. Oft hef ég talið að sveitarstjórnarmenn þyrftu að sýna meiri samstöðu í baráttunni við ríkisvaldið um fja´rhagsleg samskipti, verkaskiptingu o.fl. Hins vegar er það mín reynsla, eftir að hafa setið í stjórn sambandsins í 4 ár og þar áður 4 ár í varastjórn, að á skrifstofu sambandsins starfar afar hæft fólk, sem leggur metnað sinn í að vinna vel að hagsmunamálum sveitarfélaganna. Kveðjurnar sem þau fá frá bæjarstjórafundinum finnast mér nú heldur kaldar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2006 | 08:24
Morgunblaðið tekur upp stefnu Vinstri grænna
Það er ánægjulegt að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag um leikskólagjöld. Þar tekur blaðið fyllilega undir þann málflutning sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haldið fram í nokkur ár. Það er ósæmandi að hæstu skólagjöld í landinu skuli vera í leikskólum!
Við Vinstri græn töluðum fyrir gjaldfrjálsum leikskóla í aðdraganda alþingiskosninganna 2003. Það var af mörgum talið óábyrgt tal. Nú vildu allir Lilju kveðið hafa! Á vettvangi borgarstjórnar hafði VG frumkvæði að því að tala fyrir gjaldfrjálsum leikskóla. Aðrir flokkar hafa nú tekið það upp nema Sjálfstæðisflokkurinn sem talar fyrir áframhaldandi skólagjöldum á fyrsta skólastiginu. Það er ekki sannfærandi.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (nánar tiltekið EX VAFF) vill útrýma skólagjöldum í leik- og grunnskólum. Það teljum við að sé raunhæft að gera á næsta kjörtímabili. Fyrir 12 árum, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað borginni einn í fjöldamörg ár, var ekki einu sinni sjálfsagt að börn fengju pláss á leikskólum. Aðeins forgangshópar áttu kost á leikskóladvöl og flestir voru þá aðeins í 4 tíma dvöl. Þegar Reykjavíkurlistinn tók við stjórn borgarinnar 1994 tók ég við formennsku í Dagvist barna sem þá hét og fór með leikskólamálin. Þá var hafist handa við uppbyggingu leikskólanna í borginni sem stórátaki sem með sönnu hefur verið líkt við grettistak. Það var stefna róttækra vinstri manna sem þar réði för.
Enn er brýn þörf á róttækum vinstri sjónarmiðum í þessum málum eins og víðar. Við í Vinstri grænum munum leggja mikla áherslu á gjaldfrjálsan leik- og grunnskóla, það skiptir miklu ef börnin í borginni eiga öll að sitja við sama borð. Það varðar fjölskyldurnar í borginni miklu. Liðsauki Morgunblaðsins í þessari baráttu er vel þeginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)