Geir í bullandi vörn

Í upphafi þingfundar í dag, í óundirbúnum fyrirspurnartíma, tók ég upp umdeildar stöðuveitingar að undanförnu, einkum skipan héraðsdómara, og beindi þeirri spurningu til forsætisráðherra hvort hann teldi þær eðlilegar og hvort ráðherrar hefðu ótakmarkaðar heimildir til að valta yfir álit hæfnisnefnda.  Forsætisráðherra, Geir Haarde, telur bersýnilega að hér sé ekkert athugunarvert á ferðinni, en var þó í bullandi vörn.

Fyrirspurn mín var á þessa leið:

Vandi fylgir vegsemd hverri, og því hærra í metorðastiga samfélagsins sem menn komast, því vandmeðfarnari verður sú ábyrgð og þær skyldur sem hvíla á handhöfum æðstu embætta.  Á undanförnum dögum og vikum hafa orðið háværar umræður í samfélaginu um þrjár tilteknar embættisveitingar tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, sem allar eru bersýnilega umdeildar og hafa kallað á sérstakan rökstuðning.  Þær hljóta einnig, einkum skipan héraðsdómara, að vekja upp spurningar um meðferð ráðherravalds. Þótt ráðherra séu sannarlega falin margvísleg verkefni að lögum, þá er vald þeirra ekki takmarkalaust og má aldrei vera háð geðþótta þeirra sem ráðherradómi gegna eins og við höfum því miður nýlega horft upp á.  Þvert á móti verður meðferð ráðherravalds að standast stjórnsýslulög, samrýmast góðum stjórnsýsluháttum og lýðræðislegum vinnubrögðum og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og virðingu fyrir réttarríkinu og kjarna þess, nefnilega þrískiptingu ríkisvaldsins. 

Í grein í Fréttablaðinu í dag segir prófessor Sigurður Líndal um embættisveitingu setts dómsmálaráðherra með leyfi forseta: „Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er.  Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja.  Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930“.  Þetta eru stór orð og þung en hvert mannsbarn sér að hinn virti fræðimaður hefur lög að mæla.

 Má í þessu efni minna á ákvæði 10. gr. laga um ráðherraábyrgð þar sem segir með leyfi forseta:  Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum … ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“ 

Ég tel því mikilvægt að heyra álit hæstvirts forsætisráðherra á þeim umdeildu embættisveitingum sem átt hafa sér stað að undanförnu og hvort hann telji að eðlilega hafi verið staðið að málum og hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir rökstutt álit þar til bærrar hæfnisnefndar?  Ennfremur spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir að það verði ekki liðið að ráðherrar í hans ríkisstjórn misbeiti valdi sínu og þeir sem það geri verði að axla pólitíska ábyrgð?

Það blasir við að pólitískt vald er meðhöndlað eins og það sé eign viðkomandi ráðherra eða stjórnmálaflokks og því séu lítil takmörk sett.  Þannig svaraði forsætisráðherra ekki þeirri spurningu hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir álit hæfnisnefnda en varði ráðherra með því að segja að ábyrgðin væri ráðherrans og hann hefði sjálfur lent í þessari stöðu oftar en einu sinni.  Og svo vék hann sérstaklega að grein prófessors Sigurðar Líndal og taldi hana honum til minnkunar.  Það er hans mál.  En hitt er víst að almenningur í landinu hristir hausinn yfir framferði ráðamanna.  Því miður er fátt sem bendir til að einhverra breytinga sé að vænta á næstunni. 
mbl.is Embættisveitingar innan marka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Nú er fólk búið að fá nóg

Hólmdís Hjartardóttir, 15.1.2008 kl. 15:44

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ein hliðin á þessu máli er sú að þegar opinber störf eru auglýst, þá þarf mjög þungvæg og málefnaleg rök að ganga þvert á niðurstöðu stjórnskipaðrar nefndar sem á að yfirfara umsóknir.

Þeir sem gengið er framhjá, eiga þeir að líta á höfnunina sem ærumeiðingu eða vanmat á fyrri störf? Meðal umsækjenda voru valinkunnir einstaklingar sem staðið hafa sig mjög vel í starfi, sumir með mjög mikla reynslu og þekkingu. En ættartengsl við valdsmenn hafa þeir annað hvort lítil eða engin. Hver eru skilaboðin til þessara umsækjenda? Var ekki eins gott að fremja lögbrot og auglýsa ekki stöðuna eins og gert var á sínum tíma þegar staða seðlabankastjóra losnaði? Sú staða var aldrei auglýst hvorki pro forma né á annan hátt. Sá umdeildi og valdaglaði fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins skipaði einfaldlega sjálfan sig í þetta eftirsótta embætti! Flott að hann missti bæði af kommúnistmanum og nasistmanum. Þar hefði hann ábyggilega getað verið eftirsóttur starfskraftur.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.1.2008 kl. 16:21

3 Smámynd: Árni Helgi Gunnlaugsson

Vonbrigði mín beinast mest að Samfylkingunni.  Að ætla að láta þetta viðgangast er alveg með ólíkindum, svona miðað við hvernig talað var fyrir kosningar.  En hvernig er það með formann VG?  Ekki hef ég heyrt gagnrýni frá honum.  Ekki heldur frá Guðna Á, ef út í það er farið.  Eru þessir menn að bíða eftir að stjórnarsamstarfið springi, svo hægt sé að koma sér í mjúkinn hjá "ofsatrúarliðinu" í Valhöll?

Árni Helgi Gunnlaugsson, 15.1.2008 kl. 17:31

4 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Árni, það þarf einfaldlega að breyta reglum eða lögum um skipun dómara og fleiri háttsettra embættismanna ríkisins þannig að ráðherra geti ekki hundsað álit fagnefndar og þótts vita betur. Þetta dæmi sýnir einfaldlega að ráðherra getur komist upp með að fara eftir eigin geðþótta, gegn anda laganna og tilgangi þeirra. Komið síðan með málamyndarökstuðning fyrir ákvörðun sinni og að síðustu hundsað álit umboðsmanns Alþingis þegar þar að kemur. Sagan sýnir að svonalagað mun endurtaka sig meðan menn komast upp með það.



Það sem gerðist í Þýskalandi 1933 og Sigurður Líndal vitnar í, var auðvitað stórslys sem aldrei hefði átt að geta gerast, en þar í landi hafa menn hafa menn lært af reynslunni og girt fyrir með lögum að slíkt geti endurtekið sig. Það sama þarf að eiga sér stað hjá okkur í málaflokkum þar sem valdi hefur ítrekað verið misbeitt.



 

Helgi Viðar Hilmarsson, 15.1.2008 kl. 20:23

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður bent á það í bloggpistli mínum að um áratugaskeið voru allir sýslumenn og bæjarfógetar landsins, sem höfðu pólitískan lit, annað hvort sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn. Á sama tíma féll dómsmálaráðuneytið í skaut þessara flokka.

Þetta átti að heita "tilviljun" og bent á hvað allir þessir menn gegndu embættunum vel.

Nær hefði verið að hafa þetta eins og í Sovétríkjunum sálugu, þar sem aðeins félagar í Kommúnistaflokknum gátu fengið embætti. Þar var þetta þó "gegnsætt" og hreint og þurfti ekki að velkjast í vafa. Og allir voru jafnir fyrir lögunum, því að allir höfðu jafnan rétt til að verða félagar í flokknum og styðja stefnu hans. Og allir gegndu embættunum vel. 

Ég benti á þá "tilviljun" að í þremur mannaráðningum á Veðurstofunni á sínum tíma réði framsóknarráðherra fyrst frambjóðanda og bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins og gekk fram hjá allaballa, síðan réði allballaráðherra allaballann og loks réði krataráðherra frambjóðanda krata!

Einskær tilviljun enda er veðrið ekki pólitískt!  

Ómar Ragnarsson, 15.1.2008 kl. 20:44

6 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Til umhugsunar:

Í aðalgrein nýjasta heftis þýska tímaritsins “Der Spiegel” sem ber yfirskriftina “Triumph des Wahns”, er einmitt fjallað um valdatöku Nasista og þeirri spurningu velt upp hvernig þetta gat gerst. Einn stærsti þátturinn í því, sem hingað til hefur lítið verið haldið á lofti, var sú að margir valdamiklir menn í Þýskalandi voru ekkert sérstaklega hrifnir af lýðræði og sáu enga sérstaka ástæðu til að verja það og því fór sem fór.

Helgi Viðar Hilmarsson, 15.1.2008 kl. 20:54

7 Smámynd: Gísli Guðmundsson

Þessi ráðningamál fær mann til að hugsa, er nú ekki kominn langt en staldra við spurninguna: Er hægt að vera ópólutískur á Íslandi? Annað: Ef maður er vinur, ættingi pólutísks ráðamanns á þessu littla landi getur maður þá verið eitthvað út á eigin verðleika?

 Þekki til aðila sem hafa verið ákaflega dugleg út á eigin verðleika en af því þau voru í kynnum við ráðamann sem þau pössuðu sig mjög á að "nýta" ekki, þá var þó alltaf viðkvæðið meðal almennings; Það er ekki nema von þeim gangi svona vel, þau þekkja #####, sá aðili hjálpar þeim.

 Svo langt gekk þetta að þau fóru eins mikið til hlés og hægt var sem er synd og skömm en svona er þetta stundum þegar menn gleyma sér í samsæriskenningum og það komu tímabil þar sem þau voru að kikna og sögðu stundum að það væri réttast að hætta og bara þiggja styrk frá ríki........það væri auðveldar fyrir geðið.

Gísli Guðmundsson, 15.1.2008 kl. 21:09

8 Smámynd: Árni Helgi Gunnlaugsson

Gísli Guðmundsson:  Í umræðu um þessa dómararáðningu, hefur enginn verið að setja út á persónu Þorsteins Davíðssonar, heldur út á embættisverk Árna Matthiesen, þriggja tíma dómsmálaráðherra.

Ef Þorsteinn hefði verið jafnhæfur og hinir þrír umsækjendurnir, þá hefðu fáir sett út á ráðninguna.  Svo var hinsvegar ekki raunin.  Ef Þorsteinn Davíðsson ætlar að komast áfram á eigin verðleikum, þá er eina raunhæfa í stöðunni fyrir hann að þiggja ekki starfið núna, heldur sækja um síðar, þegar hann verður talinn hæfari.  Að öðrum kosti verður aldrei litið á hann sem manns eigin verðleika.

Árni Helgi Gunnlaugsson, 15.1.2008 kl. 21:56

9 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þú stóðst þig afar vel í umræðunum í dag Árni. Geir veit upp á sig skömmina og þess vegna varð hann þess vegna svona reiður. Það fer honum annars ekki sérstaklega vel. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 15.1.2008 kl. 22:20

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég tek eftir því sama og Hlynur. Þegar Geir er rökþrota gagnvart spillingarmálunum leikur hann hlutverk hins reiða og sára leiðtoga. Talar um að málflutningur sé einhverjum til "minnkunar" og verið sé að "rífa niður gott starf" og þess háttar. Nú þarf Geir að skipta um orðfæri því við erum farin að sjá í gegnum þetta hjá honum.

Þorgerður Katrín er hins vegar örugglega "ljóskan í menntamálaráðuneytinu" með ummælunum: "Það er óþolandi að menn þurfi að gjalda þess að hvers synir þeir eru." - Þorgerður gleymdi því að í þessu tilviki var Þorsteinn Davíðsson ekki að gjalda neins heldur græða. Mismælti konan sig eða er hún bara ljóshærð

Það er kominn tími til að sá flokkur sem ég kaus allt þar til síðasta vor fái að hverfa. Hann er svo gegnsýrður í leiðinda- og spillingarmálum að þetta hefur orðið langvarandi vond áhrif á þjóðlífið. Árni Mathiesen er að aðstoða eiginmann menntamálaráðherrans, bróður sinn  og annarra flokksgæðinga að stela fasteignunum á varnarsvæðinu. Það mál ætlar að deyja í þögninni. Þessu er stolið vegna þess að fyrri eigandi greiddi með þeim hreinsunar- og mengunarskuldir sínar. Þær eru samt fullgildar eignir sem voru vel byggðar á sínum tíma.

Ég mæli með því, Árni, að þessu mesta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar verði vel viðhaldið inni á þessu þingi. 

Haukur Nikulásson, 15.1.2008 kl. 23:17

11 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Frábært að vekja til máls á þessu í byrjun Alþingis, Árni! Ég hef nú líka haft það álit á Geir Haarde lengi að hann sitji mestallan daginn í fílabeinsturninum sínum nema þegar potað er svona óþægilega í hann og hans elítu eins og þú gerðir. Þá kemur hann, kallar það sem er gegn sér "vitleysu" og "ömurlegt" og hleypur aftur inní hlýju afskiptaleysins. Ótrúlegt að þessi maður sé forsætisráðherra!

Ísleifur Egill Hjaltason, 16.1.2008 kl. 00:45

12 Smámynd: Þórbergur Torfason

Áfram með smjörið Árni.

Þórbergur Torfason, 16.1.2008 kl. 01:16

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Tek undir að þú stóðst þig frábærlega Árni!

Nú hefur upphaf Þriðja ríkisins í Þýskalandi borið á góma. Mætti benda á mjög vel ritaða grein um þetta efni á íslensku: „Fjörbrot lýðræðis: svipmyndir frá endalokum Weimarlýðveldis“ eftir Einar Laxness sagnfræðing. Grein þessi er á bls.77-111 í ritinu: Söguslóðir afmælisrit helguðu Ólafi Hanssyni sjötugum. Það kom út að forlagi Sögufélags 1979.

Á þysku hefur eðlilega gríðarlega mikið verið ritað um þessi mál. Sebastian Haffner var landflótta Þjóðverji sem settist að í Lundúnum. Hann skrifaði mikið í sunnudagsútgáfur breskra blaða undir þessu tilbúna nafni og var einn helsti samstarfsmaður bresku leyniþjónustunnar á stríðsárunum. Eftir stríð skrifaði hann mjög mikið um þýska sögu og  dró ekkert undan en hann var mjög vel menntaður og víðsýnn. Annar yngri höfundur er Bengt Engelmann en hann starfaði töluvert með Günter Wallraff sem blaðamaður. Eftir Engelmann eru allmörg rit frá þessum tímum og rekur hann mjög efnahagslegar forsendur Þriðja ríkisins, hversu stóriðjan, stríðsframleiðslan, vinnuþrælkunin og nauðungarflutningarnir voru einkennandi þáttur í þessari mannvonsku. Það eru ekki allir sem þekkja þá sögu en Gyðingarnir voru fyrst gjarnan sendir í nauðungarvinnu áður en þeir voru sendir í þessar skelfilegu útrýmingarbúðir. Þær voru endastöðin þegar ekki var unnt að nýta þá sem ókeypis vinnuafl. Rit Bengt Engelmanns eru mjög aðgengileg, rituð á fremur þægilegri þýsku sem venjulegur íslenskur lesandi sæmilega stautfær á þá tungu ætti að geta lesið sér til gagns og fróðleiks.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.1.2008 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband