Færsluflokkur: Bloggar

Sundabraut í borgarstjórn

Tekist var á um málefni Sundabrautar á fundi borgarstjórnar í dag.  Málshefjandi var Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi.  Fjallaði hann m.a. um fjármögnun Sundabrautarinnar og þá óvissu sem ríkir um hana af hálfu ríkisvaldsins.  Gísli Marteinn Baldursson talaði fyrstur af hálfu Sjálfstæðismanna og fór hann mikinn um seinagang í málinu og fann að flestöllu sem meirihlutinn í borgarstjórn hefur aðhafst eða ekki aðhafst undanfarin ár.  Spurði hann m.a. hvort meirihlutinn hefði ástæðu til að ætla að afstaða Vegagerðarinnar til fjármögnunar væri breytt að því leyti til að borgin yrði að greiða umframkostnað við dýrari lausnir en þá ódýrustu.

Af minni hálfu kom fram í þessari umræðu að enginn skaði væri skeður þótt enn hefði ekki verið ráðist í Sundabraut, málið væri flókið og þyrfti langan aðdraganda.  Margvíslega hagsmuni þyrfti að vega og meta.  Benti ég á þá staðreynd að í umhverfismati hefði verið fjallað um mismunandi kosti og niðurstaða umhverfisráðherra hefði verið sú að fallast á lagningu Sundabrautar með skilyrði um samráð við íbúa, höfnina og fleiri hagsmunaaðila.  Umhverfismatið er að sjálfsögðu lögformlegur hluti af undirbúningi framkvæmdar eins og Sundabrautar og skilyrði umhverfisráðherra um samráð væri bindandi, jafnt fyrir borgina og ríkið.  Ef samráðið sem er áskilið á að vera eitthvað annað en orðin tóm, verða allir aðilar að vera undir það búnir að niðurstaða þess verði önnur en sú sem Vegagerðin lagði upp með.  Þess vegna getur ríkið þurft að una því að greiða fyrir dýrari leið en þá sem Vegagerðin helst kýs.  Annars er skilyrði umhverfisráðherra um samráð einskis virði.

Hygg ég að flestir geti verið sammála um þennan skilning minn, og tók m.a. Gísli Marteinn undir hann í andsvari.  Í umræðunni lét ég jafnframt í ljósi þá skoðun mína að best væri að leggja Sundabraut í jarðgöngum á "ystu leið", þannig að göngin næðu frá Gufunesi í austri að Laugarnesi í vestri með tengingum við austanverða Sæbraut og hafnarsvæðið.  Þessi lausn er líkleg til að skapa sátt milli íbúasamtakanna í Vogum og Heimum og í Grafarvogi og er vel ásættanleg fyrir hafnarsvæðið þar sem auðvelt yrði að koma þungaflutningum til og frá hafnarsvæðinu án þess að þeir færu inn í hið almenna umferðarkerfi borgarinnar.  Jafnframt hefur þessi leið þann kost í för með sér að tengja austur- og norðurhluta höfuðborgarsvæðisins betur við miðborgina en það hefur lengstum verið áhugamál borgarinnar frá skipulagslegu sjónarmiði.

En þótt Sundabraut sé mikilvæg framkvæmd, er hún ekki svo áríðandi að hún þoli ekki góðan og vandaðan undirbúning og víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila, ekki síst íbúasamtökin.  Mannvirki sem á að standa í 100 ár verður að vera vandað og það er mikilvægt að menn hrapi ekki að ákvörðunum um staðsetningu sem menn síðar sjá eftir.  Til þess er of mikið í húfi.  Og jafnvel meiri kostnaður sem nemur einhverjum milljörðum er réttlætanlegur í þessu samhengi.  Aðalatriðið er að leyfa því samráði sem nú stendur yfir að hafa sinn gang, og vonandi tekst samráðshópnum að komast að góðri og farsælli niðurstöðu.  Til þess stendur hugur okkar allra sem störfum í hópnum.


Illa talað um samtök sveitarfélaga

Það vakti athygli mína að í fréttaflutningi af árlegum fundi borgar- og bæjarstjórasem haldinn var austur á landi nú nýverið, kom fram að ýmsir hefðu orðið til að gagnrýna Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir linkind í samskiptum við ríkisvaldið.  Þá var líka gagnrýnt að mikill hægagangur einkenndi starfið og frumkvæði væri ekkert.

Nú má vel halda því fram að ýmislegt í starfsemi Sambands sveitarfélaga mætti betur fara.  Oft hef ég talið að sveitarstjórnarmenn þyrftu að sýna meiri samstöðu í baráttunni við ríkisvaldið um fja´rhagsleg samskipti, verkaskiptingu o.fl.   Hins vegar er það mín reynsla, eftir að hafa setið í stjórn sambandsins í 4 ár og þar áður 4 ár í varastjórn, að á skrifstofu sambandsins starfar afar hæft fólk, sem leggur metnað sinn í að vinna vel að hagsmunamálum sveitarfélaganna.  Kveðjurnar sem þau fá frá bæjarstjórafundinum finnast mér nú heldur kaldar.


Morgunblaðið tekur upp stefnu Vinstri grænna

Það er ánægjulegt að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag um leikskólagjöld.  Þar tekur blaðið fyllilega undir þann málflutning sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haldið fram í nokkur ár.  Það er ósæmandi að hæstu skólagjöld í landinu skuli vera í leikskólum!

Við Vinstri græn töluðum fyrir gjaldfrjálsum leikskóla í aðdraganda alþingiskosninganna 2003.  Það var af mörgum talið óábyrgt tal.  Nú vildu allir Lilju kveðið hafa!  Á vettvangi borgarstjórnar hafði VG frumkvæði að því að tala fyrir gjaldfrjálsum leikskóla.  Aðrir flokkar hafa nú tekið það upp nema Sjálfstæðisflokkurinn sem talar fyrir áframhaldandi skólagjöldum á fyrsta skólastiginu.  Það er ekki sannfærandi.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð (nánar tiltekið EX VAFF) vill útrýma skólagjöldum í leik- og grunnskólum.  Það teljum við að sé raunhæft að gera á næsta kjörtímabili.  Fyrir 12 árum, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað borginni einn í fjöldamörg ár, var ekki einu sinni sjálfsagt að börn fengju pláss á leikskólum.  Aðeins forgangshópar áttu kost á leikskóladvöl og flestir voru þá aðeins í 4 tíma dvöl.  Þegar Reykjavíkurlistinn tók við stjórn borgarinnar 1994 tók ég við formennsku í Dagvist barna sem þá hét og fór með leikskólamálin.  Þá var hafist handa við uppbyggingu leikskólanna í borginni sem stórátaki sem með sönnu hefur verið líkt við grettistak.  Það var stefna róttækra vinstri manna sem þar réði för.

Enn er brýn þörf á róttækum vinstri sjónarmiðum í þessum málum eins og víðar.  Við í Vinstri grænum munum leggja mikla áherslu á gjaldfrjálsan leik- og grunnskóla, það skiptir miklu ef börnin í borginni eiga öll að sitja við sama borð.  Það varðar fjölskyldurnar í borginni miklu.  Liðsauki Morgunblaðsins í þessari baráttu er vel þeginn.


Byr í segl Vinstri grænna vekur athygli

Fréttablaðið birti í gær nýja skoðanakönnun um fylgi flokkanna í borginni.  Þar kemur fram að Vinstrihreyfingin - grænt framboð bætir mestu við sig frá síðustu sambærilegri könnun, eða um 5%.  Þeir aðilar sem gera skoðanakannanir nota aðeins mismunandi aðferðir og því getur verið nokkur munur milli kannana sem teknar eru á sama tíma.  Mér virðist að Vg hafi mælst eilítið lægri í könnunum Fréttablaðsins en t.d. könnunum Gallup og Félagsvísindastofnunar svo líklega er fylgi við VG aðeins meira en þau 11% sem Fréttablaðskönnunin sýnir.

Þetta er ánægjuleg þróun.  Hún sýnir að málefnastaða okkar Vinstri grænna er sterk og góður undirbúningur okkar í vetur er að skila sér.  Nýr oddviti listans, Svandís Svavarsdóttir, hefur líka vakið eftirtekt fyrir málafylgju og skýra framkomu hvarvetna.  Hún er ennfremur eina konan sem leiðir lista í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík.  Bæði Framsóknarflokkur og Samfylkingin ýttu til hliðar konum sem starfað hafa í forystu flokkanna í borgarstjórn.  Ákvörðun mín sl. haust að fara úr 1. sæti og sækjast eftir því að skipa baráttusætið sýnist mér líka hafa verið skynsamleg - þótt ég sé etv. ekki alveg hlutlaus í því mati.

Fjölmiðlar hafa tekið eftir því að það er byr í seglum Vinstri grænna um þessar mundir.  Oft hafa þeir raunar tilhneigingu til að fjalla sérstaklega um Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu en láta eins og aðrir flokkar skipti ekki máli.  En fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og verða að gæta sín á því að ákveða ekki fyrir fólk hvaða flokkar skipti máli og hverjir ekki.  Enda eru mörg dæmi um það að minni flokkar geta skipt sköpum.  Morgunblaðið hefur áttað sig á þessu einkar vel og vekur athygli á því í ritstjórnarskrifum og víðar.  Það hefur Blaðið líka gert.  Við Vinstri græn erum bjartsýn um góða útkomu í komandi kosningum.  Við erum líka sannfærð um að Reykvíkingar vilja ekki flokksræði eins flokks í borgarstjórn.  Það eru spennandi vikur framundan.


Vill G. Valdimar aukna mengun í Reykjavík?


Ágætur framsóknarmaður, G. Valdimar Valdimarsson, bregst heldur illa við skrifum okkar Svandísar Svavarsdóttur um skipulagsmál sem umhverfismál.  Einkum fer það fyrir brjóstið á honum að við erum ekki talsmenn þess að leggja sífellt meira fjármagn og rými í borgarlandinu undir dýr og plássfrek umferðarmannvirki.  Telur hann þetta til vitnis um að við í VG viljum hafa vit fyrir fólki en ekki leyfa fólki að hegða sér eins og það sjálft kýs, t.d. í umferðinni.

Nú veit ég ekki hvort sjónarmið hans eru dæmigerð fyrir sjónarmið framsóknarmanna almennt.  Sjálfur hef ég til dæmis átt ágætt samstarf við framsóknarmenn, m.a. í samgöngunefnd og umhverfisráði borgarinnar.  Má þar nefna borgarfulltrúana Alfreð Þorsteinsson og Önnu Kristinsdóttur, einnig Hauk Loga Karlsson sem var varaformaður samgöngunefndar og situr nú sem fulltrúi flokksins í umhverfisráði.  Ágætur samhljómur hefur verið um stefnu borgarinnar í samgöngumálum innan meirihlutans, en hver veit nema nú séu þeir tímar á enda?

Þeir framsóknarmenn hafa oft á tíðum skreytt sig með því að vera eini flokkurinn sem hefur starfað innan R-listans frá upphafi, það er rétt því bæði Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð komu síðar til sögunnar.  Það er t.d. ekki rétt sem G. Valdimar segir í grein sinni að Vinstri grænir hafi verið í meirihluta í 12 ár, - flokkurinn var stofnaður árið 1999 og kom fyrst inn í borgarmálin í síðustu borgarstjórnarkosningum sem aðili að R-listanum!

Það er augljóst af skrifum G. Valdimars að honum er létt sama um umhverfismál.  Raunar afstaða sem er ekki ný af nálinni frá þeim framsóknarmönnum, eins og dæmin úr landsstjórninni sanna.  Hann horfir t.d. algerlega framhjá því að mengun af völdum umferðar er lang stærsta umhverfisvandamálið sem við er að glíma í borginni.  Æ ofan í æ fer loftmengun vegna umferðar yfir svokölluð heilsuverndarmörk.  Áhrifaríkasta leiðin til að mæta því, er að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar.  Menn geta auðvitað látið eins og strúturinn og stungið hausnum í sandinn og vonast til að vandamálin hverfi með því einu að þeir sjái þau ekki.  En því miður er það ekki svo.

Við Vinstri græn viljum auka hlut umhverfisvænna samgangna.  Það þýðir að við viljum auka hlutdeild strætó með raunhæfum aðgerðum um fleiri leiðir, aukna tíðni, aukinn forgang strætó í umferðinni o.s.frv.  Þá viljum við stórbæta aðstæður gangandi og hjólandi þannig að sá ferðamáti geti orðið raunhæfur kostur, einkum til styttri ferða, en þriðjungur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu er undir 1 km.  Ennfremur teljum við Vinstri græn að gera eigi átak í að auka hlutdeild umhverfisvænna orkugjafa í samgöngum.  Það þarf að gera með samhæfðum aðgerðum, vöru- og innflutningsgjöld ríkisins skipta þar máli en því miður hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frekar ýtt undir innflutning ökutækja sem eyða miklu jarðefnaeldsneyti og spæna upp götur höfuðborgarinnar.  Þessu viljum við sporna á móti.  Og loks ber að nefna að við teljum mikilvægt að draga úr umferðarhraða í borginni.  Það er mikilvægt til að draga úr alvarlegum umferðarslysum og til að draga úr mengun af völdum umferðar.  G. Valdimar virðist ekki skilja samhengi hlutanna að þessu leyti og verðum bara við það að sitja.

Við í VG erum ekki smeyk við að kynna borgarbúum okkar áherslur í samgöngu- og skipulagsmálum.  En við þurfum ekki framsóknarmenn eða aðra til að túlka okkar sjónarmið, borgarbúar eru fullfærir um það sjálfir að taka afstöðu til stjórnmálaflokkanna á grundvelli stefnumála og þess hversu trúverðugir frambjóðendur þeirra eru.  Við leggjum fram ábyrga stefnu á grundvelli meginsjónarmiða Vinstri grænna, en leikum okkur ekki að lýðskrumi og yfirboðum.  Aðrir geta séð um þá deild.


Nýtilkomin umhyggja Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum

Í Morgunblaðinu í dag, 13. aprí, birtist grein í miðopnu eftir mig og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri grænna.  Þar er fjallað um hina nýtilkomnu umhyggju Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum.  Greinina má líka lesa á heimasíðu minni, http://arnithor.is


Páskafríið hafið

Páskafríið er kærkomið fyrir fjölskylduna að hvílast og vera saman.  Við erum komin í Borgarfjörðinn þar sem við ætlum að vera yfir páskana.  Ég hef hugsað mér að nota tímann m.a. til að lesa bók Andra Snæs Magnasonar um hina hræddu þjóð.  Síðan auðvitað að safna kröftum fyrir lokaátakið fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí.  Það verður lítið um lausar stundir fram að kosningum.  Spennandi tími fer í hönd, úrslit kosninganna eru langt í frá ráðin og við Vinstri græn erum á ágætri siglingu, það er góður andi í hópnum og sterkur sigurvilji.  Þetta verður skemmtilegt vor.

Ný bloggsíða

Þessi síða verður notuð nú á næstunni til hliðar við heimasíðu mína, www.arnithor.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband