24.4.2006 | 08:04
Byr í segl Vinstri grænna vekur athygli
Fréttablaðið birti í gær nýja skoðanakönnun um fylgi flokkanna í borginni. Þar kemur fram að Vinstrihreyfingin - grænt framboð bætir mestu við sig frá síðustu sambærilegri könnun, eða um 5%. Þeir aðilar sem gera skoðanakannanir nota aðeins mismunandi aðferðir og því getur verið nokkur munur milli kannana sem teknar eru á sama tíma. Mér virðist að Vg hafi mælst eilítið lægri í könnunum Fréttablaðsins en t.d. könnunum Gallup og Félagsvísindastofnunar svo líklega er fylgi við VG aðeins meira en þau 11% sem Fréttablaðskönnunin sýnir.
Þetta er ánægjuleg þróun. Hún sýnir að málefnastaða okkar Vinstri grænna er sterk og góður undirbúningur okkar í vetur er að skila sér. Nýr oddviti listans, Svandís Svavarsdóttir, hefur líka vakið eftirtekt fyrir málafylgju og skýra framkomu hvarvetna. Hún er ennfremur eina konan sem leiðir lista í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Bæði Framsóknarflokkur og Samfylkingin ýttu til hliðar konum sem starfað hafa í forystu flokkanna í borgarstjórn. Ákvörðun mín sl. haust að fara úr 1. sæti og sækjast eftir því að skipa baráttusætið sýnist mér líka hafa verið skynsamleg - þótt ég sé etv. ekki alveg hlutlaus í því mati.
Fjölmiðlar hafa tekið eftir því að það er byr í seglum Vinstri grænna um þessar mundir. Oft hafa þeir raunar tilhneigingu til að fjalla sérstaklega um Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu en láta eins og aðrir flokkar skipti ekki máli. En fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og verða að gæta sín á því að ákveða ekki fyrir fólk hvaða flokkar skipti máli og hverjir ekki. Enda eru mörg dæmi um það að minni flokkar geta skipt sköpum. Morgunblaðið hefur áttað sig á þessu einkar vel og vekur athygli á því í ritstjórnarskrifum og víðar. Það hefur Blaðið líka gert. Við Vinstri græn erum bjartsýn um góða útkomu í komandi kosningum. Við erum líka sannfærð um að Reykvíkingar vilja ekki flokksræði eins flokks í borgarstjórn. Það eru spennandi vikur framundan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 14:05
Gera þarf átak í málum aldraðra
Við Steingrímur Joð skrifuðum saman grein sem birtist í Morgunblaðinu á Skírdag. Þar fjöllum við um nýtilkomna umhyggju Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum. Júlíus Vífill Ingvarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sendir okkur svo tóninn í blaðinu í dag. Finnst honum greinilega kynlegt að við skulum ekki vilja færa málefni aldraðra til sveitarfélaga fyrr en "almennileg ríkisstjórn kemst til valda."
Það þarf ekki að koma nokkrum á óvart að við skulum gjalda varhug við því að menn hlaupi nú til og ætli að lagfæra stöðuna í málefnum aldraðra með því að flytja ábyrgðina til sveitarfélaga. Sannleikurinn er sá að það skortir sárlega fjármagn inn í þessa þjónustu og það fjármagn verður ekki til við það eitt að færa málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga. Enda hefur formaður Sjálfstæðisflokksins tekið af allan vafa um að sveitarfélögin myndu aldrei fá neitt meira í meðgjöf til þessara mála en það sem ríkið leggur af mörkum í dag. Þess vegna finnst okkur þetta vera lýðskrum.
Augljóst er að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins, nú með Framsóknarflokknum og áður með Alþýðuflokknum, hafa skert verulega fjármagn til uppbyggingar í málefnum aldraðra, sennilega um 2,5-3 milljarða á síðustu 15 árum. Þetta eru umtalsverðir fjármunir. Halda menn að sami Sjálfstæðisflokkur myndi standa sig betur í þessum málum ef þau væru komin til sveitarfélaga?
Reykjavíkurborg hefur verið í forystu í mörgum velferðarmálum á liðnum árum. Nægir þar að nefna stórkostlegt átak í uppbyggingu í leikskólamálum, einsetningu grunnskólans og innleiðingu skólamáltíða o.fl. Nú er röðin sannarlega komin að öldruðum. Þar þarf einkum að gera þrennt að mínu mati:
- Samræma heimahjúkrun og heimaþjónustu þannig að sá sem þjónustunnar nýtur sé ávallt í fyrirrúmi.
- Byggja fleiri hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu þar sem nú eru um 400 manns í brýnni þörf. Á næsta kjörtímabili þarf að eyða þessum biðlista.
- Stuðla að því að aldraðir, sem það geta og kjósa, eigi kost á að búa lengur heima hjá sér, m.a. með því að auka afslátt tekjulágra aldraðra af fasteignagjöldum.
Þessu til viðbótar verður svo að koma í auknum mæli á móts við óskir Félags eldri borgar og Samtaka aldraðra um lóðir fyrir íbúðir á þeirra vegum.
Við í Vinstri grænum viljum vinna að framgangi þessara mála á næsta kjörtímabili af fullum krafti. Við treystum hins vegar ekki ríkisstjórnarflokkunum til þess að ná árangri á þessu sviði, frekar en þeir hafa gert hingað til. Þess vegna er brýnt að VG fá góða kosningu í vor en því þarf svo að fylgja eftir í þingkosningum að ári og tryggja löngu tímabær ríkisstjórnarskipti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 10:56
Vill G. Valdimar aukna mengun í Reykjavík?
Ágætur framsóknarmaður, G. Valdimar Valdimarsson, bregst heldur illa við skrifum okkar Svandísar Svavarsdóttur um skipulagsmál sem umhverfismál. Einkum fer það fyrir brjóstið á honum að við erum ekki talsmenn þess að leggja sífellt meira fjármagn og rými í borgarlandinu undir dýr og plássfrek umferðarmannvirki. Telur hann þetta til vitnis um að við í VG viljum hafa vit fyrir fólki en ekki leyfa fólki að hegða sér eins og það sjálft kýs, t.d. í umferðinni.
Nú veit ég ekki hvort sjónarmið hans eru dæmigerð fyrir sjónarmið framsóknarmanna almennt. Sjálfur hef ég til dæmis átt ágætt samstarf við framsóknarmenn, m.a. í samgöngunefnd og umhverfisráði borgarinnar. Má þar nefna borgarfulltrúana Alfreð Þorsteinsson og Önnu Kristinsdóttur, einnig Hauk Loga Karlsson sem var varaformaður samgöngunefndar og situr nú sem fulltrúi flokksins í umhverfisráði. Ágætur samhljómur hefur verið um stefnu borgarinnar í samgöngumálum innan meirihlutans, en hver veit nema nú séu þeir tímar á enda?
Þeir framsóknarmenn hafa oft á tíðum skreytt sig með því að vera eini flokkurinn sem hefur starfað innan R-listans frá upphafi, það er rétt því bæði Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð komu síðar til sögunnar. Það er t.d. ekki rétt sem G. Valdimar segir í grein sinni að Vinstri grænir hafi verið í meirihluta í 12 ár, - flokkurinn var stofnaður árið 1999 og kom fyrst inn í borgarmálin í síðustu borgarstjórnarkosningum sem aðili að R-listanum!
Það er augljóst af skrifum G. Valdimars að honum er létt sama um umhverfismál. Raunar afstaða sem er ekki ný af nálinni frá þeim framsóknarmönnum, eins og dæmin úr landsstjórninni sanna. Hann horfir t.d. algerlega framhjá því að mengun af völdum umferðar er lang stærsta umhverfisvandamálið sem við er að glíma í borginni. Æ ofan í æ fer loftmengun vegna umferðar yfir svokölluð heilsuverndarmörk. Áhrifaríkasta leiðin til að mæta því, er að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar. Menn geta auðvitað látið eins og strúturinn og stungið hausnum í sandinn og vonast til að vandamálin hverfi með því einu að þeir sjái þau ekki. En því miður er það ekki svo.
Við Vinstri græn viljum auka hlut umhverfisvænna samgangna. Það þýðir að við viljum auka hlutdeild strætó með raunhæfum aðgerðum um fleiri leiðir, aukna tíðni, aukinn forgang strætó í umferðinni o.s.frv. Þá viljum við stórbæta aðstæður gangandi og hjólandi þannig að sá ferðamáti geti orðið raunhæfur kostur, einkum til styttri ferða, en þriðjungur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu er undir 1 km. Ennfremur teljum við Vinstri græn að gera eigi átak í að auka hlutdeild umhverfisvænna orkugjafa í samgöngum. Það þarf að gera með samhæfðum aðgerðum, vöru- og innflutningsgjöld ríkisins skipta þar máli en því miður hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frekar ýtt undir innflutning ökutækja sem eyða miklu jarðefnaeldsneyti og spæna upp götur höfuðborgarinnar. Þessu viljum við sporna á móti. Og loks ber að nefna að við teljum mikilvægt að draga úr umferðarhraða í borginni. Það er mikilvægt til að draga úr alvarlegum umferðarslysum og til að draga úr mengun af völdum umferðar. G. Valdimar virðist ekki skilja samhengi hlutanna að þessu leyti og verðum bara við það að sitja.
Við í VG erum ekki smeyk við að kynna borgarbúum okkar áherslur í samgöngu- og skipulagsmálum. En við þurfum ekki framsóknarmenn eða aðra til að túlka okkar sjónarmið, borgarbúar eru fullfærir um það sjálfir að taka afstöðu til stjórnmálaflokkanna á grundvelli stefnumála og þess hversu trúverðugir frambjóðendur þeirra eru. Við leggjum fram ábyrga stefnu á grundvelli meginsjónarmiða Vinstri grænna, en leikum okkur ekki að lýðskrumi og yfirboðum. Aðrir geta séð um þá deild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2006 | 10:04
Nýtilkomin umhyggja Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum
Í Morgunblaðinu í dag, 13. aprí, birtist grein í miðopnu eftir mig og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri grænna. Þar er fjallað um hina nýtilkomnu umhyggju Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum. Greinina má líka lesa á heimasíðu minni, http://arnithor.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2006 | 18:52
Páskafríið hafið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 19:54
Ný bloggsíða
Þessi síða verður notuð nú á næstunni til hliðar við heimasíðu mína, www.arnithor.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 19:52