22.1.2008 | 20:16
Brjóstumkennanlegt bull
Það er dapurlegt að horfa upp á meirihlutaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur. Sjálfstæðisflokkurinn leggst lægra en dæmi eru um í íslenskri pólitík með því að seilast inn í starfandi meirihluta og kaupa veikasta hlekkinn með borgarstjórastólnum. Með því er leikið á lægstu hvatir og persónulegan harmleik og það er auvirðilegt og átakanlegt að fylgjast með.
Nýr borgarstjóri hefur bersýnilega sagt félögum sínum í fyrri meirihluta ósatt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og afneitaði nýjum meirihluta. Hann hefur líka sagt sjálfstæðismönnum ósatt um stuðning varamanns síns, við hana hafði hann ekki einu sinni talað. Hver getur borið traust til slíks borgarstjóra?
Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að atburðirnir hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið frekar en meirihlutaskiptin í haust. Hér er þó tvennu ólíku saman að jafna. Þá slitnaði upp úr samstarfi tveggja flokka vegna ágreinings um eitt stærsta deilumál í reykvískri pólitík og vegna innbyrðis trúnaðarbrests í röðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Nú gerist það að Sjálfstæðisflokkurinn er svo illa haldinn af valdaleysinu í borginni og örvæntingarfullur að hann ræðst inn í raðir starfandi meirihluta og kaupir sér aðild að meirihluta eins og ég sagði hér að ofan. Formaður Sjálfstæðisflokksins var að sjálfsögðu hafður með í ráðum og vissi mætavel um atburðarásina, var sem sagt með rýtinginn á lofti gagnvart formanni Samfylkingarinnar og einum nánasta trúnaðarmanni hennar, Degi B. Eggertssyni, væntanlega til að hefna fyrir ófarirnar í eigin herbúðum sl. haust.
Samfylkingunni stjórna engar geðluðrur Ég trúi því að þessari atlögu verði svarað. Koma tímar og koma ráð.
![]() |
Engin áhrif á stjórnarsamstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2008 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)