14.3.2007 | 16:25
Aumkunarvert upphlaup Guðjóns Ólafs
Þingmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson, hefur nú í þrígang ráðist til atlögu að Vinstri grænum og reynt að telja þjóðinni trú um að flokkurinn sé ekki trúverðugur í umhverfismálum og hafi stutt hverja stóriðjuna á fætur annarri. Þessi málflutningur er aumkunarverður og þjóðin sér í gegnum hann.
Sannleikurinn er sá að nú er farið að fara um stjórnarflokkana, þegar innan við tveir mánuðir eru til kosninga og margt bendir til að dagar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu senn taldir. Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri kemur fram að stjórnarandstaðan nýtur meiri stuðnings en ríkisstjórnin og verði það úrslit kosninganna eru það um leið skýr skilaboð frá kjósendum um nýja stjórnarstefnu.
Þegar kannaður er stuðningur við forystumenn stjórnmálaflokkanna kemur ítrekað fram að formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, nýtur mikils trausts og stuðnings. Þetta fer fyrir brjóstið á þingmönnum stjórnarliðsins og augljóst að þeir vildu helst að hann væri hvergi nálægur í íslenskum stjórnmálum. En í staðinn fyrir að vera með ómálefnalegar og útíbláinn dylgjur væri nær að takast á um þau málefni sem hvað mest ríður á á næstunni. Velferðarmálin og kjör aldraðra og öryrkja, umhverfismálin og sjálfbær atvinnu- og orkustefna, raunverulegt jafnrétti kynjanna, sjálfstæð utanríkisstefna sem byggir á íslenskum hagsmunum, og síðast en ekki síst ábyrg efnahagsstefna sem tekur á misréttinu í skattamálum, gegndarlausum viðskiptahalla og ofurháum vöxtum og kemur á jafnvægi og stöðugleika í ríkisbúskapnum á nýjan leik.
Þetta eru mikilvæg málefni sem við Vinstri græn viljum beita okkur fyrir og ræða um í aðdraganda þingkosninganna 12. maí nk. Kjósendum er mest virðing sýnd með slíkum málefnalegum umræðum en ekki aumkunarverðu upphlaupi í þingsölum eins og það sem Guðjón Ólafur hefur staðið fyrir ítrekað.
Ný ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar þarf að takast á við öll þessi viðfangsefni og mörg fleiri. Sá stuðningur sem stjórnarandstaðan hefur mælst með í könnunum að undanförnu er vísbending um að næsta ríkisstjórn verði róttæk velferðarstjórn sem er reiðubúin til að beita sér fyrir tímabærum breytingum í íslensku samfélagi. Upphlaup stjórnarliðanna í þinginu bendir hins vegar til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætli að læsa sig saman og berjast með kjafti og klóm fyrir áframhaldandi völdum. Því er nú enn mikilvægara en áður að Vinstri græn, Samfylking og Frjálslyndir stilli saman strengi og beini spjótum sínum að ríkisstjórnarflokkunum og kalli þá til ábyrgðar á stjórnarstefnu síðustu 12 ára. Það er forsenda þess að hér verði skipt um ríkisstjórn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mæl þú manna heilastur. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Lifi Kaffibandalagið og fram til sigurs í vor.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2007 kl. 00:54
Hvernig ætlið þið að ná fram stefnu ykkar um t.d. "raunverulegt jafnrétti" án þess að beita einstaklinga ofbeldi og þvingunum?
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.