Færsluflokkur: Bloggar
29.10.2006 | 14:02
Forval VG á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 11:22
Guðlaugur sigrar Björn örugglega
Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alþingiskosninganna er lokið. Mest barátta var vafalaust um 2. sætið, sem er oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra taldi sig réttborinn í þetta sæti eftir að Davíð Oddsson yfirgaf skútuna. Meðal annars kom fram í málflutningi Björns að hann hefði nú látið Geir Haarde í friði í keppninni um formannsstólinn og því ætti hann skilið að samstaða tækist um hann í 2. sætið í Reykjavík. Það var ekki og Guðlaugur Þór tók mikla pólitíska áhættu með því að vaða í slaginn um 2. sætið. Það reyndist þess virði að taka þá áhættu því Guðlaugur sigraði Björn örugglega í keppninni um oddvitasætið í öðru kjördæmanna. Sýnist mér á þeim tölum sem sést hafa að Guðlaugur hafi haft um 1300 fleiri atkvæði í 1. - 2. sætið heldur en Björn og verður það að teljast mjög svo sannfærandi sigur. Ég óska Guðlaugi Þór til hamingju með góðan árangur.
Niðurstaðan hlýtur að vera Birni mikil vonbrigði. Ljóst er að hann er nú ekki lengur maður númer tvö í Reykjavík, Guðlaugur er honum fremri, m.a. til helstu metorða í flokknum. Það er spurning hvort Birni er vel sætt í þessu sæti eftir allt sem á undan er gengið. Björn kennir að vísu andstæðingum flokksins um atlögu að sér, en segir líka að aðilar innan flokksins hafi unnið gegn sér. Varla getur hann átt við aðra en Geir Haarde formann og Vilhjálm Þ. borgarstjóra en Guðlaugur er handgenginn þeim báðum. Þótt yfirborðið sé slétt þá er öldugangur undir niðri og spurning hvort hann kemur ekki upp á yfirborðið fljótlega. Kannski mun Björn ekki taka sætið þegar á hólminn er komið. Eða hvort mun hann setjast fyrir aftan Geir eða Guðlaug? Hvorugur kosturinn er góður fyrir hann. Maður þarf greinilega að fara að hlera hvað er í gangi í Sjálfstæðisflokknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2006 | 13:16
Halldór nýr formaður Sambands sveitarfélaga
Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði var nú fyrir stundu kjörinn nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann tekur við starfinu af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra, sem hefur verið formaður sl. 16 ár. Kosið var milli Halldórs og Smára Geirssonar bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð og hlaut Halldór 68 atkvæði en Smári 64. Það má því segja að það hafi verið mjótt á mununum og báðir þessir sveitarstjórnarmenn njóta trausts og stuðnings í röðum í sveitarstjórnarmanna.
Nýr formaður kemur nú af landsbyggðinni, eftir að Reykvíkingur hefur setið í formannsstóli í 16 ár og er það vel við hæfi. Halldór kemur af landssvæði sem á kannski hvað mest í vök að verjast og það getur orðið Vestfjörðum styrkur að formaður sambandsins komi af því svæði. Hann hefur líka getið sér orðs sem baráttumaður fyrir stóriðjulausum Vestfjörðum og lagt áherslu á aðrar lausnir í atvinnumálum.
Ástæða er til að óska Halldóri til hamingju og velfarnaðar í vandasömum störfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2006 | 11:45
Össur og álverið...
Það er ánægjulegt að sjá að helstu talsmenn Samfylkingarinnar eru nú hver sem betur getur að skrifa sig frá stóriðjustefnunni og tala máli umhverfis- og náttúruverndar. Sérhver viðbót, í þann hóp sem vill að snúið verði frá öfgafullri stóriðjustefnu í sjálfbæra atvinnustefnu þar sem virðing er borin fyrir náttúru og umhverfi, er kærkomin. Þó er ekki hægt annað en að rifja upp ummæli Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi formanns Samfylkingarinnar og eins helsta forystumanns hennar í dag, í umræðum á Alþingi í desember 2002 þegar þessi mál voru til umfjöllunar. Þá sagði Össur: "Ég kem hingað, herra forseti, sem stjórnmálamaður sem styður Kárahnjúkavirkjun eindregið. Ég og minn flokkur erum þeirrar skoðunar að það eigi að ráðast í þá virkjun og það eigi að byggja álver við Reyðarfjörð."
Nú hefur flokkurinn að vísu skipt um formann, en Össur lætur a.m.k. sjálfur oft eins og hann sé enn formaður og fer þá mikinn. Hinn nýi formaður Samfylkingarinnar talar nú með allt öðrum hætti en áður um virkjana- og stóriðjumálin og vonandi veit það á gott. Hvort Össur hefur síðan skipt um skoðun er óljóst, og óvíst hvort hann mun fylgja formanni sínum í þessu máli frekar en öðrum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2006 | 07:58
Landspítalinn og sjónarmið Vinstri grænna
Sjónarmið okkar Vinstri grænna um að endurmeta eigi umfang og staðsetningu nýs Landspítala hefur vakið verðskuldaða athygli. Margir fjölmiðlar taka undir þetta sjónarmið og hrósa okkur fyrir hugrekki, stundum "þrátt fyrir fyrra aðkomu VG að málinu." Og mér heyrist að ýmsir úr hinum flokkunum jánki líka.
Það er mjög eðlilegt að menn staldri við á þessum tímapunkti málsins. Sannleikurinn er sá að þegar borgin fjallaði um málið á sínum tíma, var fyrst og fremst verið að taka afstöðu til þeirrar grundvallarspurningar hvort spítalinn ætii að byggjast upp við Hringbraut, í Fossvogi eða í Garðabæ. Heilbrigðisráðherra ákvað að leggja áherslu á Hringbraut og borgin féllst á það. Á þeim tíma lá ekki fyrir nein tillaga að skipulagi þannig að ómögulegt var að gera sér grein fyrir umfangi bygginganna. Síðan kom fram tillaga spítalans að rammaskipulagi svæðisins en borgin átti enga aðkomu að þeirri vinnu. Sú tillaga var kynnt fyrir skipulagsráði borgarinnar nú fyrir fáum vikum. Þá fyrst gat skipulagsráð byrjað að fjalla um málið og þá er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir myndi sér skoðun á málinu.
Það höfum við Vinstri græn gert. Við teljum ástæðu til að fara betur yfir skipulagsforsendur, meta hvernig þessi miklu mannvirki fara í landinu og í nálægðinni við smágerða byggð Þingholtanna, athuga umferðartengingar og umferðarsköpun o.fl. í þeim dúr. Þá hafa margir í heilbrigðisstétt gagnrýnt þá ofuráherslu sem er á nýja byggingu þegar ýmsir hlutar í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins eru fjársveltir, s.s. hin almenna heilsugæsla og þjónusta við aldraða.
Enda þótt lengi hafi verið beðið eftir úrbótum í húsnæðismálum Landspítala er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að skoða með opnum þær tillögur sem nú hafa verið að fæðast um skipulag svæðisins. Það er enn enginn skaði skeður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2006 | 21:05
Ósannindi ex-bjé
Nefnd ríkis og borgar, undir forystu Helga Hallgrímssonar fyrrum vegamálastjóra, hefur í samvinnu við ýmsa ráðgjafa unnið að tillögum um staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugsins. Eftir að hafa skoða fjölmarga kosti hefur nefndin staðnæmst við fjóra möguleika. Í fyrsta lagi að flugið verði áfram í Vatnsmýrinni en þó í breyttri mynd þannig að flugvallarsvæðið minnkaði og meira rými fáist til uppbyggingar. Í öðru lagi að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkur. Í þriðja lagi að nýr völlur verði byggður á Lönguskerjum og í fjórða lagi að nýr völlur verði byggður í Hólmsheiði. Ljóst er að allir þessi kostir koma til greina en þeir hafa mismunandi kosti og galla. Við í VG höfum lýst þeirri skoðun okkar að af þessum kostum teljum við Hólmsheiðarvöll ákjósanlegastan. Hann hefur þá kosti að vera tiltölulega ódýr, hann er í góðum tengslum við helstu umferðaræðar að og frá höfuðborginni, hann er aðeins í um 15 mín. aksturfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur. Lönguskerjarvöllurinn er amk. tvöfalt dýrari, þar munar í það minnsta 10 milljörðum króna!! Og svo eru umhverfismálin; það yrði augljóst umhverfisslys að demba gríðarlegum landfyllingum út í Skerjafjörðinn með brimvarnarmannvirkjum og vegtengingu yfir fjöruna.
Á kynningarfundi nefndarinnar með borgarfulltrúum og frambjóðendum var sérstaklega spurt um vatnsverndarmálið á Hólmsheiði. Kom þar skýrt fram að nefndin hefði aldrei lagt til völl á Hólmsheiði ef það ógnaði vatnsbólum höfuðborgarbúa. Nema hvað?
En það er eins og bjé-listinn sé í örvæntingu sinni eftir sæti í borgarstjórn, að lofa til hægri og vinstri og virðist telja að því dýrari sem loforðin eru, því betra. Og er reiðubúinn að kosta ótæpilegum fjármunum í auglýsingar í þeim tilgangi. Svo er bara að sjá hvort það skilar tilætluðum árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2006 | 20:06
Gallup könnun í Reykjavík
Niðurstöður Gallup könnunar fyrir aprílmánuð voru birtar nú í kvöld. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 49% og 8 menn kjörna, Samfylkingin 32% og 5-6 menn, Vinstri grænir 11% og 1-2 menn, Frjálslyndi flokkurinn 5% og engan mann og EXBÉ fengi 3% og engan mann. Raunar er 2. maður VG ofar 6. manni Samfylkingar skv. þessum tölum þannig að VG er með 2 menn og Samfylkingin 5, en það eru nú kannski ekki helstu tíðindin.
Það vekur athygli að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig 2% frá síðustu Gallup en Samfylkingin að tapa 4%. Þá eru frjálslyndir að bæta við sig 2% en VG og Framsókn standa í stað. Að íhaldið bæti við sig fylgi er sérkennilegt, þegar það er haft í huga að flokkurinn hefur verið að dala allt þetta ár, eftir að hafa mælst með yfir 50% í haust og fram á árið og jafnvel upp í 55-56%. Hvað veldur þessum viðsnúningi er ekki einfalt að sjá. Fylgistap Samfylkingar verður vart rakið til annars en ósannfærandi málflutnings og þess að frambjóðendahópurinn virðist ósamstæður og sigurviljann virðist skorta. Ef Samfylkingin ætlar að ná flugi á nýjan leik verður hún að höggva í raðir Sjálfstæðisflokksins og verður fróðlegt að sjá hvort þau átta sig á því í framhaldi af þessari könnun.
Slök útkoma Framsóknarflokksins kemur út af fyrir sig ekki á óvart. Milljónaauglýsingar flokksins virðist ekki ætla að slá í gegn nú, eins og þær gerðu þó fyrir síðustu alþingiskosningar. Enn er þó alltof snemmt að afskrifa exbé, þau munu áreiðanlega bregðast við með stórefldu auglýsingaflóði enda mikið í húfi fyrir forystu flokksins.
Frjálslyndir ná ágætri viðspyrnu í þessari könnun. Ólafur F. sýnist nær því að ná kjöri í borgarstjórn en Björn Ingi, og telur hann sig vafalaust eiga harma að hefna eftir Kastljósþáttinn í vikunni, þar sem oddvitar flokkanna leiddu saman hesta sína. Ólafur og félagar hans í Frjálslyndum geta áreiðanlega tekið meira fylgi af Sjálfstæðisflokknum og eiga tvímælalaust að beina spjótum sínum í þá átt.
Fylgið við okkur í VG stendur í stað, en þá er á það að líta að könnunin nær frá lokum mars til 25. apríl, en við kynntum kosningastefnuskrá okkar þann 28. apríl og fengum ágæta umfjöllun um hana og góð viðbrögð hvarvetna. Hún á því augsýnilega eftir að skila sér í fylgismælingu. Ennfremur lauk þessari Gallupkönnun áður en áðurnefndur Kastljósþáttur var, en óvíst er að hann hafi breytt miklu. Björn Ingi og Ólafur F. annars vegar og Dagur og Vilhjálmur hins vegar lentu í nokkuð hörðum persónulegum skylmingum en Svandís Svavarsdóttir komst sem betur fer hjá öllu slíku, var málefnaleg og rökföst.
Verður fróðlegt að sjá næstu könnun sem líklega kemur frá Félagsvísindastofnun Háskólans, og þá sennilega fyrir Morgunblaðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2006 | 17:03
Góður fundur um Reykjanesfólkvang og önnur umhverfismál
Í dag var laugardagsfundur í kosningamiðstöð Vinstri grænna í Suðurgötu undir yfirskriftinni "Náttúruborgin Reykjavík". Sérstakur gestur fundarins var Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor við KHÍ og stjórnarformaður Reykjanesfólkvangs. Auk þess fjallaði ég um stöðu umhverfismála í Reykjavík.
Fundurinn var ágætlega sóttur. Fyrst rakti ég að hverju unnið hefur verið á sviði umhverfismála á kjörtímabilinu og hvaða áætlanir væru uppi varðandi næstu ár hjá Reykjavík. Þegar ég var að taka saman efni fyrir fundinn kom mér það í raun í opna skjöldu hversu mikið hefur áunnist í umhverfismálum í borginni á undanförnum árum, en VG hefur haft forystu í þeim málaflokki í borgarstjórn á því kjörtímabili sem er á enda. Ennfremur gerði ég grein fyrir endurskoðun staðardagskrár 21, sem ber heitið "Reykjavík í mótun". Þar er að finna greinargerð um fjölmörg stefnumið í átt til sjálfbærrar þróunar og lista yfir aðgerðir. Vakti það nokkra athygli, að uppistaðan í þeim atriðum sem unnið hefur verið að á umhverfissviði í víðtæku samráði við íbúa og fjölmarga hagsmunaaðila, er samhljóða stefnumálum okkar Vinstri grænna.
Hrefna Sigurjónsdóttir fjallaði um Reykjanesfólkvang, þessa náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem því miður allt of fáir þekkja. Rakti hún á greinargóðan hátt umfang fólkvangsins, verkefni stjórnarinnar, sérkenni svæðisins m.a. í jarðfræðilegu og náttúrfarslegu tilliti. Kom fram hjá henni að tilgangurinn með stofnun og friðlýsingu Reykjanesfólkvangs fyrir um 30 árum var að taka frá land þar sem höfuðborgarbúar gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Svæðið býður upp á fjölmarga möguleika en að því steðja líka ógnir. Orkuöflunar- og virkjunarfyrirtæki vilja gjarnan hasla sér völl innan fólkvangsins, m.a. með borunum í Brennisteinsfjöllum, en við því verður að sporna. Hefur umhverfisráð Reykjavíkur raunar ályktað til stuðnings stjórn fólkvangsins. Um langt skeið hefur stjórn fólkvangsins fremur haldið að sér höndum og ekki haft mikið frumkvæði en það hefur breyst á þessu kjörtímabili, undir stjórn Hrefnu Sigurjónsdóttur sem á heiður skilið fyrir vel unnin störf.
Er full ástæða til að efna til kynnisferðar um fólkvanginn og hefur VG í Reykjavík í hyggju að gera það nú í maímánuði. Verður það vonandi til að auka þekkingu og skilning á mikilvægi Reykjanesfólkvangs. Verkefnið á næsta kjörtímabili er að efla fólkvanginn enn frekar, marka honum skýra stefnu og ráða landvörð til að annast um starfsemina þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2006 | 20:11
Stefnumálin kynnt - sterk málefnastaða og öflugur listi
Frambjóðendur V-listans, Vinstri grænna í Reykjavík, kynntu stefnumál sín fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í dag. Borgin skartaði sínu fegursta á þessum heitasta degi vorsins, þar sem víða féllu áratuga hitamet.
Við buðum fréttamönnum að koma í ökuferð um borgina í strætisvagni sem er sérstaklega merktur VG og ókum hring um Vesturbæinn, eftir Sæbraut í Ártúnsholt, þaðan um Breiðholtið og eftir Bústaðavegi í Öskjuhlíð. Á leiðinni kynntum við frambjóðendur helstu málefni: Svandís Svavarsdóttir (1. sæti) kynnti sín okkar á samfélag í Reykjavík, ég (2. sæti) kynnti orkuborgina Reykjavík, Þorleifur Gunnlaugsson (3. sæti) kynnti náttúruborgina Reykjavík, Sóley Tómasdóttir (4. sæti) kynnti kynjaborgina Reykjavík og Hermann Valsson (5. sæti) kynnti barnaborgina Reykjavík. Í Öskjuhlíð var stoppað og þar gerði ég grein fyrir helstu stefnuatriðum í skipulagsmálum. Svandís rammaði svo fréttamannafundinn inn með því að tala um það sem aðallega greinir okkur frá hinum flokkunum. Nánar verður greint frá því á heimasíðu framboðsins: www.xv.is og einnig á heimasíðum okkar Svandísar: www.svandis.is og www.arnithor.is
Það var táknrænt fyrir VG að halda fréttamannafundinn í strætó og undirstrikaði áherslu okkar á þann málaflokk. Fjölmiðlar mættu vel og gerðu stefumálum okkar ágæt skil í útvarpi og sjónvarpi í kvöld. Vonandi verður umfjöllun prentmiðlanna góð á morgun. Verður ekki annað sagt að málflutningi okkar hafi verið tekið vel, bæði af fjölmiðlafólki, en einnig hvarvetna þar sem við höfum komið og kynnt okkar sjónarmið.
Þá hefur Svandís Svavarsdóttir, oddviti okkar, staðið sig með stakri prýði í umræðum, m.a. í Kastljósi í gærkvöldi. Sýndi hún þar að það er margt sem greinir VG frá hinum flokkunum, bæði í stefnumálum, en einnig í framkomu og allri nálgun. Var hún t.d. eini oddvitinn sem féll ekki í karpgryfjuna. Einnig er það styrkur hennar og VG að hún er eina konan sem leiðir framboðslista í Reykjavík í vor og má það undun sæta árið 2006 að við séum ekki komin lengra í jafnréttismálum. Enda var það svo að stjórnandi þáttarins virtist alls ekki átta sig á því þegar hann ávarpaði viðmælendur sína "herrar mínir". Er full ástæða fyrir RÚV til að hugleiða það vel hvernig uppstillingin verður að þessu leyti í lokaumræðum oddvitanna, kvöldið fyrir kjördag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 07:46
Ummæli mín um ummæli Alfreðs
Í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum var viðtal við Alfreð Þorsteinsson, núverandi oddvita Framsóknarflokksins (ex-bjé) í borgarstjórn. Þar upplýsti hann að meirihluti R-listans hafi hangið á bláþræði í desember 2002 þegar Ingibjörg Sólrún og Össur ákváðu að hin fyrrnefnda skyldi fara í framboð fyrir Samfylkinguna í alþingiskosningum. Jafnframt sagði hann frá því að Framsóknarflokkurinn hafi þá verið kominn í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýs meirihluta. Þegar Blaðið leitaði álits hjá mér á þessum ummælum sagði ég að okkur hinum í borgarstjórnarflokki R-listans hefði verið kunnugt um viðræðurnar en að ég áttaði mig ekki á því hvaða tilgangi það þjónaði að rifja það upp nú.
Þessi ummæli mín fara fyrir brjóstið á blaðamanni Fréttablaðsins sem skrifar um þau á bls. 12 í blaðinu í dag. Segir hann þetta dæmigerða afstöðu stjórnmálamanna að vilja ekki ræða málin heldur láta það sem gerist að tjaldabaki liggja í kyrrþey.
Nú finnst mér út af fyrir sig að blaðamaðurinn dragi allt of víðtækar ályktanir af því sem ég sagði um málið. Hefði ekki verið nær að Framsóknarflokkurinn hefði upplýst um viðræður sínar við Sjálfstæðisflokkinn þegar þær áttu sér stað? Átti almenningur ekki rétt á því að fá fregnir af þeim á þeim tímapunkti? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að umræðan sé mjög af hinu góða og ef skilja mátti ummæli mín í Blaðinu á þann hátt sem blaðamaður Fréttablaðsins gerir þá er ég eiginlega sammála honum um niðurstöðuna. Fyrir mér vakti aðallega að vekja athygli á því að tímasetningin á þessari "uppljóstrun" er umhugsunarverð. Nema tilgangurinn sé kannski einfaldlega sá að gefa kjósendum til kynna að Framsóknarflokkurinn sé að búa sig undir meirihutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þannig að við fáum núverandi ríkisstjórnarmynstur í borgarstjórn Reykjavíkur eftir kosningar.
Önnur ummæli Alfreðs voru þau að það hafi verið Vinstri grænir sem ákváðu að halda ekki áfram R-listasamstarfinu. Sannleikurinn er sá að Vinstri grænir höfðu kjark og þor til að segja það sem allir hugsuðu, bæði Samfylkingarmenn og Framsóknarmenn. Nefnilega að forsendurnar fyrir áframhaldandi sameiginlegu framboði væru ekki lengur til staðar, rótina að því má svo finna í viðtalinu við Alfreð. Svo getur vel verið að það þjóni pólitískum hagsmunum einhverra að geta "kennt" VG um. Við tökum það ekki nærri okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)