17.2.2009 | 21:46
Varnarmálastofnun óþörf
Á þessum nefnda fundi um málefni Norðurslóða fjallaði ég um þessi mál undir heitinu "Norræn samvinna - nýtt upphaf." Þar kom ég m.a. inn á Varnarmálastofnunina og sagði þar m.a.:
Það er rétt að undirstrika strax að um loftrýmisgæsluna almennt var pólitískur ágreiningur og hann er enn til staðar. Vel kann að vera að í hugum ýmissa sé geðþekkara að Norðurlöndin taki að sér þessa loftrýmisgæslu fremur en ýmis önnur ríki, og skemmst er að minnast að að ekki þótti heppilegt að Bretar kæmu hingað á aðventunni í kjölfar hryðjuverkalaganna sem þeir beittu okkur. En grundvallaratriði í þessu efni er samt hvort gæsla af þessum toga hefur yfirleitt einhvern tilgang. Mín afstaða í því efni hefur ekki breyst. Ég tel að það séu engar haldbærar forsendur fyrir loftrýmisgæslunni og þær byggja sannarlega ekki á sjálfstæðu íslensku hagsmunamati, enda liggur slíkt ekki fyrir. Ég tel að það hafi verið beinlínis rangt að taka ákvörðun um þær æfingar á sínum tíma og bíða ekki eftir þeirri vinnu sem var sett af stað af hálfu stjórnvalda til að meta áhættu og greina þörf okkar fyrir starfsemi af þessum toga. Sú vinna mun þó vonandi fljótlega líta dagsins ljós. Í meginatriðum er ég þeirrar skoðunar að það eftirlit með loftrými sem við teljum nauðsynlegt eigi að vera í höndum stofnana eins og Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslu og stofnun Varnarmálastofnunar hafi verið óþörf. Þá ákvörðun á hiklaust að endurmeta. Efnahagshrunið og þrotið kallar á mikinn niðurskurð og það er fráleitt annað en að varnarmálin verði hluti af því dæmi og raunar miklu fremur en margir aðrir málaflokkar.
![]() |
Varnarmálastofnun leifar af liðnum tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |