Eftirlaunalögin verði afnumin

Á Alþingi er nú til umfjöllunar frumvarp ríkisstjórnarinnar um að afnema hin umdeildu eftirlaunalög, sem tryggja ráðherrum, þingmönnum og hæstaréttardómurum sérstök vildareftirlaun.  Það eru Vinstri græn og Samfylkingin sem leggja málið fram.

Óþarft er að rekja þær miklu deilur sem urðu um ný eftirlaunalög sem samþykkt voru árið 2003. Þegar fyrrverandi ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, gerði breytingar á lögunum nú í desember, voru þeim hópum sem lögin ná til áfram tryggð ákveðin sérkjör, einkum á það við um ráðherra og hæstaréttardómara en síður um almenna þingmenn.  Engu að síður á að taka skrefið til fulls og samræma lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og dómara við það sem almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Frumvarpið sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir að gildandi sérlög verði afnumin og reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gildi að öllu leyti um ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara.  Verði það samþykkt munu engin sérkjör verða í gildi fyrir þessa hópa.  Þar sem ríkisstjórnin er minnihlutastjórn er ekki vitað fyrirfram um stuðning annarra flokka við málið en fróðlegt verður að fylgjast með afstöðu þeirra við endanlega afgreiðslu þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdemar K.T. Ásgeirsson

Flott mál, tími kominn til.

Gáið að ykkur, þið sem standið að nýrri ríkisstj.

Ef þið náið ekki betur til alþýðunnar núna á næstu vikum, er draumurinn um betra Ísland búinn.

Valdemar Ásgeirsson, Auðkúlu...LÍF OG LAND.

Valdemar K.T. Ásgeirsson, 24.2.2009 kl. 10:07

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Framtakið er lofsvert. Í dag er brýnast að ná sátt um framkvæmd endurreisnar í efnahagslífi og því sem snýr að afkomu þjóðarinnar. Ekki síður er mikilvægt að þjóðin finni að í Alþingishúsinu sitji meirihluti þingmanna sem er einbeittur um að koma fram umbótum og réttlæti í stjórnsýslu sem og í lífsafkomu þjóðarinnar.

Eftirlaunafrumvarp, Seðlabankafrumvarp, rannsókn á fjáraustri í einstökum ráðuneytum og einföldun í ríkisrekstri (gegnsæ stjórnun) eru skref sem einfaldlega verður að taka. Hvort sem fyrrum ríkisstjórn líkar betur eða verr, þá eru þetta óumræðanlega mikilvægar stjórnarathafnir sem meðal annars miða að hinu ofanskrifaða en einnig að ná sátt í landinu.

Óska ríkisstjórninni heilla. Líklega verðið þið að kaupa helling af nýjum ljósaperum því dimmt er í mögum skotum ráðuneytanna, og þar hefur ekki átt aðvera lesbjart í áratugi.

Baldur Gautur Baldursson, 24.2.2009 kl. 10:37

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

sjáum hvað setur

Jón Snæbjörnsson, 24.2.2009 kl. 12:54

4 Smámynd: Benedikt Kaster Sigurðsson

Hvernig stendur á því að þessi lög voru ekki leiðrétt að fullu við síðustu tilraun?  Allir stjórnmálaflokkar sögðu fyrir síðustu kosningar að það yrði gert.  Er fólk í þessum flokkum að leggja fram þetta frumvarp sem stutt hefur það hingað til að einhverju leyti??  Ekki slá sig til riddara nema þú getir haldið á sverði..

Kveðja Benni

Benedikt Kaster Sigurðsson, 25.2.2009 kl. 01:33

5 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Vinstri græn lögðu til í haust að eftirlaunalögin yrðu afnumin og lífeyrir ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara yrði hinn sami og starfsmanna ríkisins.  Sú tillaga var þá felld af þáverandi stjórnarmeirihluta.  Nú er sambærilegt mál lagt fram sem stjórnarfrumvarp og vonandi nýtur það nú stuðnings annarra flokka, alla vega Framsóknar og Frjálslyndra.  Það mun þó koma í ljós.

Árni Þór Sigurðsson, 25.2.2009 kl. 08:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband