Eftirlaunalögin verði afnumin

Á Alþingi er nú til umfjöllunar frumvarp ríkisstjórnarinnar um að afnema hin umdeildu eftirlaunalög, sem tryggja ráðherrum, þingmönnum og hæstaréttardómurum sérstök vildareftirlaun.  Það eru Vinstri græn og Samfylkingin sem leggja málið fram.

Óþarft er að rekja þær miklu deilur sem urðu um ný eftirlaunalög sem samþykkt voru árið 2003. Þegar fyrrverandi ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, gerði breytingar á lögunum nú í desember, voru þeim hópum sem lögin ná til áfram tryggð ákveðin sérkjör, einkum á það við um ráðherra og hæstaréttardómara en síður um almenna þingmenn.  Engu að síður á að taka skrefið til fulls og samræma lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og dómara við það sem almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Frumvarpið sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir að gildandi sérlög verði afnumin og reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gildi að öllu leyti um ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara.  Verði það samþykkt munu engin sérkjör verða í gildi fyrir þessa hópa.  Þar sem ríkisstjórnin er minnihlutastjórn er ekki vitað fyrirfram um stuðning annarra flokka við málið en fróðlegt verður að fylgjast með afstöðu þeirra við endanlega afgreiðslu þess.


Bloggfærslur 24. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband