29.3.2007 | 20:11
Blindir þurfa betri menntun
ÞAÐ er kunnara en frá þurfi að segja að þótt jafnrétti til náms sé við lýði á Íslandi í orði kveðnu, er það ekki þannig í reynd. Ýmsir einstaklingar og hópar búa við lakari aðstæður hvað menntun snertir, vegna þess að þeim er ekki gert kleift að afla sér þeirrar menntunar sem almennt er í boði. Þetta á til dæmis við um blinda. Þess vegna hafa hagsmunasamtök blindra barist fyrir því að blindum og sjónskertum verði tryggð viðunandi þjónusta í skólum landsins.
Nýlega átti ég þess kost að sækja kynningarfund sem Blindrafélagið efndi til og var sjónum beint að stjórnmálamönnum, bæði í landsmálum og sveitarstjórnarmálum. Þar var kynnt afar áhugaverð skýrsla sem tveir breskir sérfræðingar hafa unnið og tekur á stöðu blindra og sjónskertra nemenda innan íslenska skólakerfisins. Sjónstöð Íslands telur að hér á landi séu um 120 blind og alvarlega sjónskert börn. Þau eiga að sjálfsögðu allan rétt á viðhlítandi úrræðum í skólakerfinu til að sitja við sama borð og sjáandi einstaklingar. Í grein sem Ágústa Gunnarsdóttir, ritari Blindrafélagsins, ritar í Morgunblaðið 12. mars sl. kemur fram að aðstæður blindra og sjónskertra voru til muna betri á árum áður, en þær hafa versnað mjög eftir að sérdeild fyrir blind og alvarlega sjónskert börn var lögð niður. Þar voru þá starfandi sérmenntaðir blindrakennarar sem gátu leiðbeint og veitt ráðgjöf öðrum kennurum sem höfðu sjónskerta nemendur í sinni umsjá.
Bresku ráðgjafarnir leggja til margvíslegar aðgerðir til að bæta menntun blindra og sjónskertra á Íslandi. Ein af tillögum þeirra er að stofna þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í skólamálum. Það er talið afar þýðingarmikið að koma slíkri miðstöð á laggirnar en verkefni hennar yrðu m.a. að semja staðla fyrir landið, þróa samþætta þjónustu við blinda og sjónskerta námsmenn með þátttöku þeirra og í samvinnu við stofnanir á sviði menntamála o.fl. Með aðalbækistöð í Reykjavík og aðgengilegri gagnamiðstöð yrði unnt að veita slíka þjónustu í sveitarfélögum um land allt.
Á opnum fundi á vegum Blindrafélagsins í febrúar sl. um menntunarmál blindra og sjónskertra, undir yfirskriftinni "Þurfa blindir menntun?", var ályktað um þessi mál. Í ályktun fundarins segir:
Fundurinn skorar á menntamálayfirvöld að beita sér nú þegar fyrir því að sett verði á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í skólamálum blindra og sjónskertra. Í skýrslu sem samin hefur verið af tveimur breskum sérfræðingum, þeim John Harris og Paul Holland, og gerð var fyrir tilstuðlan Blindrafélagsins, kemur glöggt fram að brýn nauðsyn er á að stofna slíka miðstöð. Fundurinn leggur áherslu á að fyrrnefnd skýrsla verði höfð að leiðarljósi þegar skipulögð verður þjónusta við blinda og sjónskerta námsmenn. Fundurinn skorar á menntamálayfirvöld að tryggja að allir grunn- og framhaldsskólanemendur landsins hafi jöfn tækifæri til að afla sér menntunar. Fundarmenn telja að tími umræðna og vangaveltna sé liðinn og tími framkvæmda runninn upp.
Það eru sannarlega orð að sönnu að tími aðgerða sé runninn upp. Tillögur um að þekkingarmiðstöð verði komið á fót og hún vistuð hjá Blindrafélaginu og/eða Sjónstöð Íslands hafa legið í menntamálaráðuneyti, en ráðuneytið mun ekki hafa talið heppilegt að slík miðstöð yrði rekin af þeim aðilum. Engar aðrar lausnir eru þó í sjónmáli. Nú þarf að taka til hendinni og tryggja blindum og sjónskertum nemendum vafningalaust rétt sinn til náms til jafns við aðra og það á að sjálfsögðu að gera í samstarfi við Blindrafélagið og Sjónstöðina. Það er vel hægt og tækni hefur fleygt fram á undanförnum árum sem gerir allt starf í þessa veru auðveldara. Íslenskt samfélag getur ekki verið þekkt fyrir að mismuna nemendum með þeim hætti sem blindir og sjónskertir búa við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. mars sl.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Facebook
Athugasemdir
Takk Árni Þór, þessi grein hafði alveg farið fram hjá mér í Mogganum
Herdís Sigurjónsdóttir, 2.4.2007 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.