26.1.2008 | 21:53
Um hvað snýst þá málefnasamningurinn?
Morgunblaðið, málgagn hins nýja meirhihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um atburði liðinnar viku og m.a. gert mikið úr því að núverandi meirihlutaflokkar hafi komið sér saman um málefnasamning, sem sé meira en fráfarandi meirihluti hafi gert.
Þetta er náttúrulega hálf broslegt þegar maður les þessa frétt á mbl. is um fund sjálfstæðismanna í Reykjavík þar sem bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýstu þeirri skoðun sinni að íbúabyggð ætti að reisa í Vatnsmýri og þar með að flugvöllurinn eigi að víkja. Í hinum víðfræga málefnasamningi D- og F-lista í borgarstjórn er efsta mál á dagskrá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Það var enda kosningaloforð Ólafs F. Magnússonar en listi hans fékk um 10% atkvæða. Allir hinir listarnir boðuðu að flugvöllurinn myndi víkja og íbúabyggð rísa í Vatnsmýri. Þau viðhorf hlutu um 90% atkvæða.
En væntanlega þykir Morgunblaðinu og skríbentum þess allt í himna lagi að meirihlutinn styðjist við málefnasamning enda þótt flestir borgarfulltrúar séu andvígir einu mikilvægasta skipulagsmáli hans, og haninn hafi ekki galað þrisvar þegar tveir af helstu forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafi afneitað honum.
Tilgangurinn helgar bersýnilega meðalið - sem Hönnu Birnu og Gísla Marteini svelgist á!
![]() |
Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |