15.1.2008 | 15:36
Geir í bullandi vörn
Í upphafi þingfundar í dag, í óundirbúnum fyrirspurnartíma, tók ég upp umdeildar stöðuveitingar að undanförnu, einkum skipan héraðsdómara, og beindi þeirri spurningu til forsætisráðherra hvort hann teldi þær eðlilegar og hvort ráðherrar hefðu ótakmarkaðar heimildir til að valta yfir álit hæfnisnefnda. Forsætisráðherra, Geir Haarde, telur bersýnilega að hér sé ekkert athugunarvert á ferðinni, en var þó í bullandi vörn.
Fyrirspurn mín var á þessa leið:
Vandi fylgir vegsemd hverri, og því hærra í metorðastiga samfélagsins sem menn komast, því vandmeðfarnari verður sú ábyrgð og þær skyldur sem hvíla á handhöfum æðstu embætta. Á undanförnum dögum og vikum hafa orðið háværar umræður í samfélaginu um þrjár tilteknar embættisveitingar tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, sem allar eru bersýnilega umdeildar og hafa kallað á sérstakan rökstuðning. Þær hljóta einnig, einkum skipan héraðsdómara, að vekja upp spurningar um meðferð ráðherravalds. Þótt ráðherra séu sannarlega falin margvísleg verkefni að lögum, þá er vald þeirra ekki takmarkalaust og má aldrei vera háð geðþótta þeirra sem ráðherradómi gegna eins og við höfum því miður nýlega horft upp á. Þvert á móti verður meðferð ráðherravalds að standast stjórnsýslulög, samrýmast góðum stjórnsýsluháttum og lýðræðislegum vinnubrögðum og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og virðingu fyrir réttarríkinu og kjarna þess, nefnilega þrískiptingu ríkisvaldsins.Í grein í Fréttablaðinu í dag segir prófessor Sigurður Líndal um embættisveitingu setts dómsmálaráðherra með leyfi forseta: Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930. Þetta eru stór orð og þung en hvert mannsbarn sér að hinn virti fræðimaður hefur lög að mæla.
Má í þessu efni minna á ákvæði 10. gr. laga um ráðherraábyrgð þar sem segir með leyfi forseta: Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.Ég tel því mikilvægt að heyra álit hæstvirts forsætisráðherra á þeim umdeildu embættisveitingum sem átt hafa sér stað að undanförnu og hvort hann telji að eðlilega hafi verið staðið að málum og hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir rökstutt álit þar til bærrar hæfnisnefndar? Ennfremur spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir að það verði ekki liðið að ráðherrar í hans ríkisstjórn misbeiti valdi sínu og þeir sem það geri verði að axla pólitíska ábyrgð?
![]() |
Embættisveitingar innan marka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |